ÁGÚSTDAGAR 2010
24.8. ÞRIÐJUDAGUR
Fínt veður, gola, sólskin, hiti 15°. Fullt tungl, kalt um kvöldið.
25.8. MIÐVIKUDAGUR
Algjört rjómaveður. Heiðríkt og logn fram eftir degi. Hvessti dálítið þegar leið á daginn, en enginn bilbugur á sólinni. Mestur hiti um 16°.
Þrumu finnst mjög gaman að fara í göngutúr á Kotagranda og Suðurnesið, margt að skoða og þefa af. Leyfi henni öðru hverju að hlaupa í fjörunni. Þar er nú ekki dónalegt að snuðra í þanginu. Fórum á þær slóðir í morgun og tókum okkur góðan tíma í síðasta göngutúrinn, enda veðrið og umhverfið allt dýrðlegt.
K-in komu frá Bandaríkjunum í morgun og Katrín og Kristján komu að sækja Þrumu um miðjan daginn. Hún var ósköp ánægð að sjá þau, en hér er hennar saknað.
Spjallaði við Svönu, sem hefur ekki fengið nógu gott veður fyrir norðan í ágúst og ekki fengið nægilega útrás við berjatínslu. Hins vegar dauðöfunda ég hana af því að geta farið í Mývatnssveitina í dag. Þar verður rækilega minnst uppreisnar og aðgerða fjölmargra Mývetninga fyrir réttum 40 árum, þegar þeir sprengdu Miðkvíslarstíflu í Laxá. Með þeirri aðgerð var harðlega mótmælt áformum um þrjár virkjanir í Laxá, en deilur um þær fyrirætlanir höfðu staðið lengi. Barátta Þingeyinga gegn þeim áformum var löng og ströng, en þeir höfðu betur að lokum.
26.8. FIMMTUDAGUR
Gott og fallegt veður í dag og alveg einstaklega fallegt kvöld. Kvöldsólin roðar skýin og býður svo tunglinu að taka við.
Hringdi í Svönu og fékk lýsingu á samkomuhaldinu í Mývatnssveit í gær. Fjöldi fólks fylgdist með athöfninni við Miðkvísl þar sem afhjúpaður var minnisvarði um stíflurofið fyrir 40 árum. Viðstaddir fylltu síðan Skjólbrekku og hlýddu þar á ræður og söng. Öfund mín jókst um allan helming! Hefði svo sannarlega viljað vera viðstödd.
27.8. FÖSTUDAGUR
Stillt og notalegt veður. Hiti fór víst ekki mikið yfir 12°.
28.8. LAUGARDAGUR
Gott og fallegt veður. Heiðríkt. Sólríkt. Mestur hiti 13-14°.
Fengum “krakkana” í heimsókn fyrir hádegið og buðum upp á góðmeti af ýmsu tagi. Sindri og Breki buðu upp á óvæntan glaðning, nýbakaða kanelsnúða sem þeir báru á borð með glaðhlakkalegu fasi. Þeir kunna vel að meta heimilisfræðin í skólanum sínum og skemmtilegast að fá að baka. Sindri lærði snúðabakstur í skólanum í gær og sá sér leik á borði að baka fyrir allan hópinn í morgun. Eftir matinn sátum við á pallinum í góða veðrinu og spjölluðum margt.
29.8. SUNNUDAGUR
Hæglætis veður, sólarlaust, örlítil væta, mestur hiti 13°.
Stanslaust fjör hjá Dóru og sonum. Hún tekur strikið til Belgíu á morgun og allt í einu er svo margt ógert. Strákarnir víkja ekki frá mömmu sinni og þau storma saman milli vina og vandamanna. Okkur Jónasi hlotnaðist sá heiður að fara með þeim á Ítalíu til kvöldverðar. Snæddum gott og vel og áttum þar skemmtilega stund.
30.8. MÁNUDAGUR
Sama veður og í gær, nema heldur blautara.
Miklar annir frá því snemma morguns því auðvitað tókst ekki að ljúka öllu sem gera þurfti. En það hafðist og við Jónas og prinsarnir fylgdu Dóru í flughöfnina. Strákarnir voru afar stoltir yfir því að þeir fóru ekki að gráta á kveðjustund. Líklega hefur mestu þar um ráðið, að mamma gaf þeim leiki sem þeir höfðu lengi þráð að eiga. Það var því um nóg að tala á heimleiðinni.
31.8. ÞRIÐJUDAGUR
Hlýtt og stillt veður. Sólarlaust og svolítil væta öðru hverju. Mestur hiti um 15°.
Hesthúsið þrifið í dag. Allir mættu til leiks svo að verkið gekk mjög vel. Gott að vera búin að því.