Gott að dreyma hesta

NÓVEMBERDAGAR

25.11. FIMMTUDAGUR

Eitthvað var ég undarleg fyrstu sólarhringina eftir spítalavistina. Þurfti mikið að sofa og dreymdi heil ósköp. Yfirleitt ótrúleg della, eins og draumar eru flestir, og man ekki baun af þeirri vitleysu. Tvisvar dreymdi mig hesta, báða brúna. Annar var Garpur Jónasar, frábær skeiðhestur. Hinn var hann Prúður minn, albesti hestur sem ég hef setið. Leið vel með þessa drauma.

Það er sem sagt gott að dreyma hesta. En það er líka gott að lesa bækur. Arsenikturninn eftir Önnu B. Ragde stytti mér stundir á spítalanum. Mjög sérstök bók. Situr enn í mér. Vel skrifuð, stundum falleg, en oftar andstyggileg, heillandi, en grimm.

Þá tók við Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur. Skáldsaga byggð á heimildum um Tyrkjaránið árið 1627 og þrældóm Íslendinga í Barbaríinu. Þetta er mikil saga um ótrúlegar raunir og erfiðleika. Steinunn vann að þessari sögu í mörg ár, ferðaðist um söguslóðir og aflaði upplýsinga víða. Vissulega er erfitt að höndla sannleikann, en bókin er spennandi og vel gerð.

Eftir þessar löngu dramatísku bækur fannst mér upplagt að snúa mér að glæpasögu eftir Jo Nesbö hinn norska. Nú til dags virðist krafan vera um langar sögur, helst ekki færri en 4-500 blaðsíðna, og Nesbö hristir það fram úr ermi. Mikið gengur á í lífi aðalhetjunnar. Lendir í slíkum hremmingum, að fæstir hefðu lifað þær af í alvörinni. Ssögur Jo Nesbö eru þrælspennandi.

Nú ætla ég hins vegar að lesa eina af eftirlætisbókum mínum, Uppvöxtur Litla trés eftir Forrest Carter. Góð tilbreyting frá hinum þremur. Allt öðru vísi bók og engri lík.

26.11. FÖSTUDAGUR

Nú er frost á Fróni, en bæði himinn og jörð skarta sínu fegursta. Alltaf mikil umferð gangandi og hlaupandi fólks hér fram með sjónum. Sé að fæstir nota stíginn, sem líklega er háll. Nýr stígur er að verða til í grasinu til hliðar.

27.11. LAUGARDAGUR

Laugardagurinn 27. nóvember rann upp bjartur og fagur. Heiðríkur, frostkaldur, en ótrúlega fallegur eins og svo oft á okkar fagra landi. Merkisdagurinn þegar við kjósum fólk á stjórnlagaþing. Algjör nýung, sem vonast er til að fari vel fram og skili góðu fólki til góðra verka. Spor í eflingu lýðræðis.

Og nú er fjör í Bláfjöllum. Ljósin blika í fjöllunum, sérstaklega þegar dimma tekur. Það hefur gefið í skíðabrekkurnar síðustu daga. Rétt eins og veðurguðirnir og fjöllin hafi tekið við sér þegar borgarstjórinn gaf til kynna að loka mætti skíðasvæðinu í Bláfjöllum til að spara nokkrar milljónir.

Breki bauð til veislu í tilefni 10 ára afmælisins, sem var 14. nóvember, en þá naut hann lífsins með mömmu og Sindra í Gent. Vel var mætt í veisluna á Lundi, og margt skemmtilegt kom upp úr gjafapökkum. Ekki vantaði góðmeti á borð, og alltaf er gaman að hitta afmælisgestina, sem maður sér yfirleitt ekki ella.

28.11. SUNNUDAGUR

Enn herðir frost og enn er fjör í Bláfjöllum.

Nú er ljóst að þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings varð aðeins tæplega 37%. Það eru auðvitað vonbrigði. Fólk hefur kallað eftir breytingum og ekki síst auknu lýðræði. Kannski hefur verið boðið upp á of miklar breytingar og of mikið lýðræði! En nú er talið í Laugardalshöll. Það tekur tímann sinn þótt færri kysu en búast mátti við. Við verðum að bíða morguns eftir niðurstöðu.

Í dag sýna krakkar fimleika í íþróttahúsinu hér á Nesinu. Ég mátti til með að sjá 4-5 ára hópinn, þar sem Áslaug skemmtir sér af lífi og sál. Og ekki brást hún vonum. Stærri krakkarnir sýndu listir sínar síðar um daginn og þar á meðal Auður, sem er vaxandi fimleikamær, enda búin að stunda íþróttina í allmörg ár.

29.11. MÁNUDAGUR

Veðrið skipti aldeilis um skoðun í nótt. Var komið vel yfir frostmark í morgun og farið að rigna. Hálkublettir kipptu fótum undan gangandi fólki og nóg að gera á Slysavarðstofu.

Enn dreymdi mig um hesta. Stóran hóp hesta, sem þeystu um grundir og móa. Einhver draumaspekúlant hefði líklega gaman af að ráða hestadrauma mína.

Enn lengist biðin eftir niðurstöðum kosninganna um stjórnlagaþingið. Nú sitja talningameistarar yfir tíuþúsund vafaatkvæðum. Merkilegt að svo margir kjósendur gætu flaskað á þessu skrítna kerfi, sem var þó ekkert sérlega flókið. Vonandi verða þó flest vafaatkvæðanna nýtileg. En forvitni okkar verður ekki sefað fyrr en á morgun.

30. 11. ÞRIÐJUDAGUR

Þokusúld í dag. Hálkan minni en í gær sem betur fer.

