4 kíló í Fossvogi

NÓVEMBERDAGAR

1.–15.2010

Var deyfð að morgni 1. nóvember og send á skurðstofuna í Landspítala Fossvogi með ekkert feiki mikla rænu. Þá búin að skrúbba mig frá toppi til táar með sótthreinsandi sápu og gleypa eitthvert dýrindi sem bauð upp á algjört kæruleysi. Hafði ímyndað mér að geta fylgst með aðgerðinni, en kæruleysið sá fyrir því. Kannski eins gott. Hlustaði sallaróleg á sagarhljóð og önnur ólæti í verkafólkinu við skurðarborðið. Velti fyrir mér hvort ég hefði lent inn á bílaverkstæði! Merkilegt að upplifa viðgerð á mjaðmarskarninu án þess að hafa döngun í sér til að kíkja hvað þá meira.

Þetta var sem sagt ekki mikið mál, en öllu verra með framhaldið. Hafði búist við að komast heim á 4. degi, en ekki gekk það. Lenti í svima og ónotum, sem lagaðist þegar skipt var um verkjalyf, en þá tók ekki betra við þegar ég kom ekki niður matnum sem á borð var borinn. Loks var mér sleppt heim á sjöunda degi, en eftir urðu 4 kíló í Fossvogi.

Svei mér gott að koma heim, og brátt lagaðist vesalings maginn. Og allt skánar þetta með degi hverjum þótt ég gæti hugsað mér að batahraðinn væri aðeins æsilegri. Einn læknanna sem kom til herbergisfélaga míns með viðgert hné sagði: Þetta er vont, en nú eru það bara verkir og vinna. Það er auðvitað alveg rétt. Nú er að efla vöðvana með alls konar æfingum og spranga um gólf til að ná skikkanlegu göngulagi. Sakna hálfpartinn gönguferðanna um spítalaganginn, þar sem hægt var að spjalla ögn við álíka hressa göngugarpa. Skildum hvert annað svo dæmalaust vel.

Í dag tíndi heimilislæknirinn úr mér málmheftin – vonandi ekki úr áli. Það var mikill léttir. Og nú á ég mun betra með að sitja öðru hverju. Þetta er allt að koma.

Bestu fréttirnar eru þó að Katla hefur að öllum líkindum fengið góðan bata í lungunum sínum. Hún hefur ítrekað orðið fyrir því að fá samfallið lunga. Lenti á spítala í fjórða sinn í Íþöku (Cornell University) fyrir skömmu og var nú ákveðið að taka ærlega á málinu. Katrín flaug vestur til að styðja hana og styrkja og halda læknum þar við það sem gera þurfti. Var þar í hálfa aðra viku og er nú á heimleið. Katla er sem sagt komin af spítalanum og eins og amma gamla: Þetta er allt að koma!