Ruglaðar flugur og köngulær

OKTÓBERDAGAR 2010

9.10. LAUGARDAGUR

Gott veður, stillt og ljúft. Mestur hiti í dag 13°. Því miður fékk sólin ekki að skína nógu lengi.

10.10. SUNNUDAGUR

Frábært veður. Heiðríkt og glampandi sól. Mestur hiti 13°.

Fjöldi fólks naut útivistar í góða veðrinu á Nesinu. Golfvöllurinn þéttskipaður. Gangandi, hlaupandi og hjólandi fólk um alla stíga. Fjör í fuglunum við Bakkatjörnina því stöðugt var brauði hent til þeirra. Vonandi hafa þeir ekki fengið í magann.

Ótrúlegt veðurfar í október. Blómin vita ekki hvaðan á þau stendur veðrið. Flugur og köngulær vita ekki sitt rjúkandi ráð í blíðunni. Hunangsflugur og geitungar suða í kringum mann úti í garði, og fuglarnir halda líklega að það sé aftur komið vor.

Kári varð 14 ára í dag og fjölskyldan efndi að sjálfsögðu til góðrar veislu. Hann á það sannarlega skilið, einn af þessum yndislegu barnabörnum okkar sem eru öll svo frábær. Gaman þegar Katla systir hans, sem nú er við nám í Bandaríkjunum, birtist á skype í miðri veislu. Við þyrptumst náttúrlega að tölvunni og spjölluðum við hana. Skype er mikið þarfaþing.

Fékk rafmagnsklippur hjá Kristjáni. Við Pétur réðumst á víðigreinarnar hér heima, sem voru vaxnar langleiðina út á götu. Fengum áskorun frá bænum að klippa þessi ósköp, ella yrðu klipparar sendir til verksins á okkar kostnað. Maður lætur nú ekki nappa sig.

11.10. MÁNUDAGUR

Ágætis veður. Stillt, úrkomulaust og sólarlaust. Mestur hiti 12 °.

Kláraði að klippa víðigreinarnar og safnaði í poka. Reif upp heilmikið að auki úr beðum. Mikil hreinsun. Fórum með 7 poka í Sorpu og uppgötvaði svo að sá áttundi varð eftir!

Fundur í nefndinni um Þjóðhátíðarsjóðinn, þar sem við byrjuðum að skiptast á skoðunum um hvað við gætum styrkt. Fórum yfir tæplega helming umsóknanna. Hittumst aftur eftir hálfan mánuð.

12.10. ÞRIÐJUDAGUR

Hressilegt veður. Skýjað og svolítill vindur. Mestur hiti 11°.

Í morgun horfði ég á Lúðvík sundkappa skeiða rösklega eftir laugarbakkanum. Hann sveiflaði handleggjunum og trallaði. Maður kemst í glimrandi skap. Hann er ótrúlegur karlinn. Orðinn 96 ára gamall, sjóndapur og heyrnarlítill. Léttur á fæti og ber sig betur en flestir aðrir sem spranga um á bökkunum. Syndir 400 metra á hverjum morgni. Þvílík fyrirmynd.

Fékk uppljómun og hringdi í Málmfríði Sigurðardóttur, sem mér er nú tamara að kalla Möllu. Við höfðum um nóg að spjalla. Rifjuðum upp dagana okkar á Alþingi og leyfðum okkur að hneykslast rækilega á verklagi núverandi þingmanna. Það var nú eitthvað annað þegar við vorum og hétum! Ég er alltof ódugleg að hringja í gamlar vinkonur. Alltaf samt gaman þegar ég hef samband.

13.10. MIÐVIKUDAGUR

Enn er merkilega hlýtt í veðri, mestur hiti í dag 11°. Hellirigning þegar leið að kvöldi.

Systa var jarðsungin í dag. Það var falleg athöfn og óvenjulegt lagaval. Jarðarförin var kl. 11 og síðan var boðið upp á súpu og brauð. Það var ekki síður óvenjulegt en lagavalið. Ég kunni því vel.

14.10. FIMMTUDAGUR

Fjölbreytilegt veður í dag. Mestur hiti 11°. Stundum hellirigning, stundum sólskin. Best þegar sólin og regnið leggja saman. Ég hef sjaldan séð jafn glæsilegan regnboga og í dag. Stóran, heilan, skæran, ótrúlega fallegan.

15.10. FÖSTUDAGUR

Blautur dagur. Talsverð úrkoma. Mestur hiti 9°.

16.10. LAUGARDAGUR

Ennþá blautari dagur og dálítill vindur. Mestur hiti 11°.

Svona er víst veðrið um mestallt land, síst þó á Austurlandi.

17.10. SUNNUDAGUR

Ekki slæmt veður. Mestur hiti 10°. Rigning öðru hverju.

Í kvöld sýndi sjónvarpið fróðlega og bráðskemmtilega heimildarmynd eftir Pál Steingrímsson: “Krían – þrisvar til tunglsins og aftur til baka”. Krían er alveg makalaus. Ótrúlega kraftmikill fugl, sem er nær samfellt á flugi í 10 mánuði á ári. Hún flýgur allt til Suðurskautslandsins og aftur til baka. Og margir fuglar leitast við að hreiðra um sig í grennd við kríuna, sem ver varpstöðvar gegn árásum ránfugla af miklum krafti. Aðrir fuglar njóta þess. Frábær mynd Páls.