Gott að dreyma hesta

NÓVEMBERDAGAR

25.11. FIMMTUDAGUR

Eitthvað var ég undarleg fyrstu sólarhringina eftir spítalavistina. Þurfti mikið að sofa og dreymdi heil ósköp. Yfirleitt ótrúleg della, eins og draumar eru flestir, og man ekki baun af þeirri vitleysu. Tvisvar dreymdi mig hesta, báða brúna. Annar var Garpur Jónasar, frábær skeiðhestur. Hinn var hann Prúður minn, albesti hestur sem ég hef setið. Leið vel með þessa drauma.

Það er sem sagt gott að dreyma hesta. En það er líka gott að lesa bækur. Arsenikturninn eftir Önnu B. Ragde stytti mér stundir á spítalanum. Mjög sérstök bók. Situr enn í mér. Vel skrifuð, stundum falleg, en oftar andstyggileg, heillandi, en grimm.

Þá tók við Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur. Skáldsaga byggð á heimildum um Tyrkjaránið árið 1627 og þrældóm Íslendinga í Barbaríinu. Þetta er mikil saga um ótrúlegar raunir og erfiðleika. Steinunn vann að þessari sögu í mörg ár, ferðaðist um söguslóðir og aflaði upplýsinga víða. Vissulega er erfitt að höndla sannleikann, en bókin er spennandi og vel gerð.

Eftir þessar löngu dramatísku bækur fannst mér upplagt að snúa mér að glæpasögu eftir Jo Nesbö hinn norska. Nú til dags virðist krafan vera um langar sögur, helst ekki færri en 4-500 blaðsíðna, og Nesbö hristir það fram úr ermi. Mikið gengur á í lífi aðalhetjunnar. Lendir í slíkum hremmingum, að fæstir hefðu lifað þær af í alvörinni. Ssögur Jo Nesbö eru þrælspennandi.

Nú ætla ég hins vegar að lesa eina af eftirlætisbókum mínum, Uppvöxtur Litla trés eftir Forrest Carter. Góð tilbreyting frá hinum þremur. Allt öðru vísi bók og engri lík.

26.11. FÖSTUDAGUR

Nú er frost á Fróni, en bæði himinn og jörð skarta sínu fegursta. Alltaf mikil umferð gangandi og hlaupandi fólks hér fram með sjónum. Sé að fæstir nota stíginn, sem líklega er háll. Nýr stígur er að verða til í grasinu til hliðar.

27.11. LAUGARDAGUR

Laugardagurinn 27. nóvember rann upp bjartur og fagur. Heiðríkur, frostkaldur, en ótrúlega fallegur eins og svo oft á okkar fagra landi. Merkisdagurinn þegar við kjósum fólk á stjórnlagaþing. Algjör nýung, sem vonast er til að fari vel fram og skili góðu fólki til góðra verka. Spor í eflingu lýðræðis.

Og nú er fjör í Bláfjöllum. Ljósin blika í fjöllunum, sérstaklega þegar dimma tekur. Það hefur gefið í skíðabrekkurnar síðustu daga. Rétt eins og veðurguðirnir og fjöllin hafi tekið við sér þegar borgarstjórinn gaf til kynna að loka mætti skíðasvæðinu í Bláfjöllum til að spara nokkrar milljónir.

Breki bauð til veislu í tilefni 10 ára afmælisins, sem var 14. nóvember, en þá naut hann lífsins með mömmu og Sindra í Gent. Vel var mætt í veisluna á Lundi, og margt skemmtilegt kom upp úr gjafapökkum. Ekki vantaði góðmeti á borð, og alltaf er gaman að hitta afmælisgestina, sem maður sér yfirleitt ekki ella.

28.11. SUNNUDAGUR

Enn herðir frost og enn er fjör í Bláfjöllum.

Nú er ljóst að þátttaka í kosningum til stjórnlagaþings varð aðeins tæplega 37%. Það eru auðvitað vonbrigði. Fólk hefur kallað eftir breytingum og ekki síst auknu lýðræði. Kannski hefur verið boðið upp á of miklar breytingar og of mikið lýðræði! En nú er talið í Laugardalshöll. Það tekur tímann sinn þótt færri kysu en búast mátti við. Við verðum að bíða morguns eftir niðurstöðu.

Í dag sýna krakkar fimleika í íþróttahúsinu hér á Nesinu. Ég mátti til með að sjá 4-5 ára hópinn, þar sem Áslaug skemmtir sér af lífi og sál. Og ekki brást hún vonum. Stærri krakkarnir sýndu listir sínar síðar um daginn og þar á meðal Auður, sem er vaxandi fimleikamær, enda búin að stunda íþróttina í allmörg ár.

29.11. MÁNUDAGUR

Veðrið skipti aldeilis um skoðun í nótt. Var komið vel yfir frostmark í morgun og farið að rigna. Hálkublettir kipptu fótum undan gangandi fólki og nóg að gera á Slysavarðstofu.

Enn dreymdi mig um hesta. Stóran hóp hesta, sem þeystu um grundir og móa. Einhver draumaspekúlant hefði líklega gaman af að ráða hestadrauma mína.

Enn lengist biðin eftir niðurstöðum kosninganna um stjórnlagaþingið. Nú sitja talningameistarar yfir tíuþúsund vafaatkvæðum. Merkilegt að svo margir kjósendur gætu flaskað á þessu skrítna kerfi, sem var þó ekkert sérlega flókið. Vonandi verða þó flest vafaatkvæðanna nýtileg. En forvitni okkar verður ekki sefað fyrr en á morgun.

30. 11. ÞRIÐJUDAGUR

Þokusúld í dag. Hálkan minni en í gær sem betur fer.

Loksins fengu landsmenn að frétta af niðurstöðum kosninganna, og fljótlega logaði allt á netinu. Synd að segja að allir væru jafn ánægðir, enda vart við að búast að þessi 25 af 522 frambjóðendum féllu öllum í geð. Ekki nenni ég að vera í rótarfýlu þótt sárafáir næðu inn á þingið af þeim sem ég kaus. Mér finnst þó afleitt að aðeins 3 af landsbyggðinni fá sæti á stjórnlagaþinginu. Vissulega buðu ótrúlega fáir sig fram utan Reykjavíkur og nágrennis, og kjörsókn var almennt lélegri þar. Það segir sitt. Sjálf er ég landsbyggðarkona þrátt fyrir að hafa búið árum saman á suðvesturhorninu. Þekki margt af því landsbyggðarfólki, sem bauð sig fram, og lagði mig í líma að kynna mér aðra sem ég ekki þekkti. En ekki dugði það.