Loksins fengu landsmenn að frétta af niðurstöðum kosninganna, og fljótlega logaði allt á netinu. Synd að segja að allir væru jafn ánægðir, enda vart við að búast að þessi 25 af 522 frambjóðendum féllu öllum í geð. Ekki nenni ég að vera í rótarfýlu þótt sárafáir næðu inn á þingið af þeim sem ég kaus. Mér finnst þó afleitt að aðeins 3 af landsbyggðinni fá sæti á stjórnlagaþinginu. Vissulega buðu ótrúlega fáir sig fram utan Reykjavíkur og nágrennis, og kjörsókn var almennt lélegri þar. Það segir sitt. Sjálf er ég landsbyggðarkona þrátt fyrir að hafa búið árum saman á suðvesturhorninu. Þekki margt af því landsbyggðarfólki, sem bauð sig fram, og lagði mig í líma að kynna mér aðra sem ég ekki þekkti. En ekki dugði það.

Dýrðlegt veðrið lokkar

NÓVEMBERDAGAR

16.-24.11.

Oftast er þessa daga fallegt út að líta og mun hlýrra en síðustu tvær vikur. Dýrðlegt veðrið lokkar og laðar, og loksins steig ég skrefið til útivistar sunnudaginn 21. nóv. Það er því miður ekki fyrirhafnarlaust að búa sig til gönguferðar. Gekk þó sæmilega og hjálparlaust nema að ég get ekki sjálf komið mér í góða gönguskó. Óneitanlega fyrirhafnarminna að ganga fram og aftur um gólfin innan dyra og gera æfingar til styrkingar. Þarf enga aðstoð við það.

Oft verður mér hugsað til formæðra okkar og forfeðra, hvernig þau þurftu að glíma við alls kyns veikindi, slæmsku í skrokknum, gigt í baki og höndum, ónotum í maga, verkjum í mjöðmum og fótum. Ekki stóð þeim margháttuð þjónusta til boða né galdraverk læknanna, sem nú gera við okkur á ýmsa lund svo að við getum bætt nokkrum verkjalausum árum við lífið og tilveruna. Ekki ætla ég að kvarta, þótt þetta taki allt sinn tíma.

Missi náttúrlega af alls konar skemmtun, svo sem flokksráðsfundi Vinstri grænna, sem haldinn var 19. og 20. og var víst ekki þegjandalegur mannsöfnuður. Ég hefði svo sem getað fengið bílfar á staðinn og haft með mér sessu samkvæmt fyrirmælum, en nennti ekki að vekja athygli fundarmanna á fötlun minni. Reyndi að fylgjast með dýrðinni í fjölmiðlum og met það svo að endir hafi orðið skikkanlegur.

Kosið verður á Stjórnlagaþing laugardaginn 27.11. Búist er við mikilli örtröð vegna þess hvernig staðið er að kosningunni. Við Jónas kusum utankjörstaðar mánudaginn 22.11. til þess að losna við bið og troðning á kjördaginn. Það gekk aldeilis bærilega og tók lítinn tíma. Nú er bara að bíða eftir niðurstöðunni.

Mörgum finnst þetta allt saman mjög flókið. Frambjóðendur urðu mun fleiri en búist var við, samtals 522. Niðurstaðan varð að númera alla og láta kjósendur skrá númerin á kjörseðilinn. Upplýsingablað var sent inn á hvert heimili með kynningu á frambjóðendum og hvernig kosningin fer fram. Fór rækilega gegnum þetta allt saman og skemmti mér hið besta. Sérlega var gaman að sjá hve margar konur bjóða sig fram.

Nokkrir hafa kvartað yfir framkvæmd kosninganna. Í rauninni er þetta þó ekkert flókið. Það er bara hið besta mál að gera hlutina ögn öðruvísi en verið hefur. Tel þetta skemmtilega tilraun til að taka á þessum málum á lýðræðislegan hátt. Það þarf að reyna að gera sem flestum kleyft að taka þátt í mótun og þróun samfélagsins.

Sindri og Breki eru komnir heim úr heimsókn til mömmu sinnar í Gent, himinglaðir með allt sem þeir gerðu með henni. Þau skoðuðu sig m.a. um í Brüssel og París, sem var víst hápunkturinn. Breki átti afmæli sitt þar úti og býður nú til afmælisveislu hér heima.

Við erum komin með merkilegt gæludýr, glaðlega flugu, sem svífur hér um húsið og suðar stundum í eyra. Hélt að flestar flugur af þessu tagi væru lagstar í dvala nú um stundir. Þessi tekur ekkert mark á slíku. Hef ekki séð hana fá sér snæðing, en hún lifir og leikur sér.

4 kíló í Fossvogi

NÓVEMBERDAGAR

1.–15.2010

Var deyfð að morgni 1. nóvember og send á skurðstofuna í Landspítala Fossvogi með ekkert feiki mikla rænu. Þá búin að skrúbba mig frá toppi til táar með sótthreinsandi sápu og gleypa eitthvert dýrindi sem bauð upp á algjört kæruleysi. Hafði ímyndað mér að geta fylgst með aðgerðinni, en kæruleysið sá fyrir því. Kannski eins gott. Hlustaði sallaróleg á sagarhljóð og önnur ólæti í verkafólkinu við skurðarborðið. Velti fyrir mér hvort ég hefði lent inn á bílaverkstæði! Merkilegt að upplifa viðgerð á mjaðmarskarninu án þess að hafa döngun í sér til að kíkja hvað þá meira.

Þetta var sem sagt ekki mikið mál, en öllu verra með framhaldið. Hafði búist við að komast heim á 4. degi, en ekki gekk það. Lenti í svima og ónotum, sem lagaðist þegar skipt var um verkjalyf, en þá tók ekki betra við þegar ég kom ekki niður matnum sem á borð var borinn. Loks var mér sleppt heim á sjöunda degi, en eftir urðu 4 kíló í Fossvogi.

