“Svar við bréfi Helgu” algjör perla

FEBRÚARDAGAR

8.2. ÞRIÐJUDAGUR

Kaldur vindur og frostið -2° að morgni. Ekki beinlínis notalegt í útiklefanum. Sundbolurinn minn fraus meðan ég klæddist að sundinu loknu.

Hrafnarnir fljúga hér fram og aftur, virðast skemmta sér hið besta í rokinu. Smáfuglarnir eru ekki jafn ánægðir með vindbelginginn, þeir kúra sig í trjám og runnum.

Að áliðnum degi hvessti æ meira og samkvæmt Veðurstofu náði vindurinn hámarki um kl. 9 að kvöldinu. Ekki lækkar rostinn í rokinu fram eftir nóttu og rigningin dynur á gluggarúðum. Snjórinn hopar óðum. Veðurstofan spáir öðrum eins beljanda á fimmtudag og enn einum slíkum á laugardag.

9.2. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður og hlýtt í morgunsundinu, logn og 2° hiti. Nú er að vita hvort veðurfræðingarnir hitta naglann á höfuðið með næsta áhlaup.

Áslaug er 5 ára í dag. Hringdi í hana í kvöld og sú var nú ekki í fýlu. Það er hún reyndar yfirleitt aldrei. Pabbi hennar var að koma inn úr dyrunum beint úr vinnunni, og Áslaug sagði að hann ætlaði að búa til pítsu af því að hún ætti afmæli. Svo bað hún að heilsa öllum. Hún kann sig sko þessi dama.

10.2. FIMMTUDAGUR

Hvasst og mikil rigning fyrri hluta dagsins. Hiti mældist 8° um miðjan dag. Veðrið brjálaðist svo síðla kvölds og mér þótti vissara að raða handklæðum og tuskum í gluggakisturnar.

Sigrún á afmæli í dag. Sagðist ætla að fá sér saltfisk í kvöldmatinn. Ég verð víst að trúa því. Febrúar er sannarlega afmælismánuður í fjölskyldunni með 4 afmælisbörn, þ.e. Jónas, Áslaugu, Sigrúnu og Marcelu.

Dóra er búin að festa íbúð á góðum stað í Brussel og verður þá minna mál að fara á vinnustaðinn. Hún er orðin skelfing þreytt á að þurfa að rjúka af stað eldsnemma. Líst vel á íbúðina og karlangann sem sér um húsið. Þær Hera flytja á þriðjudaginn.

11.2. FÖSTUDAGUR

Mikil læti í nótt, grenjandi rok og dynjandi rigning. Vatnsagi í skrifstofunni og tók sinn tíma að þurrka. Áfram hvasst fram yfir hádegi. Skarfarnir, sem fljúga hér daglega framhjá, hrökktust út á hlið. Ég beið með sundsprettinn til kl. 3 síðdegis. Um kvöldið var allt dottið í dúnalogn og hafið spegilslétt. Og allur snjórinn horfinn.

12.2. LAUGARDAGUR

Sæmilegt veður í morgun, sem dugði okkur frænkunum til að hittast og stunda hið ómissandi sund og spjall. Upp úr hádeginu tók að hvessa og rigna öðru hverju, svo að nú þurfti að fylgjast með leka inn um einn gluggann. Svo kom slydda, sem hreinlega límdist utan á rúðurnar.

Loks er nú lokið lestri bókarinnar miklu um Gunnar Thoroddsen. Þurfti eiginlega að bíta á jaxlinn til að ráðast í glímu við þann doðrant. En viti menn, mér fannst bókin að mörgu leiti skemmtileg og fróðleg, og margt kemur þar fram, sem mér hafði ekki til hugar komið. Sérstaklega þau gríðarlegu átök, sem sjálfstæðismenn áttu í mestallan þann tíma, sem um er fjallað í bókinni. Hatur, tortryggni, fyrirlitning og frekja. Heiftug valdabarátta, klíkuskapur, baktjaldamakk, mútur fyrir atkvæði. Hversu mikið er slíkt stundað enn? Og hvílíkur metnaður Gunnars. Hvarvetna vildi hann vera á toppnum, í námi, við kennslu, í stjórnmálum. Og þrátt fyrir mistök og ósigra reis hann alltaf upp aftur og tókst á við ný markmið. Metnaður til æðstu metorða rak hann áfram.

13.2. SUNNUDAGUR

Á ýmsu gekk í veðrinu þennan daginn. Fengum yfir okkur rigningu, hríð og hagl, reyndar ekki í stórum skömmtum. Mælingar sýndu nokkur stig ýmist yfir eða undir frostmarki.

Skemmtileg veisla í dag í Skildinganesinu. Boðið upp á tvær tegundir af súpu með nýbökuðu brauði. Algjört gómsæti. Því verður ekki neitað að þau Pálmi og Sigrún eru flink í eldhúsinu. Þau fá einkunnina -Tær snilld- eins og Sigurjón fyrrum bankastjóri sagði um eigin afrek, sem í minnum er haft. Og dæturnar voru önnum kafnar við kökuskreytingar þegar gestina bar að garði. Stjarna dagsins var Áslaug, nýorðin fimm ára. Fagnaði bæði gestum og gjöfum af hjartans list. Sigrún lét lítið yfir eigin afmæli, en Auður fékk kraftmikinn afmælissöng í tilefni af sínu afmæli í nóvember sl. Hún hafði nefnilega ekki tíma til að halda upp á það fyrr en núna! Önnum kafin stúlka.

14.2. MÁNUDAGUR

Svolítill vindur og 2° hiti, ef hita skyldi kalla. Sól og rigning til skiptis.

