Dýrðlegt veðrið lokkar

NÓVEMBERDAGAR

16.-24.11.

Oftast er þessa daga fallegt út að líta og mun hlýrra en síðustu tvær vikur. Dýrðlegt veðrið lokkar og laðar, og loksins steig ég skrefið til útivistar sunnudaginn 21. nóv. Það er því miður ekki fyrirhafnarlaust að búa sig til gönguferðar. Gekk þó sæmilega og hjálparlaust nema að ég get ekki sjálf komið mér í góða gönguskó. Óneitanlega fyrirhafnarminna að ganga fram og aftur um gólfin innan dyra og gera æfingar til styrkingar. Þarf enga aðstoð við það.

Oft verður mér hugsað til formæðra okkar og forfeðra, hvernig þau þurftu að glíma við alls kyns veikindi, slæmsku í skrokknum, gigt í baki og höndum, ónotum í maga, verkjum í mjöðmum og fótum. Ekki stóð þeim margháttuð þjónusta til boða né galdraverk læknanna, sem nú gera við okkur á ýmsa lund svo að við getum bætt nokkrum verkjalausum árum við lífið og tilveruna. Ekki ætla ég að kvarta, þótt þetta taki allt sinn tíma.

Missi náttúrlega af alls konar skemmtun, svo sem flokksráðsfundi Vinstri grænna, sem haldinn var 19. og 20. og var víst ekki þegjandalegur mannsöfnuður. Ég hefði svo sem getað fengið bílfar á staðinn og haft með mér sessu samkvæmt fyrirmælum, en nennti ekki að vekja athygli fundarmanna á fötlun minni. Reyndi að fylgjast með dýrðinni í fjölmiðlum og met það svo að endir hafi orðið skikkanlegur.

Kosið verður á Stjórnlagaþing laugardaginn 27.11. Búist er við mikilli örtröð vegna þess hvernig staðið er að kosningunni. Við Jónas kusum utankjörstaðar mánudaginn 22.11. til þess að losna við bið og troðning á kjördaginn. Það gekk aldeilis bærilega og tók lítinn tíma. Nú er bara að bíða eftir niðurstöðunni.

Mörgum finnst þetta allt saman mjög flókið. Frambjóðendur urðu mun fleiri en búist var við, samtals 522. Niðurstaðan varð að númera alla og láta kjósendur skrá númerin á kjörseðilinn. Upplýsingablað var sent inn á hvert heimili með kynningu á frambjóðendum og hvernig kosningin fer fram. Fór rækilega gegnum þetta allt saman og skemmti mér hið besta. Sérlega var gaman að sjá hve margar konur bjóða sig fram.

Nokkrir hafa kvartað yfir framkvæmd kosninganna. Í rauninni er þetta þó ekkert flókið. Það er bara hið besta mál að gera hlutina ögn öðruvísi en verið hefur. Tel þetta skemmtilega tilraun til að taka á þessum málum á lýðræðislegan hátt. Það þarf að reyna að gera sem flestum kleyft að taka þátt í mótun og þróun samfélagsins.

Sindri og Breki eru komnir heim úr heimsókn til mömmu sinnar í Gent, himinglaðir með allt sem þeir gerðu með henni. Þau skoðuðu sig m.a. um í Brüssel og París, sem var víst hápunkturinn. Breki átti afmæli sitt þar úti og býður nú til afmælisveislu hér heima.

Við erum komin með merkilegt gæludýr, glaðlega flugu, sem svífur hér um húsið og suðar stundum í eyra. Hélt að flestar flugur af þessu tagi væru lagstar í dvala nú um stundir. Þessi tekur ekkert mark á slíku. Hef ekki séð hana fá sér snæðing, en hún lifir og leikur sér.