Svei mér gott að koma heim, og brátt lagaðist vesalings maginn. Og allt skánar þetta með degi hverjum þótt ég gæti hugsað mér að batahraðinn væri aðeins æsilegri. Einn læknanna sem kom til herbergisfélaga míns með viðgert hné sagði: Þetta er vont, en nú eru það bara verkir og vinna. Það er auðvitað alveg rétt. Nú er að efla vöðvana með alls konar æfingum og spranga um gólf til að ná skikkanlegu göngulagi. Sakna hálfpartinn gönguferðanna um spítalaganginn, þar sem hægt var að spjalla ögn við álíka hressa göngugarpa. Skildum hvert annað svo dæmalaust vel.

Í dag tíndi heimilislæknirinn úr mér málmheftin – vonandi ekki úr áli. Það var mikill léttir. Og nú á ég mun betra með að sitja öðru hverju. Þetta er allt að koma.

Bestu fréttirnar eru þó að Katla hefur að öllum líkindum fengið góðan bata í lungunum sínum. Hún hefur ítrekað orðið fyrir því að fá samfallið lunga. Lenti á spítala í fjórða sinn í Íþöku (Cornell University) fyrir skömmu og var nú ákveðið að taka ærlega á málinu. Katrín flaug vestur til að styðja hana og styrkja og halda læknum þar við það sem gera þurfti. Var þar í hálfa aðra viku og er nú á heimleið. Katla er sem sagt komin af spítalanum og eins og amma gamla: Þetta er allt að koma!

Veðurguðir andvígir kvennabaráttu?

OKTÓBERDAGAR

26,10. ÞRIÐJUDAGUR

Í gær, á sjálfan kvennafrídaginn, var afleitt veður, rok og rigning. Um það bil 50 þúsund konur létu ekki veðurhaminn á sig fá og streymdu í miðbæ Reykjavíkur. Og fréttir bárust víðar af landinu þar sem konur söfnuðust saman og létu til sín heyra. Tilefnið var mikilvægara en svo að veðrið hindraði þær.

Konur hefðu betur fengið veður dagsins í dag. Nú er hægur vindur og bjart yfir. Hitinn var þegar kominn í 6° strax í morgun. Mætti ætla að veðurguðirnir séu andvígir kvennabaráttunni. Konur hafa löngum þurft að herða sig upp gegn mótlæti og veðurguðirnir beygja þær ekki frekar en margt annað.

27.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt út að líta, en kuldalegt. Nokkuð hvasst, en léttskýjað og sólskin mikinn hluta dagsins. Mildast S-lands segir Veðurstofan. Sérkennilega orðað í þessum kulda.

Nefndin mikla um Þjóðhátíðarsjóð átti annasaman fund í dag. Þetta er satt að segja ótrúlega skemmtilegt verkefni. Sem betur fer er heilmikil drift í fólki út um allt land og væri óskandi að nefndin góða hefði úr meiru að spila. Ég er búin að þjösnast í gegnum allar umsóknirnar og er bæði ánægð og leið. Ánægð með hversu áhugasamir og hugmyndaríkir margir umsækjenda eru. Leið yfir því hvað nefndin hefur lítið í sjóði sínum. Mörg ágæt verkefni, sem eru verðug stuðnings, hljóta að verða útundan.

Við eigum talsvert verk óunnið, og því miður verð ég til lítls gagns næstu daga og vikur. Leitaði læknis snemma í vor, þar sem vinstri mjöðmin var farin að angra mig, og niðurstaða hans var að ekki mætti bíða lengi með aðgerð. Sagði mér þó að ég gæti þurft að bíða hálft til eitt ár. Varð því bæði undrandi og fegin þegar mér var boðið upp á aðgerð 1. nóvember. Best að fá því aflokið.

28.10. FIMMTUDAGUR

Gott og skínandi fallegt veður. Heiðskírt og fremur stillt.

Þurfti að mæta snemma á Borgarspítalann til undirbúnings aðgerðarinnar á mánudaginn næsta. Þrjá og hálfan tíma tók það. Allt er þetta reyndar kunnuglegt því í nóvember 2004 var sams konar aðgerð framkvæmd á hægri mjöðminni. Var einmitt að lesa lýsinguna á því ævintýri í minnisbókinni, sem ég skrifaði 1. des. 2004.

Við Jónas ókum því næst austur á Kaldbak í góða veðrinu, sem var að vísu ekki alveg jafn gott og hér í suðvestrinu. Fyllti vasa mína af molum og gladdi okkar góðu vini, sem eru gráðugir í mola. Hestarnir líta vel út og líður vel í Kaldbakshögum. Ekki er líklegt að ég hitti þá fyrr en á næsta ári, en þá er mér líka óhætt að fara að hlakka til að komast aftur á bak

Fórum til Frú Laugu að kaupa í matinn og fengum þá sorgarfregn að gulrótaruppskeran á Gróðurstöðinni á Hæðarenda í Grímsnesi er uppurin. Hef ekki fengið betri gulrætur annars staðar.

29.10. FÖSTUDAGUR

Svipað veður og í gær nema heldur kaldara. Heiðskírt. Mestur hiti 3°.

30.10. LAUGARDAGUR

Hvasst og kalt, en heiðríkt og fallegt gluggaveður. Mestur hiti 4°. Og nú er kalt og hvasst á hestunum okkar. Fyrir norðan og austan er ennþá hvassara og víða frost, sums staðar lítils háttar snjókoma.

Sindri og Breki eru hér í heimsókn. Þeir láta ekki kuldabola aftra sér frá hverju sem er. Léku handbolta úti á lóð í rokinu og kuldanum. Held þeir hafi bara slegið út handboltakappana íslensku, sem voru að enda glímdu sína við handboltalið Austurríkis. Það fór ekki nógu vel.

31.10. SUNNUDAGUR

Ekki skortir fegurð himins, láðs né lagar, en það er napurt í vindinum. Hitinn undir frostmarki fram eftir degi, en fór þó upp í 3° um miðjan daginn. Sólin bjargar miklu. Nú hvessir með kvöldinu.

