FEBRÚARDAGAR
8.2. ÞRIÐJUDAGUR
Kaldur vindur og frostið -2° að morgni. Ekki beinlínis notalegt í útiklefanum. Sundbolurinn minn fraus meðan ég klæddist að sundinu loknu.
Hrafnarnir fljúga hér fram og aftur, virðast skemmta sér hið besta í rokinu. Smáfuglarnir eru ekki jafn ánægðir með vindbelginginn, þeir kúra sig í trjám og runnum.
Að áliðnum degi hvessti æ meira og samkvæmt Veðurstofu náði vindurinn hámarki um kl. 9 að kvöldinu. Ekki lækkar rostinn í rokinu fram eftir nóttu og rigningin dynur á gluggarúðum. Snjórinn hopar óðum. Veðurstofan spáir öðrum eins beljanda á fimmtudag og enn einum slíkum á laugardag.
9.2. MIÐVIKUDAGUR
Ágætt veður og hlýtt í morgunsundinu, logn og 2° hiti. Nú er að vita hvort veðurfræðingarnir hitta naglann á höfuðið með næsta áhlaup.
Áslaug er 5 ára í dag. Hringdi í hana í kvöld og sú var nú ekki í fýlu. Það er hún reyndar yfirleitt aldrei. Pabbi hennar var að koma inn úr dyrunum beint úr vinnunni, og Áslaug sagði að hann ætlaði að búa til pítsu af því að hún ætti afmæli. Svo bað hún að heilsa öllum. Hún kann sig sko þessi dama.
10.2. FIMMTUDAGUR
Hvasst og mikil rigning fyrri hluta dagsins. Hiti mældist 8° um miðjan dag. Veðrið brjálaðist svo síðla kvölds og mér þótti vissara að raða handklæðum og tuskum í gluggakisturnar.
Sigrún á afmæli í dag. Sagðist ætla að fá sér saltfisk í kvöldmatinn. Ég verð víst að trúa því. Febrúar er sannarlega afmælismánuður í fjölskyldunni með 4 afmælisbörn, þ.e. Jónas, Áslaugu, Sigrúnu og Marcelu.
Dóra er búin að festa íbúð á góðum stað í Brussel og verður þá minna mál að fara á vinnustaðinn. Hún er orðin skelfing þreytt á að þurfa að rjúka af stað eldsnemma. Líst vel á íbúðina og karlangann sem sér um húsið. Þær Hera flytja á þriðjudaginn.
11.2. FÖSTUDAGUR
Mikil læti í nótt, grenjandi rok og dynjandi rigning. Vatnsagi í skrifstofunni og tók sinn tíma að þurrka. Áfram hvasst fram yfir hádegi. Skarfarnir, sem fljúga hér daglega framhjá, hrökktust út á hlið. Ég beið með sundsprettinn til kl. 3 síðdegis. Um kvöldið var allt dottið í dúnalogn og hafið spegilslétt. Og allur snjórinn horfinn.
12.2. LAUGARDAGUR
Sæmilegt veður í morgun, sem dugði okkur frænkunum til að hittast og stunda hið ómissandi sund og spjall. Upp úr hádeginu tók að hvessa og rigna öðru hverju, svo að nú þurfti að fylgjast með leka inn um einn gluggann. Svo kom slydda, sem hreinlega límdist utan á rúðurnar.
Loks er nú lokið lestri bókarinnar miklu um Gunnar Thoroddsen. Þurfti eiginlega að bíta á jaxlinn til að ráðast í glímu við þann doðrant. En viti menn, mér fannst bókin að mörgu leiti skemmtileg og fróðleg, og margt kemur þar fram, sem mér hafði ekki til hugar komið. Sérstaklega þau gríðarlegu átök, sem sjálfstæðismenn áttu í mestallan þann tíma, sem um er fjallað í bókinni. Hatur, tortryggni, fyrirlitning og frekja. Heiftug valdabarátta, klíkuskapur, baktjaldamakk, mútur fyrir atkvæði. Hversu mikið er slíkt stundað enn? Og hvílíkur metnaður Gunnars. Hvarvetna vildi hann vera á toppnum, í námi, við kennslu, í stjórnmálum. Og þrátt fyrir mistök og ósigra reis hann alltaf upp aftur og tókst á við ný markmið. Metnaður til æðstu metorða rak hann áfram.
13.2. SUNNUDAGUR
Á ýmsu gekk í veðrinu þennan daginn. Fengum yfir okkur rigningu, hríð og hagl, reyndar ekki í stórum skömmtum. Mælingar sýndu nokkur stig ýmist yfir eða undir frostmarki.
Skemmtileg veisla í dag í Skildinganesinu. Boðið upp á tvær tegundir af súpu með nýbökuðu brauði. Algjört gómsæti. Því verður ekki neitað að þau Pálmi og Sigrún eru flink í eldhúsinu. Þau fá einkunnina -Tær snilld- eins og Sigurjón fyrrum bankastjóri sagði um eigin afrek, sem í minnum er haft. Og dæturnar voru önnum kafnar við kökuskreytingar þegar gestina bar að garði. Stjarna dagsins var Áslaug, nýorðin fimm ára. Fagnaði bæði gestum og gjöfum af hjartans list. Sigrún lét lítið yfir eigin afmæli, en Auður fékk kraftmikinn afmælissöng í tilefni af sínu afmæli í nóvember sl. Hún hafði nefnilega ekki tíma til að halda upp á það fyrr en núna! Önnum kafin stúlka.
14.2. MÁNUDAGUR
Svolítill vindur og 2° hiti, ef hita skyldi kalla. Sól og rigning til skiptis.
Svana færði mér fullt af bókum um daginn svo að nú er ég vel birg. Varð ég harla kát þegar ég dró upp úr pokanum “Svar við bréfi Helgu” eftir Bergsvein Birgisson. Sú bók hefur verið hlaðin lofi var ég spennt að vita hvort bókin stæði undir lofsöngnum. Það gerir hún sannarlega. Það er hrein nautn að lesa þessa bók, ekki síst er málnotkunin gulls ígildi. Þá er hún svo skemmtileg og fyndin að ég skellti upp úr hvað eftir annað. Algjör perla er t.d. sagan af körlunum sem fóru að sækja til greftrunar lík sómakonunnar Sigríðar í Hólmanesi. Fer ekki lengra með það.