Veðurguðir andvígir kvennabaráttu?

OKTÓBERDAGAR

26,10. ÞRIÐJUDAGUR

Í gær, á sjálfan kvennafrídaginn, var afleitt veður, rok og rigning. Um það bil 50 þúsund konur létu ekki veðurhaminn á sig fá og streymdu í miðbæ Reykjavíkur. Og fréttir bárust víðar af landinu þar sem konur söfnuðust saman og létu til sín heyra. Tilefnið var mikilvægara en svo að veðrið hindraði þær.

Konur hefðu betur fengið veður dagsins í dag. Nú er hægur vindur og bjart yfir. Hitinn var þegar kominn í 6° strax í morgun. Mætti ætla að veðurguðirnir séu andvígir kvennabaráttunni. Konur hafa löngum þurft að herða sig upp gegn mótlæti og veðurguðirnir beygja þær ekki frekar en margt annað.

27.10. MIÐVIKUDAGUR

Fallegt út að líta, en kuldalegt. Nokkuð hvasst, en léttskýjað og sólskin mikinn hluta dagsins. Mildast S-lands segir Veðurstofan. Sérkennilega orðað í þessum kulda.

Nefndin mikla um Þjóðhátíðarsjóð átti annasaman fund í dag. Þetta er satt að segja ótrúlega skemmtilegt verkefni. Sem betur fer er heilmikil drift í fólki út um allt land og væri óskandi að nefndin góða hefði úr meiru að spila. Ég er búin að þjösnast í gegnum allar umsóknirnar og er bæði ánægð og leið. Ánægð með hversu áhugasamir og hugmyndaríkir margir umsækjenda eru. Leið yfir því hvað nefndin hefur lítið í sjóði sínum. Mörg ágæt verkefni, sem eru verðug stuðnings, hljóta að verða útundan.

Við eigum talsvert verk óunnið, og því miður verð ég til lítls gagns næstu daga og vikur. Leitaði læknis snemma í vor, þar sem vinstri mjöðmin var farin að angra mig, og niðurstaða hans var að ekki mætti bíða lengi með aðgerð. Sagði mér þó að ég gæti þurft að bíða hálft til eitt ár. Varð því bæði undrandi og fegin þegar mér var boðið upp á aðgerð 1. nóvember. Best að fá því aflokið.

28.10. FIMMTUDAGUR

Gott og skínandi fallegt veður. Heiðskírt og fremur stillt.

Þurfti að mæta snemma á Borgarspítalann til undirbúnings aðgerðarinnar á mánudaginn næsta. Þrjá og hálfan tíma tók það. Allt er þetta reyndar kunnuglegt því í nóvember 2004 var sams konar aðgerð framkvæmd á hægri mjöðminni. Var einmitt að lesa lýsinguna á því ævintýri í minnisbókinni, sem ég skrifaði 1. des. 2004.

Við Jónas ókum því næst austur á Kaldbak í góða veðrinu, sem var að vísu ekki alveg jafn gott og hér í suðvestrinu. Fyllti vasa mína af molum og gladdi okkar góðu vini, sem eru gráðugir í mola. Hestarnir líta vel út og líður vel í Kaldbakshögum. Ekki er líklegt að ég hitti þá fyrr en á næsta ári, en þá er mér líka óhætt að fara að hlakka til að komast aftur á bak

Fórum til Frú Laugu að kaupa í matinn og fengum þá sorgarfregn að gulrótaruppskeran á Gróðurstöðinni á Hæðarenda í Grímsnesi er uppurin. Hef ekki fengið betri gulrætur annars staðar.

29.10. FÖSTUDAGUR

Svipað veður og í gær nema heldur kaldara. Heiðskírt. Mestur hiti 3°.

30.10. LAUGARDAGUR

Hvasst og kalt, en heiðríkt og fallegt gluggaveður. Mestur hiti 4°. Og nú er kalt og hvasst á hestunum okkar. Fyrir norðan og austan er ennþá hvassara og víða frost, sums staðar lítils háttar snjókoma.

Sindri og Breki eru hér í heimsókn. Þeir láta ekki kuldabola aftra sér frá hverju sem er. Léku handbolta úti á lóð í rokinu og kuldanum. Held þeir hafi bara slegið út handboltakappana íslensku, sem voru að enda glímdu sína við handboltalið Austurríkis. Það fór ekki nógu vel.

31.10. SUNNUDAGUR

Ekki skortir fegurð himins, láðs né lagar, en það er napurt í vindinum. Hitinn undir frostmarki fram eftir degi, en fór þó upp í 3° um miðjan daginn. Sólin bjargar miklu. Nú hvessir með kvöldinu.

Fengum góða heimsókn barna(barna!), tengdadætra og barnabarna í hábítinn. Kúnst að raða í kringum borðið, en þröngt mega sáttir sitja. Skildingarnir færðu mér íðilfagrar rósir í tilefni afmælisins, sem einu sinni var.