Fengum góða heimsókn barna(barna!), tengdadætra og barnabarna í hábítinn. Kúnst að raða í kringum borðið, en þröngt mega sáttir sitja. Skildingarnir færðu mér íðilfagrar rósir í tilefni afmælisins, sem einu sinni var.

Viðhorfin söm við sig

KVENNAFRÍ 25. október 2010

Hér sit ég heima og horfi út í rok og rigningu. Hugsa til kvenna um land allt, sem gera sitt til að vekja karla og konur til vitundar um að enn er þörf fyrir skelegga kvennabaráttu. Ég get ekki verið með í þetta sinn, en hugur minn er hjá þeim.

Datt allt í einu í hug að rifja upp einhverja þeirra fjölmörgu greina sem ég skrifaði á sínum tíma um stöðu kvenna og réttindabaráttu þeirra. Rakst þá á grein sem birtist í DV 7. október 1999. Yfirskrift greinarinnar er “Viðhorfin söm við sig”. Og enn andvörpum við konur yfir því hversu hægt gengur að ná þeim réttindum sem okkur ber. En það eitt er víst: Við gefumst aldrei upp!

Þessi 11 ára grein en framlag mitt til þessa hvassa og rennblauta baráttudags, sem er kannski táknrænn fyrir margra ára kvennabaráttu.

– – –

VIÐHORFIN SÖM VIÐ SIG

Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum.

Enn ein skýrslan hefur litið dagsins ljós þar sem kynbundið launamisrétti er staðfest á óyggjandi hátt. Í rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann að tilhlutan Verslunarmannafélags Reykjavíkur kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlmenn í hópi félagsmanna hafi 30 % hærri heildarlaun en konur. Viðurkennt er að kynbundinn launamunur nemi 18 % meðal fólks í fullu starfi þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, vinnutíma, aldurs og starfsaldurs. Enn einu sinni sannast að ekki er hið sama á borði sem í orði. Viðhorfin eru söm við sig.

Sífellt skipt um skrá

Í rauninni kemur þessi niðurstaða ekki á óvart. Hún er fullkomlega í takt við niðurstöðu samanburðar Félagsvísindastofnunar á launakjörum kvenna og karla sem birt var í byrjun árs 1995 og varð tilefni mikillar umfjöllunar í kosningabaráttunni það ár. Þá vakti ekki síst athygli og umræður sú staðreynd að kynbundinn launamunur fer vaxandi eftir því sem menntunin er meiri. Þar með reyndist tálvon sú kenning að lykillinn að launajafnrétti væri fólginn í menntun kvenna til jafns á við karla. En því hefur einmitt mjög verið haldið að konum sem svo sannarlega hafa sótt fram á sviði menntunar og rannsókna á síðustu áratugum. Þær eru jafnvel komnar fram úr körlum á ýmsum sviðum. Þegar þær hins vegar koma út á vinnumarkaðinn með lykilinn að launajafnréttinu í höndum sér er einfaldlega búið að skipta um skrá.

Með hraða snigilsins

Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum. Veruleikinn er því miður oft víðs fjarri orðaflaumi laganna. Og hugarfarsbyltingin fer með hraða snigilsins.

Hvers vegna þegja nú konur þunnu hljóði? Er kvennabaráttan í slíkri lægð um þessar mundir að Magnús L. Sveinsson verði látinn einn um viðbrögð við þessum fréttum? Ætla konur að kyngja þeirri skoðun sem nýlega kom fram á kvennafundi að reiðar konur séu ekki í tísku um þessar mundir? Hvers vegna taka t.d. konur á stórum vinnustöðum sig ekki saman um það að fá kjaramálin upp á borðið og krefjast réttar síns? Er nú svo komið á tímum einstaklingshyggjunnar að konur trúi ekki lengur á mátt samstöðunnar?

Er kannski kominn tími á enn einn kvennafrídaginn til þess að efla baráttuandann og hrista upp í stöðnuðum hugmyndum?

Karlar axli ábyrgð

En það eru ekki bara konur sem þurfa að líta í eigin barm eins og gjarna er haldið að þeim í trausti þess hversu auðvelt er að ala á sektarkennd kvenna. Þjóðfélagið allt þarf að bregðast við, Alþingi, sveitarstjórnir, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin, og gera fólki – bæði körlum og konum – kleift að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Til þess þarf að breyta löggjöf um fæðingarorlof og um orlof vegna veikinda barna, það þarf að stytta vinnudaginn og auka sveigjanleika á vinnumarkaðnum. Það þarf að kalla launagreiðendur til ábyrgðar.

Og ekki síst þurfa karlar að taka sig ærlega á og axla sinn hluta ábyrgðarinnar á heimilishaldi og umönnun barnanna. Meðan konur hafa þá ábyrgð enn að stærstum hluta eiga þær erfitt með að sækja rétt sinn á vinnumarkaði. Körlum ber að styðja konur í baráttunni jafnvel þótt það kosti þá einhverjar fórnir.

Kvennalistakonur höfðu alla sína tíð á Alþingi sterkt frumkvæði í umræðu um launamál og þá sérstaklega launamisrétti kynjanna. Þær héldu á lofti staðreyndum og lögðu fram tillögur til úrbóta. Þær tryggðu að umræðunni var haldið á lofti. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim málstað verður sinnt á næstu árum.

Grænmetisstóriðju á Bakka!

OKTÓBERDAGAR

18.10. MÁNUDAGUR

Allt í einu finn ég fyrir því að veturinn nálgast fyrir alvöru. Það snjóaði í fjöllin í nótt. Talsverður vindur og langt síðan hefur verið jafn kalt. Bjartviðri. Mestur hiti 5°. Merkilegt hvað blómin eru ennþá borubrött.

