OKTÓBERDAGAR 2010
1.10. FÖSTUDAGUR
Allsterkur vindur á austan. Skúrir. Mestur hiti 10°.
Gaman að fara um Suðurströndina í morgun. Þar uppi í brekku kraup maður og tíndi sveppi af miklum dugnaði. Var kominn með fullan poka og virtist ekki geta slitið sig frá speppamónum. Vonandi hefur hann vitað hvað hann var að gera. Neðan vegar var hins vegar stór og mikill gæsahópur, sem virtist bíða þess að komast upp í brekkuna. Hef þó ekki trú á því að gæsir sæki í sveppi, en þær kunna vel að meta grasið í brekkunni góðu.
2.10. LAUGARDAGUR
Yndælt haustveður. Mestur hiti 12°. Og enn er hann á austan. Sólin skein glaðlega um miðjan daginn. Ég sat úti á palli og las blöðin og sofnaði svo óvart í blíðunni. Ekki á hverjum degi sem boðið er upp á slíkan lúxus í október.
Geri annars lítið annað en að stúdera umsóknir um styrki úr þeim virðulega Þjóðhátíðarsjóði sem nú fer að renna sitt skeið á enda. Spennandi lesning!
3.9. SUNNUDAGUR
Gott veður. Hlýr austanvindur. Mestur hiti 13°.
Nú er fjárlagafrumvarp næsta árs komið upp á borðið og lítið um gleðilæti. Athyglin beinist ekki síst að stöðu foreldra með börn á framfæri. Fólk sýpur hveljur vegna lækkandi framlaga úr fæðingarorlofssjóði og styttingar fæðingarorlofs, að ekki sé nú minnst á skerðingu barnabóta.
Þegar við hjónin eignuðumst börnin okkar fjögur á árunum 1964 – 1974 var fæðingarorlofið 3 mánuðir og fæðingarstyrkurinn eitthvert lítilræði. Eða var hann einhver? Ég bara man það ekki. Og karlar voru ekki inni í dæminu, enda litið á þetta sem sérmál kvenna. Einhvern veginn klóruðum við okkur fram úr þessu á þeim tíma.
4.10. MÁNUDAGUR
Yndislegur morgun. Skafheiður himinn, blæjalogn. Mestur hiti dagsins 13°.
Fór í góðan göngutúr eftir Kotagranda og meðfram Bakkatjörn. Fuglum þar þótti heldur ómerkilegur gestur með tómar hendur. Vildi að ég hefði skilið þvaðrið í gæsunum á tjörninni. Þær voru í stórum hópi og höfðu svo mikið að segja, að það minnti á æsingafund á flokksþingi. Svo ruku þær allt í einu upp og tóku stefnuna til hafs og héldu þvaðrinu áfam á fluginu.
Við Jónas brugðum okkur á Þingvöll eftir hádegið að dást að margbreytilegri litadýrð jarðar. Ótrúlega fallegt. Eldgulur víðir og dökkblóðrautt berjalyng voru mest áberandi. Nú er einmitt hápunktur haustlitanna.
Með kvöldinu rauk vindurinn upp.
5.10. ÞRIÐJUDAGUR
Bálhvasst í nótt og morgun og áfram nokkuð hvasst allan daginn. Sjórinn hvítfyssandi sendi gusur upp á bakka. Engu að síður fallegt veður og þó einkanlega himinninn. Sólin lét ekki mikið sjá sig, en hún kveikti eld í skýjunum.
Merkilegt hvað fagurgular morgunfrúr og heiðbláar fjólur standast vindhviðurnar. Þær hafa greinilega ekki hugmynd um að það er kominn október.
6.10. MIÐVIKUDAGUR
Gott veður í dag. Nánast logn allan daginn. Mestur hiti 13°.
Nákvæmlega 2 ár í dag síðan Geir Haarde ávarpaði þjóðina í sjónvarpi og endaði mál sitt á “Guð blessi Ísland”. Eitthvað hefur sambandið verið lélegt milli þeirra félaganna, Geirs og Guðs, miðað við óánægju þjóðarinnar þessa dagana. Ég held satt að segja að flestir líti svo á að guði komi þetta bara ekkert við. Fólkið ber bumbur á Austurvelli. Telur kannski líklegra að það nái sambandi við verkafólkið á Alþingi heldur en guð á himnum, þegar öllu er á botninn hvolft.
7.10. FIMMTUDAGUR
Veður ágætt. Hlýtt og rigning öðru hverju. Mestur hiti 10°.