Grænmetisstóriðju á Bakka!

OKTÓBERDAGAR

18.10. MÁNUDAGUR

Allt í einu finn ég fyrir því að veturinn nálgast fyrir alvöru. Það snjóaði í fjöllin í nótt. Talsverður vindur og langt síðan hefur verið jafn kalt. Bjartviðri. Mestur hiti 5°. Merkilegt hvað blómin eru ennþá borubrött.

Brugðum okkur á Kryddlegin hjörtu í Skúlagötu. Notalegt að fá sér þar bragðmikla og brennheita súpu og fjölbreytilegt salat. Manni hitnar almennilega og veitir ekki af, þegar hitastigið er dottið niður undir 2°. Máninn er m.a.s. hálf eymdarlegur á svipinn.

19.10. ÞRIÐJUDAGUR

Glæsilegur morgun. Algjört logn. Mælirinn sýndi 1°. Fegurð himinsins kallaði á heimsókn í Suðurnes. Fuglarnir voru ósköp kúrulegir á Bakkatjörninni. Klukkan 9:40 hríðaði svo í logninu! Það stóð reyndar ekki lengi. Rigning með köflum allan daginn eftir einleik morgunsins í allri sinni fegurð.

20.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt veður en kalt. Hitastigið teygði sig upp í 5°.

Átti rólegan og notalegan afmælisdag með heimilisfólkinu. Jónas gaf mér diskasett með náttúrusögumyndum, Planet Earth. Reyni ekki að lýsa dýrðinni, en þetta er stórkostlegt á að horfa. Pétur og Marcela færðu mér ilmandi kroppakrem, þótt ég væri búin að banna þeim að eyða peningum í afmælisgjöf. Sindri og Breki færðu mér kossa og knús. Við spiluðum Ólsen, Ólsen, og Veiðimann með tilheyrandi gríni og hlátrasköllum. Fengum okkur svo býsna góða köku, svokallaða Hjónabandssælu, sem ég keypti alveg sjálf úti í búð!

21.10. FIMMTUDAGUR

Hitastigið komst í heil 3°. Skýjað mestallan daginn. Bjartara á Kaldbak, en eitthvað kaldara þar. Pálmi er þar með dætur þrjár og tvær vinkonur til viðbótar. Allt í fjöri. Sigrún bætist svo í hópinn um helgina.

Fyrsta spilakvöldið með Þórði og Sólu. Finnst alltaf gaman að spila bridds þótt mér fari lítið fram í þeirri list. Slapp þokkalega í þetta sinn. Kannski líka aðalskemmtunin að hitta hjónin og spjalla saman.

22.10. FÖSTUDAGUR

Ekki beint notalegt utan dyra vegna snarprar golu. Léttskýjað mestan hluta dagsins, en hitastigið náði aðeins 3° í smátíma.

Rakst á eftirfarandi texta á fésbókinni undir yfirskriftinni: Grænmetisstóriðju á Bakka: “Við hvetjum Húsvíkinga til að setja á fót hátæknigróðurhús og matvælastóriðju á Bakka við Húsavík. Þingeyingar eru rómaðir fyrir góðan mat og eru vonarstjörnur Íslands á sviði útflutnings á ávöxtum og grænmeti.”

Ekki veit ég hver á upptökin, en fjölmargir leggja orð í belg og hrífast af hugmyndinni. Frábært ef hún yrði framkvæmd. Orkuna til matvælastóriðju er hægt að nálgast á Þeistareykjum, sem þegar er búið að raska ótæpilega. Og í Aðaldalnum bíður þessi líka fíni flugvöllur, sem var lokað fyrir nokkrum árum, en gæti fyllilega dugað fyrir flutninga með afrakstur matvælastóriðjunnar. Flott!

23.10. LAUGARDAGUR

Ágætis veður í dag. Held m.a.s. að hitinn hafi nálgast 5°. Veðurstofan spáði snjókomu í uppsveitum Árnessýslu, en nafna mín svaraði mér þegar ég hringdi á Kaldbak til að forvitnast. Hún lét aldeilis bærilega af vistinni á Kaldbak, nýkomin úr göngutúr með Áslaugu og mömmu sinni. Engin snjókoma sagði hún.

24.10. SUNNUDAGUR

Fallegt veður fram eftir öllum degi. Heiðríkt og lítill vindur. Þegar sólin gægðist yfir fjöllin hreykti fullur máninn sér beint á móti. Feyki flott!

Fullt af fólki á Kotagranda og í Gróttu. Dýrmætt að geta notið veðurs og umhverfis hér á næstu grösum. Gerði loksins gangskör að því að tína saman garðáhöld og sitthvað fleira og kom því fyrir í kompu. Var því fegin þegar ég heyrði viðvaranir veðurfræðings, sem bjóst við hvassviðri í nótt og á morgun.

Sjónvarpið sýndi ágætan þátt í kvöld undir nafninu Vigdís, fífldjarfa framboðið. Þar voru sýndar svipmyndir frá kosningabaráttu og kjöri Vigdísar árið 1980 og var gaman að rifja það upp. Sumt var hreinlega fyndið, sérstaklega þegar karlkyns frambjóðendur reyndu að rökstyðja mikilvægi þess að forsetar hlytu að vera karlar með konur sér við hlið. Vigdís bar af körlunum. Þetta var viðburður sem skipti gríðarlega miklu máli fyrir jafnréttisbaráttu kvenna. Viðburður sem hvatti konur og styrkti. Höfundarnir Guðfinnur Sigurvinsson og Ragnar Santos tileinkuðu konum landsins þennan þátt, sem var vel við hæfi.