Brugðum okkur á Kryddlegin hjörtu í Skúlagötu. Notalegt að fá sér þar bragðmikla og brennheita súpu og fjölbreytilegt salat. Manni hitnar almennilega og veitir ekki af, þegar hitastigið er dottið niður undir 2°. Máninn er m.a.s. hálf eymdarlegur á svipinn.

19.10. ÞRIÐJUDAGUR

Glæsilegur morgun. Algjört logn. Mælirinn sýndi 1°. Fegurð himinsins kallaði á heimsókn í Suðurnes. Fuglarnir voru ósköp kúrulegir á Bakkatjörninni. Klukkan 9:40 hríðaði svo í logninu! Það stóð reyndar ekki lengi. Rigning með köflum allan daginn eftir einleik morgunsins í allri sinni fegurð.

20.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt veður en kalt. Hitastigið teygði sig upp í 5°.

Átti rólegan og notalegan afmælisdag með heimilisfólkinu. Jónas gaf mér diskasett með náttúrusögumyndum, Planet Earth. Reyni ekki að lýsa dýrðinni, en þetta er stórkostlegt á að horfa. Pétur og Marcela færðu mér ilmandi kroppakrem, þótt ég væri búin að banna þeim að eyða peningum í afmælisgjöf. Sindri og Breki færðu mér kossa og knús. Við spiluðum Ólsen, Ólsen, og Veiðimann með tilheyrandi gríni og hlátrasköllum. Fengum okkur svo býsna góða köku, svokallaða Hjónabandssælu, sem ég keypti alveg sjálf úti í búð!

21.10. FIMMTUDAGUR

Hitastigið komst í heil 3°. Skýjað mestallan daginn. Bjartara á Kaldbak, en eitthvað kaldara þar. Pálmi er þar með dætur þrjár og tvær vinkonur til viðbótar. Allt í fjöri. Sigrún bætist svo í hópinn um helgina.

Fyrsta spilakvöldið með Þórði og Sólu. Finnst alltaf gaman að spila bridds þótt mér fari lítið fram í þeirri list. Slapp þokkalega í þetta sinn. Kannski líka aðalskemmtunin að hitta hjónin og spjalla saman.

22.10. FÖSTUDAGUR

Ekki beint notalegt utan dyra vegna snarprar golu. Léttskýjað mestan hluta dagsins, en hitastigið náði aðeins 3° í smátíma.

Rakst á eftirfarandi texta á fésbókinni undir yfirskriftinni: Grænmetisstóriðju á Bakka: “Við hvetjum Húsvíkinga til að setja á fót hátæknigróðurhús og matvælastóriðju á Bakka við Húsavík. Þingeyingar eru rómaðir fyrir góðan mat og eru vonarstjörnur Íslands á sviði útflutnings á ávöxtum og grænmeti.”

Ekki veit ég hver á upptökin, en fjölmargir leggja orð í belg og hrífast af hugmyndinni. Frábært ef hún yrði framkvæmd. Orkuna til matvælastóriðju er hægt að nálgast á Þeistareykjum, sem þegar er búið að raska ótæpilega. Og í Aðaldalnum bíður þessi líka fíni flugvöllur, sem var lokað fyrir nokkrum árum, en gæti fyllilega dugað fyrir flutninga með afrakstur matvælastóriðjunnar. Flott!

23.10. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag. Held m.a.s. að hitinn hafi nálgast 5°. Veðurstofan spáði snjókomu í uppsveitum Árnessýslu, en nafna mín svaraði mér þegar ég hringdi á Kaldbak til að forvitnast. Hún lét aldeilis bærilega af vistinni á Kaldbak, nýkomin úr göngutúr með Áslaugu og mömmu sinni. Engin snjókoma sagði hún.

24.10. SUNNUDAGUR

Fallegt veður fram eftir öllum degi. Heiðríkt og lítill vindur. Þegar sólin gægðist yfir fjöllin hreykti fullur máninn sér beint á móti. Feyki flott!

Fullt af fólki á Kotagranda og í Gróttu. Dýrmætt að geta notið veðurs og umhverfis hér á næstu grösum. Gerði loksins gangskör að því að tína saman garðáhöld og sitthvað fleira og kom því fyrir í kompu. Var því fegin þegar ég heyrði viðvaranir veðurfræðings, sem bjóst við hvassviðri í nótt og á morgun.

Sjónvarpið sýndi ágætan þátt í kvöld undir nafninu Vigdís, fífldjarfa framboðið. Þar voru sýndar svipmyndir frá kosningabaráttu og kjöri Vigdísar árið 1980 og var gaman að rifja það upp. Sumt var hreinlega fyndið, sérstaklega þegar karlkyns frambjóðendur reyndu að rökstyðja mikilvægi þess að forsetar hlytu að vera karlar með konur sér við hlið. Vigdís bar af körlunum. Þetta var viðburður sem skipti gríðarlega miklu máli fyrir jafnréttisbaráttu kvenna. Viðburður sem hvatti konur og styrkti. Höfundarnir Guðfinnur Sigurvinsson og Ragnar Santos tileinkuðu konum landsins þennan þátt, sem var vel við hæfi.

Ruglaðar flugur og köngulær

OKTÓBERDAGAR 2010

9.10. LAUGARDAGUR

Gott veður, stillt og ljúft. Mestur hiti í dag 13°. Því miður fékk sólin ekki að skína nógu lengi.

10.10. SUNNUDAGUR

Frábært veður. Heiðríkt og glampandi sól. Mestur hiti 13°.

Fjöldi fólks naut útivistar í góða veðrinu á Nesinu. Golfvöllurinn þéttskipaður. Gangandi, hlaupandi og hjólandi fólk um alla stíga. Fjör í fuglunum við Bakkatjörnina því stöðugt var brauði hent til þeirra. Vonandi hafa þeir ekki fengið í magann.

