KVENNAFRÍ 25. október 2010
Hér sit ég heima og horfi út í rok og rigningu. Hugsa til kvenna um land allt, sem gera sitt til að vekja karla og konur til vitundar um að enn er þörf fyrir skelegga kvennabaráttu. Ég get ekki verið með í þetta sinn, en hugur minn er hjá þeim.
Datt allt í einu í hug að rifja upp einhverja þeirra fjölmörgu greina sem ég skrifaði á sínum tíma um stöðu kvenna og réttindabaráttu þeirra. Rakst þá á grein sem birtist í DV 7. október 1999. Yfirskrift greinarinnar er “Viðhorfin söm við sig”. Og enn andvörpum við konur yfir því hversu hægt gengur að ná þeim réttindum sem okkur ber. En það eitt er víst: Við gefumst aldrei upp!
Þessi 11 ára grein en framlag mitt til þessa hvassa og rennblauta baráttudags, sem er kannski táknrænn fyrir margra ára kvennabaráttu.
– – –
VIÐHORFIN SÖM VIÐ SIG
Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum.
Enn ein skýrslan hefur litið dagsins ljós þar sem kynbundið launamisrétti er staðfest á óyggjandi hátt. Í rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann að tilhlutan Verslunarmannafélags Reykjavíkur kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlmenn í hópi félagsmanna hafi 30 % hærri heildarlaun en konur. Viðurkennt er að kynbundinn launamunur nemi 18 % meðal fólks í fullu starfi þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, vinnutíma, aldurs og starfsaldurs. Enn einu sinni sannast að ekki er hið sama á borði sem í orði. Viðhorfin eru söm við sig.
Sífellt skipt um skrá
Í rauninni kemur þessi niðurstaða ekki á óvart. Hún er fullkomlega í takt við niðurstöðu samanburðar Félagsvísindastofnunar á launakjörum kvenna og karla sem birt var í byrjun árs 1995 og varð tilefni mikillar umfjöllunar í kosningabaráttunni það ár. Þá vakti ekki síst athygli og umræður sú staðreynd að kynbundinn launamunur fer vaxandi eftir því sem menntunin er meiri. Þar með reyndist tálvon sú kenning að lykillinn að launajafnrétti væri fólginn í menntun kvenna til jafns á við karla. En því hefur einmitt mjög verið haldið að konum sem svo sannarlega hafa sótt fram á sviði menntunar og rannsókna á síðustu áratugum. Þær eru jafnvel komnar fram úr körlum á ýmsum sviðum. Þegar þær hins vegar koma út á vinnumarkaðinn með lykilinn að launajafnréttinu í höndum sér er einfaldlega búið að skipta um skrá.
Með hraða snigilsins
Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum. Veruleikinn er því miður oft víðs fjarri orðaflaumi laganna. Og hugarfarsbyltingin fer með hraða snigilsins.
Hvers vegna þegja nú konur þunnu hljóði? Er kvennabaráttan í slíkri lægð um þessar mundir að Magnús L. Sveinsson verði látinn einn um viðbrögð við þessum fréttum? Ætla konur að kyngja þeirri skoðun sem nýlega kom fram á kvennafundi að reiðar konur séu ekki í tísku um þessar mundir? Hvers vegna taka t.d. konur á stórum vinnustöðum sig ekki saman um það að fá kjaramálin upp á borðið og krefjast réttar síns? Er nú svo komið á tímum einstaklingshyggjunnar að konur trúi ekki lengur á mátt samstöðunnar?
Er kannski kominn tími á enn einn kvennafrídaginn til þess að efla baráttuandann og hrista upp í stöðnuðum hugmyndum?
Karlar axli ábyrgð
En það eru ekki bara konur sem þurfa að líta í eigin barm eins og gjarna er haldið að þeim í trausti þess hversu auðvelt er að ala á sektarkennd kvenna. Þjóðfélagið allt þarf að bregðast við, Alþingi, sveitarstjórnir, atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin, og gera fólki – bæði körlum og konum – kleift að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Til þess þarf að breyta löggjöf um fæðingarorlof og um orlof vegna veikinda barna, það þarf að stytta vinnudaginn og auka sveigjanleika á vinnumarkaðnum. Það þarf að kalla launagreiðendur til ábyrgðar.
Og ekki síst þurfa karlar að taka sig ærlega á og axla sinn hluta ábyrgðarinnar á heimilishaldi og umönnun barnanna. Meðan konur hafa þá ábyrgð enn að stærstum hluta eiga þær erfitt með að sækja rétt sinn á vinnumarkaði. Körlum ber að styðja konur í baráttunni jafnvel þótt það kosti þá einhverjar fórnir.
Kvennalistakonur höfðu alla sína tíð á Alþingi sterkt frumkvæði í umræðu um launamál og þá sérstaklega launamisrétti kynjanna. Þær héldu á lofti staðreyndum og lögðu fram tillögur til úrbóta. Þær tryggðu að umræðunni var haldið á lofti. Verður fróðlegt að sjá hvernig þeim málstað verður sinnt á næstu árum.