SEPTEMBERDAGAR
21.9. ÞRIÐJUDAGUR
Kalt að morgni, en nálgaðist 10° þegar á leið. Stillt veður og þægilegt.
Sindri og Breki koma til okkar á þriðjudögum að vanda og gista aðfararnótt miðvikudags vegna þess að Ómar vinnur yfirleitt langt fram eftir kvöldi á þriðjudögum. Það er sértsaklega gaman að fá þessa gesti, ef gesti skal kalla, þeir hafa svo oft verið hér á Fornuströnd að þeir líta á það sem sitt heimili. Þeir sinna heimanáminu hér og leggja sitt af mörkum í eldhúsinu. Tölvan mín og sjónvarpið draga þá að sér, en ekki er síður vinsælt að spila á spil. Svo bregða þeir sér stundum í fótbolta úti í garði. Góðir strákar.
22.9. MIÐVIKUDAGUR
Fallegt haustveður í dag. Skafheiður himinn og sól frá morgni til kvölds. Fullt tungl speglar sig í haffletinum í kvöldhúminu. Þvílík dýrð.
Hreinsaði svolítið til í garðinum. Mörg blómin hafa visnað eins og eðlilegt er, en það merkilega er að ýmsar blómplöntur hafa notað sér góða veðrið síðsumars og fram eftir september. Þær sýna nú fallegu blómin sín í haustveðrinu.
Úlfar frændi minn hafði samband við mig nýlega og spurði hvort ég færi heim í Lauga eða Laugar. Sagðist vera að skrifa pistil þar sem þetta álitamál væri til umfjöllunar. Ég sagði honum eins og var að einhvern tíma í MA skilaði ég ritgerð þar sem Laugar komu við sögu. Minn góði kennari Árni Kristjánsson hvíslaði því að mér að ég mætti nú ekki láta það sjást að ég ætti það til að beygja Laugar vitlaust. Síðan hef ég farið heim í Laugar! Úlfar upplýsti að Bragi faðir hans hefði alltaf talað um Lauga í þolfalli, einnig Áskell í Laugafelli og fleiri. Taldi að þetta væri enn Reykdælingum tamt, enda eru þeir sérvitrir og láta ekki segja sér hvað sem er. Og ég er búin að finna a.m.k. tvo sem hika ekki við að játa þessu. Gaman að þessu. Sjálf mun ég halda áfram að hafa Laugar í þolfalli.
23.9. FIMMTUDAGUR
Ágætis veður. Svolítil rigning í morgun. Hægur vindur og sólskin meirihluta dagsins.
Hringdi í Emmu á Halldórsstöðum og spjallaði heillengi við hana. Fékk að heyra hvað veðrið væri yndislegt og fallegt í Reykjadalnum, hvernig rjúpunni reiddi af með ungana sína sem hún kom upp rétt við húsið hjá Emmu, hvernig berjauppskeran reyndist þegar rigningunum í fyrrihluta ágúst linnti o.fl. skemmtilegt.
Aðalerindið var þó að þakka Emmu fyrir diskinn með lögum pabba hennar, Friðriks Jónssonar, sem oftast var kallaður Fikki á Halldórsstöðum. Hún sagði mér frá þessum diski í sumar og kveikti löngun mína til að eiga slíkan gimstein. Hún var svo væn að senda mér hann og nú nýt ég þess að hlusta á þessi lög. Sum laganna hef ég aldrei áður heyrt, og mörg fleiri urðu til í smiðju Fikka, sem komust ekki fyrir í þessari útgáfu. Mörg þeirra þekki ég hins vegar frá fyrri tíð. “Við gengum tvö” er flestum kunnugt, og “Rósin” heyrist oft. “Dalurinn minn” er eftirlæti Reykdælinga, “Æskuminning” er ekki síðri, og svo mætti áfram telja. Fallegast allra er að minni hyggju lag Fikka við kvæði Þorsteins Erlingssonar “Litla skáld á grænni grein”. Fallegt og vel flutt.
Lögin hans Fikka nefnist diskurinn og lögin flytur Kirkjukór Húsavíkur svo ljómandi vel.