Ótrúlegt veðurfar í október. Blómin vita ekki hvaðan á þau stendur veðrið. Flugur og köngulær vita ekki sitt rjúkandi ráð í blíðunni. Hunangsflugur og geitungar suða í kringum mann úti í garði, og fuglarnir halda líklega að það sé aftur komið vor.

Kári varð 14 ára í dag og fjölskyldan efndi að sjálfsögðu til góðrar veislu. Hann á það sannarlega skilið, einn af þessum yndislegu barnabörnum okkar sem eru öll svo frábær. Gaman þegar Katla systir hans, sem nú er við nám í Bandaríkjunum, birtist á skype í miðri veislu. Við þyrptumst náttúrlega að tölvunni og spjölluðum við hana. Skype er mikið þarfaþing.

Fékk rafmagnsklippur hjá Kristjáni. Við Pétur réðumst á víðigreinarnar hér heima, sem voru vaxnar langleiðina út á götu. Fengum áskorun frá bænum að klippa þessi ósköp, ella yrðu klipparar sendir til verksins á okkar kostnað. Maður lætur nú ekki nappa sig.

11.10. MÁNUDAGUR

Ágætis veður. Stillt, úrkomulaust og sólarlaust. Mestur hiti 12 °.

Kláraði að klippa víðigreinarnar og safnaði í poka. Reif upp heilmikið að auki úr beðum. Mikil hreinsun. Fórum með 7 poka í Sorpu og uppgötvaði svo að sá áttundi varð eftir!

Fundur í nefndinni um Þjóðhátíðarsjóðinn, þar sem við byrjuðum að skiptast á skoðunum um hvað við gætum styrkt. Fórum yfir tæplega helming umsóknanna. Hittumst aftur eftir hálfan mánuð.

12.10. ÞRIÐJUDAGUR

Hressilegt veður. Skýjað og svolítill vindur. Mestur hiti 11°.

Í morgun horfði ég á Lúðvík sundkappa skeiða rösklega eftir laugarbakkanum. Hann sveiflaði handleggjunum og trallaði. Maður kemst í glimrandi skap. Hann er ótrúlegur karlinn. Orðinn 96 ára gamall, sjóndapur og heyrnarlítill. Léttur á fæti og ber sig betur en flestir aðrir sem spranga um á bökkunum. Syndir 400 metra á hverjum morgni. Þvílík fyrirmynd.

Fékk uppljómun og hringdi í Málmfríði Sigurðardóttur, sem mér er nú tamara að kalla Möllu. Við höfðum um nóg að spjalla. Rifjuðum upp dagana okkar á Alþingi og leyfðum okkur að hneykslast rækilega á verklagi núverandi þingmanna. Það var nú eitthvað annað þegar við vorum og hétum! Ég er alltof ódugleg að hringja í gamlar vinkonur. Alltaf samt gaman þegar ég hef samband.

13.10. MIÐVIKUDAGUR

Enn er merkilega hlýtt í veðri, mestur hiti í dag 11°. Hellirigning þegar leið að kvöldi.

Systa var jarðsungin í dag. Það var falleg athöfn og óvenjulegt lagaval. Jarðarförin var kl. 11 og síðan var boðið upp á súpu og brauð. Það var ekki síður óvenjulegt en lagavalið. Ég kunni því vel.

14.10. FIMMTUDAGUR

Fjölbreytilegt veður í dag. Mestur hiti 11°. Stundum hellirigning, stundum sólskin. Best þegar sólin og regnið leggja saman. Ég hef sjaldan séð jafn glæsilegan regnboga og í dag. Stóran, heilan, skæran, ótrúlega fallegan.

15.10. FÖSTUDAGUR

Blautur dagur. Talsverð úrkoma. Mestur hiti 9°.

16.10. LAUGARDAGUR

Ennþá blautari dagur og dálítill vindur. Mestur hiti 11°.

Svona er víst veðrið um mestallt land, síst þó á Austurlandi.

17.10. SUNNUDAGUR

Ekki slæmt veður. Mestur hiti 10°. Rigning öðru hverju.

Í kvöld sýndi sjónvarpið fróðlega og bráðskemmtilega heimildarmynd eftir Pál Steingrímsson: “Krían – þrisvar til tunglsins og aftur til baka”. Krían er alveg makalaus. Ótrúlega kraftmikill fugl, sem er nær samfellt á flugi í 10 mánuði á ári. Hún flýgur allt til Suðurskautslandsins og aftur til baka. Og margir fuglar leitast við að hreiðra um sig í grennd við kríuna, sem ver varpstöðvar gegn árásum ránfugla af miklum krafti. Aðrir fuglar njóta þess. Frábær mynd Páls.

Þvaður á Bakkatjörn

OKTÓBERDAGAR 2010

1.10. FÖSTUDAGUR

Allsterkur vindur á austan. Skúrir. Mestur hiti 10°.

Gaman að fara um Suðurströndina í morgun. Þar uppi í brekku kraup maður og tíndi sveppi af miklum dugnaði. Var kominn með fullan poka og virtist ekki geta slitið sig frá speppamónum. Vonandi hefur hann vitað hvað hann var að gera. Neðan vegar var hins vegar stór og mikill gæsahópur, sem virtist bíða þess að komast upp í brekkuna. Hef þó ekki trú á því að gæsir sæki í sveppi, en þær kunna vel að meta grasið í brekkunni góðu.

2.10. LAUGARDAGUR

Yndælt haustveður. Mestur hiti 12°. Og enn er hann á austan. Sólin skein glaðlega um miðjan daginn. Ég sat úti á palli og las blöðin og sofnaði svo óvart í blíðunni. Ekki á hverjum degi sem boðið er upp á slíkan lúxus í október.

Geri annars lítið annað en að stúdera umsóknir um styrki úr þeim virðulega Þjóðhátíðarsjóði sem nú fer að renna sitt skeið á enda. Spennandi lesning!

