ÁGÚSTDAGAR 2010
1. – 14. ágúst
Þá er nú ágústmánuður hálfnaður. Fjölbreyttur og skemmtilegur. Vorum á Kaldbak mestallan þennan tíma og nutum þess alveg í botn. Allra mest að geta farið í reiðtúra næstum daglega. Yndislegt!
Dóra, Sindri og Breki voru með okkur í fjóra daga og fengu frábært veður. Dóra naut sólarinnar út í ystu æsar og fagnaði hverri freknu. Strákarnir léku listir sínar á trampólíninu, slógu upp tjaldi, sulluðu í heita pottinum (þó ekki jafn mikið og ég, sem fer a.m.k. tvisvar á dag í pottinn), fengu listitúr á fjórhjóli, eða kannski var það sexhjól. Svo bjuggu þeir til matinn með mömmu sinni einn daginn, lambalæri, sveppasósu og bakaðar kartöflur. Þá vildi svo vel til að Ævar, Edda og Jón Þór komu að sækja traktor og aðstoðuðu okkur við að innbyrða þennan dýrindis mat.
Svo fórum við öll saman á hestbak. Dóra reið Létti og hafði greinilega engu gleymt. Jónas sat Djarf og teymdi Gauk, sem Sindri reið. Það gekk ágætlega, nema Djarfur var óþarflega æstur og þótti Sindra það heldur óþægilegt, enda þótt Gaukur væri hinn besti. Við Prinsinn teymdum Storminn með Breka á baki. Stormur er bæði þægur og þægilegur og hentugastur af þessum hestum okkar fyrir krakkana. Breki fékk að stjórna Stormi einn og sjálfur á rananum, þ.e. túni við hlið hestagerðisins. Hann stóð sig vel, lét hestinn tölta, hlaupa og stökkva og þótti mjög gaman, var hvergi hræddur.
Helgina 6.–8. var mikil umferð hestamanna og sitthvað að gerast. Merkilegast var þegar svolítill laumufarþegi kom í heiminn í túninu á Kaldbak, þar sem hópur Íshesta gisti aðfararnótt föstudagsins. Við sáum þetta litla folald þegar við riðum framhjá um morguninn og undruðumst hvað svona lítil vera væri að ferðast um heiminn. En það kom sem sagt í ljós, að eigandi hryssunnar hafði ekki vitað af þessu lífi, þegar hann lánaði hryssuna í ferðalag. Kallað var eftir bíl og hestakerru að sækja mæðginin. Gaman var að hjápa til við að ná í þau lengst niður á tún og gekk það allt vel.
Veður var gott flesta daga, hitinn fór suma daga vel yfir 20°. Ég brá mér tvisvar í berjamó og tíndi nokkra lítra af vel þroskuðum berjum.