20° hiti dögum saman

JÚLÍDAGAR 2010

17.7. LAUGARDAGUR

Góðviðri í allan dag. Örtröð í sundinu þegar leið að hádegi. Þurftum að fara krókaleiðir milli fólksins til að komast upp úr. Hitastigið fór yfir 20°. Er verið að slá Norðaustrið út?

Gullið tækifæri til að mata brekkuvíðinn aftur á grænsápunni, rigningin ætlar að doka við a.m.k. fram á þriðjudag. Grænsápan góða gerir sitt gagn. Það leynir sér ekki. Grænsápan og góðviðrið eiga vel saman, en ormarnir fussa við.

18.7. SUNNUDAGUR

Glæsilegt veður. Hitastigið yfir 20°.

Fór í góðan göngutúr á Kotagrandann og Suðurnesið. Bakkatjörnin er orðin mjög grunn á pörtum, hitinn hefur sín áhrif. Kríurnar eru ekki jafn fjörugar og verið hafa, hætt við að ungarnir þeirra fái ekki nóg að éta. Sandsílin hafa ekki náð sér á strik, og kemur það illa niður á bæði kríunni og lundanum, sem reyndar sést ekki hér um slóðir. Endur synda stoltar með ungahópana sína um Bakkatjörn, sennilega hópur nr. 2 hjá þeim. Og álftarungarnir geta tæpast talist ungar lengur, orðnir nærri jafnstórir og foreldrarnir. Gott líf á Bakkatjörninni.

19.7. MÁNUDAGUR

Sama blíðan. Mestur hiti 20°. Sat hálfan daginn í blíðunni og lauk við Leynda kvöldmáltíð!

Þegar ég fór síðast í bókaleit í Hallarmúlanum sá ég að þar er farið að bjóða upp á notaðar kiljur á 400 kr. Þar var reyndar ekki um auðugan garð að gresja, en ég greip með mér eina, sem á bókarkili var sögð metsölubók um allan heim, margbrotin, eftirminnileg, heillandi saga og mjög vel skrifuð spennusaga. Það vantar sannarlega ekki skjallið. Leynda kvöldmáltíðin er nafn bókarinnar, sem gerist að mestu árið 1497. Tókst að ljúka henni í dag. Verð að játa að ég var ansi lengi að ná áttum og verða nógu forvitin um framvindu mála. Ein aðalpersónan er sjálfur Leonardo da Vinci og iðulega vísað til listaverka hans og starfa og þekktra viðburða af ýmsu tagi á þessu tímabili. Og ekki vantar togstreytuna um trúmálin, sem valda tortryggni og svikum, illindum og morðum. Var ólíkt sneggri að innbyrða seinni helming bókarinnar þegar fjör færðist í leikinn. Ekki sérlega fallegt allt hjá heittrúarhöfðingjunum