3.9. SUNNUDAGUR

Gott veður. Hlýr austanvindur. Mestur hiti 13°.

Nú er fjárlagafrumvarp næsta árs komið upp á borðið og lítið um gleðilæti. Athyglin beinist ekki síst að stöðu foreldra með börn á framfæri. Fólk sýpur hveljur vegna lækkandi framlaga úr fæðingarorlofssjóði og styttingar fæðingarorlofs, að ekki sé nú minnst á skerðingu barnabóta.

Þegar við hjónin eignuðumst börnin okkar fjögur á árunum 1964 – 1974 var fæðingarorlofið 3 mánuðir og fæðingarstyrkurinn eitthvert lítilræði. Eða var hann einhver? Ég bara man það ekki. Og karlar voru ekki inni í dæminu, enda litið á þetta sem sérmál kvenna. Einhvern veginn klóruðum við okkur fram úr þessu á þeim tíma.

4.10. MÁNUDAGUR

Yndislegur morgun. Skafheiður himinn, blæjalogn. Mestur hiti dagsins 13°.

Fór í góðan göngutúr eftir Kotagranda og meðfram Bakkatjörn. Fuglum þar þótti heldur ómerkilegur gestur með tómar hendur. Vildi að ég hefði skilið þvaðrið í gæsunum á tjörninni. Þær voru í stórum hópi og höfðu svo mikið að segja, að það minnti á æsingafund á flokksþingi. Svo ruku þær allt í einu upp og tóku stefnuna til hafs og héldu þvaðrinu áfam á fluginu.

Við Jónas brugðum okkur á Þingvöll eftir hádegið að dást að margbreytilegri litadýrð jarðar. Ótrúlega fallegt. Eldgulur víðir og dökkblóðrautt berjalyng voru mest áberandi. Nú er einmitt hápunktur haustlitanna.

Með kvöldinu rauk vindurinn upp.

5.10. ÞRIÐJUDAGUR

Bálhvasst í nótt og morgun og áfram nokkuð hvasst allan daginn. Sjórinn hvítfyssandi sendi gusur upp á bakka. Engu að síður fallegt veður og þó einkanlega himinninn. Sólin lét ekki mikið sjá sig, en hún kveikti eld í skýjunum.

Merkilegt hvað fagurgular morgunfrúr og heiðbláar fjólur standast vindhviðurnar. Þær hafa greinilega ekki hugmynd um að það er kominn október.

6.10. MIÐVIKUDAGUR

Gott veður í dag. Nánast logn allan daginn. Mestur hiti 13°.

Nákvæmlega 2 ár í dag síðan Geir Haarde ávarpaði þjóðina í sjónvarpi og endaði mál sitt á “Guð blessi Ísland”. Eitthvað hefur sambandið verið lélegt milli þeirra félaganna, Geirs og Guðs, miðað við óánægju þjóðarinnar þessa dagana. Ég held satt að segja að flestir líti svo á að guði komi þetta bara ekkert við. Fólkið ber bumbur á Austurvelli. Telur kannski líklegra að það nái sambandi við verkafólkið á Alþingi heldur en guð á himnum, þegar öllu er á botninn hvolft.

7.10. FIMMTUDAGUR

Veður ágætt. Hlýtt og rigning öðru hverju. Mestur hiti 10°.

Hestar í morgunheimsókn

SEPTEMBERDAGAR 2010

24.9. FÖSTUDAGUR

Þokkalega hlýtt, en þungbúið og svolítil rigning öðru hverju.

Fórum á Kaldbak síðdegis. Greinilega ekki búið að sækja sauðféð sem tókst að flýja smalafólkið fyrir viku. Sáum a.m.k. 7 kindur spranga um brekkur og tún hinar ánægðustu.

25.9. LAUGARDAGUR

Blautur dagur, en hlýtt í veðri þrátt fyrir talsverðan vind. Mestur hiti 10°.

26.9.SUNNUDAGUR

Allhvasst að morgni, en 12° hiti. Hestarnir komu að girðingunni í morgunheimsókn og fengu að sjálfsögðu góðar móttökur og heil ósköp af molum, sem þeim þykja mikið góðgæti. Upp úr hádeginu æstist vindurinn skyndilega og í kjölfarið fylgdi dynjandi rigning. Um kvöldið voru sagðar fréttir af hvassviðri og mikilli úrkomu á Suðurlandi. Verst var undir Eyjafjöllum, þar sem ár bólgnuðu og flæddu yfir bakka sína. Fjöldi fólks var veðurteppt í Þórsmörk.

27.9. MÁNUDAGUR

Fallegt veður að morgni. 12° hiti, dól og hóflegur vindur. Hestarnir komu í morgunheimsóknina, fengu mola og voru síðan reknir í gerðið og á ranann þar sem þeir gátu úðað í sig öndvegis grasi.

Birkir á Hæli var væntanlegur síðdegis til að draga undan hestunum okkar og snyrta hófana. Hann tafðist nokkuð og var svona rétt að byrja þegar yfir okkur helltist hvassviðri og hellirigning. Sem betur fór vorum við búin að koma ormalyfi í hestana, og eru þeir nú vel búnir undir veturinn. Þeir virðast ágætlega á sig komnir, en enn vottar fyrir hor í nösum. Þessi fjárans pest heldur áfram að angra stóðið. Gaukur minn er einna verstur um þessar mundir.

28.9. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalega hlýtt, en rigning öðru hverju.

Indriði Þorláksson, skólabróðir í M.A., er sjötugur í dag og bauð til veislu. Segist lítið fyrir afmælisveislur, en lofar að halda upp á afmælið sitt á 70 ára fresti. Þetta var bráðskemmtileg veisla. Indriði sló tóninn, sagði frá ýmsu úr lífi sínu og reytti af sér brandarana. Hann lærði m.a. í Berlín og var svo lánsamur að sjá og heyra John F. Kennedy mæla fram þá heimsfrægu setningu “Ich bin ein Berliner”. Sagan segir að Georg Bush hafi nokkrum árum síðar ætlað að sýna að hann væri ekki minni maður en Kennedy, en varð fótaskortur á tungunni og sagði: “Ich bin ein Hamburger”. Margt fleira skemmtilegt fékk að fjúka úr pontunni og margir vildu heiðra afmælisbarnið. Og ekki var leiðinlegt að hitta árganginn góða að norðan. Hann mætti vel.

Það var sannast sagna ljómandi gott að fá svona góða skemmtun á þessum degi einmitt þegar alþingismenn voru nýbúnir að greiða atkvæði um ákærur á hendur fjögurra fyrrverandi ráðherra. Sú atkvæðagreiðsla varð Alþingi til skammar.

29.9. MIÐVIKUDAGUR

Læti í veðrinu lungan úr deginum. Grenjandi hvasst og hellirigning. Ekki þó kalt, hitinn fór yfir 10°. Milt og stillt að kvöldinu.

30.9. FIMMTUDAGUR

Rólegra veður en í gær. Skikkanlegur vindur og meinlausar skúraleiðingar. Hitastigið var um 10°.

Þessa dagana sit ég lon og don yfir umsóknum um styrki úr Þjóðhátíðarsjóðnum og gengur hægt, enda skipta umsóknir mörgum tugum. Þar er margt um merkileg og gagnleg verkefni, sem ástæða væri til að styrkja. En blessaður sjóðurinn býr nú ekki að neinum auðæfum og hætt við að margir umsækjendur verði fyrir vonbrigðum þegar aurunum verður deilt á mannskapinn.

Lögin hans Fikka

SEPTEMBERDAGAR

21.9. ÞRIÐJUDAGUR

Kalt að morgni, en nálgaðist 10° þegar á leið. Stillt veður og þægilegt.

Sindri og Breki koma til okkar á þriðjudögum að vanda og gista aðfararnótt miðvikudags vegna þess að Ómar vinnur yfirleitt langt fram eftir kvöldi á þriðjudögum. Það er sértsaklega gaman að fá þessa gesti, ef gesti skal kalla, þeir hafa svo oft verið hér á Fornuströnd að þeir líta á það sem sitt heimili. Þeir sinna heimanáminu hér og leggja sitt af mörkum í eldhúsinu. Tölvan mín og sjónvarpið draga þá að sér, en ekki er síður vinsælt að spila á spil. Svo bregða þeir sér stundum í fótbolta úti í garði. Góðir strákar.

22.9. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt haustveður í dag. Skafheiður himinn og sól frá morgni til kvölds. Fullt tungl speglar sig í haffletinum í kvöldhúminu. Þvílík dýrð.

Hreinsaði svolítið til í garðinum. Mörg blómin hafa visnað eins og eðlilegt er, en það merkilega er að ýmsar blómplöntur hafa notað sér góða veðrið síðsumars og fram eftir september. Þær sýna nú fallegu blómin sín í haustveðrinu.

Úlfar frændi minn hafði samband við mig nýlega og spurði hvort ég færi heim í Lauga eða Laugar. Sagðist vera að skrifa pistil þar sem þetta álitamál væri til umfjöllunar. Ég sagði honum eins og var að einhvern tíma í MA skilaði ég ritgerð þar sem Laugar komu við sögu. Minn góði kennari Árni Kristjánsson hvíslaði því að mér að ég mætti nú ekki láta það sjást að ég ætti það til að beygja Laugar vitlaust. Síðan hef ég farið heim í Laugar! Úlfar upplýsti að Bragi faðir hans hefði alltaf talað um Lauga í þolfalli, einnig Áskell í Laugafelli og fleiri. Taldi að þetta væri enn Reykdælingum tamt, enda eru þeir sérvitrir og láta ekki segja sér hvað sem er. Og ég er búin að finna a.m.k. tvo sem hika ekki við að játa þessu. Gaman að þessu. Sjálf mun ég halda áfram að hafa Laugar í þolfalli.

23.9. FIMMTUDAGUR

Ágætis veður. Svolítil rigning í morgun. Hægur vindur og sólskin meirihluta dagsins.

Hringdi í Emmu á Halldórsstöðum og spjallaði heillengi við hana. Fékk að heyra hvað veðrið væri yndislegt og fallegt í Reykjadalnum, hvernig rjúpunni reiddi af með ungana sína sem hún kom upp rétt við húsið hjá Emmu, hvernig berjauppskeran reyndist þegar rigningunum í fyrrihluta ágúst linnti o.fl. skemmtilegt.

Aðalerindið var þó að þakka Emmu fyrir diskinn með lögum pabba hennar, Friðriks Jónssonar, sem oftast var kallaður Fikki á Halldórsstöðum. Hún sagði mér frá þessum diski í sumar og kveikti löngun mína til að eiga slíkan gimstein. Hún var svo væn að senda mér hann og nú nýt ég þess að hlusta á þessi lög. Sum laganna hef ég aldrei áður heyrt, og mörg fleiri urðu til í smiðju Fikka, sem komust ekki fyrir í þessari útgáfu. Mörg þeirra þekki ég hins vegar frá fyrri tíð. “Við gengum tvö” er flestum kunnugt, og “Rósin” heyrist oft. “Dalurinn minn” er eftirlæti Reykdælinga, “Æskuminning” er ekki síðri, og svo mætti áfram telja. Fallegast allra er að minni hyggju lag Fikka við kvæði Þorsteins Erlingssonar “Litla skáld á grænni grein”. Fallegt og vel flutt.

Lögin hans Fikka nefnist diskurinn og lögin flytur Kirkjukór Húsavíkur svo ljómandi vel.