Svana færði mér fullt af bókum um daginn svo að nú er ég vel birg. Varð ég harla kát þegar ég dró upp úr pokanum “Svar við bréfi Helgu” eftir Bergsvein Birgisson. Sú bók hefur verið hlaðin lofi var ég spennt að vita hvort bókin stæði undir lofsöngnum. Það gerir hún sannarlega. Það er hrein nautn að lesa þessa bók, ekki síst er málnotkunin gulls ígildi. Þá er hún svo skemmtileg og fyndin að ég skellti upp úr hvað eftir annað. Algjör perla er t.d. sagan af körlunum sem fóru að sækja til greftrunar lík sómakonunnar Sigríðar í Hólmanesi. Fer ekki lengra með það.

Selur lá á steini

FEBRÚARDAGAR 2011

1.2. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður fyrrihluta dagsins. Stundum rigning og stundum jafnvel hríðarhraglandi. Engin læti í vindinum, en spáð að hann fari að þenja sig næstu sólarhringa. Enn vel yfir frostmarki fram yfir hádegi, en kólnaði upp úr því. Frostið komið í -3° í kvöld.

Skilaði öllum hjálpartækjum í dag eftir þriggja mánaða notkun. Finnst það góður áfangi.

2.2. MIÐVIKUDAGUR

Hríð öðru hverju í allan dag. Mest -2° frost. Má búast við stormi í nótt.

Fór til Árna læknis, sem blés fast og myndarlega úr vinstra eyra svo að nú heyri ég vel. Þarf að heimsækja hann aftur til að hann geti meðhöndlað hægri eyrað. Sagði mér þær merku fréttir að ef hann blési úr báðum eyrum fólks í einu ætti það til að svima óþægilega.

Sindri og Breki komu til okkar í dag. Þeir skelltu sér í Plútóbrekku með sleða sína, sem við geymum hér, því það er engin aðstaða í Kópavogi til að renna sér á sleða. “Það er gott að búa í Kópavogi” er gömul klisja þar um slóðir, skrifuð á Gunnar Birgisson fyrrverandi bæjarstjóra. Gorgeirin dugir bara ekki, meðan íbúar þar geta ekki stært sig af sleðabrekkum.

Strákarnir sýndu mikinn dugnað við heimanámið og er það reyndar ekki nýtilkomið. En þeir hafa greinilega bætt miklu við sig og eru ánægðir í skólanum. Á morgun verður upplestrarkeppni í bekk Sindra, hann æfði sig í upplestri bókarkafla og ljóðs og gerði það prýðilega.

3.2. FIMMTUDAGUR

Varð minna úr vonda veðrinu sem spáð var. Það lét þó til sín heyra um nóttina og dálítið var hryssingslegt um morguninn. Um hádegisbil fór sólin að skína og veröldin birtist fallega hvít og hrein eftir snjókomuna í gær. Um kvöldið fór að snjóa. Frostið varð aldrei meira en um -3°.

Lítil aðsókn var í morgunsundið, ég var þar einfaldlega alein mestallan tímann. Eftir hádegið arkaði ég með sjávarbökkum í fallega veðrinu.

4.2. FÖSTUDAGUR

Ágætt veður í morgun og frábært í sundinu, enda þótt frostið væri -6°. Vindurinn var svo hógvær og stillti sig alveg fram yfir hádegi. Um kvöldið æstist hríð og vindur og á tímabili gat þetta kallast blindbylur eða stórhríð. Snjórinn hlóðst að útidyrunum á örskömmum tíma.

Jónas á afmæli á morgun. Í tilefni af því bauð ég honum í hádegismat í dag, því það hentir ekki jafn vel á morgun. Við fórum í Humarhúsið, sem okkur finnst alltaf notalegur og góður staður. Fengum frábæra humarsúpu, rauðsprettu og súrmjólkurís í eftirrétt með súkkulaði á bránís (hvernig svo sem á að skrifa það) og appelsínumauk. Allt saman æðislega gott.

5.2. LAUGARDAGUR

Skemmtilegur morgun. Talsverður snjór. Tók tímann sinn að skafa af bílnum og koma honum út úr skaflinum. Frostið var ekki nema rétt undir frostmarki í mestallan dag.

Synti hálfan annan kílómetra og fann ekki fyrir þreytu. Orkan er að eflast. Synti svona mikið aðallega vegna þess að ég beið eftir Svönu. Við Tóta vorum komnar á fremsta hlunn með að fara upp úr, þegar Svana birtist. Gaman að hittast loksins allar þrjár í laugardagssundinu, sem ekki hefur orðið síðan í október. Það var því um margt að spjalla.

Jónas kemst varla yfir allar hamingjuóskirnar á fésbókinni með afmælið í dag. Anna Halla systir hans hafði samband á skype og varð úr því klukkutíma spjall við okkur bæði. Pétur og Marcela buðust til að sjá um matinn fyrir afmælisbarnið og var það með þökkum þegið. Marcelu finnst við lítið gera úr afmælisdögum miðað við fjörið hjá hennar fólki í Perú. Sinn er siður í landi hverju.

Dóra var með fyrirlestur í vinnunni sinni og var himinlifandi þegar við spjölluðum saman í kvöld. Margt fólk hlustaði á hana og sýndi mikinn áhuga. Hún vonast til að hafa veitt nokkra kúnna í dag. Var í góðu stuði.

6.2. SUNNUDAGUR

Enn hefur bæst við snjóinn, sem gerir sitt til að fegra umhverfið. Veðrið var ágætt mestallan daginn, en kólnaði þegar vind herti um kvöldið. Hitastigið var ýmist undir eða yfir frostmarki.

7.2. MÁNUDAGUR

Frost mest -2°. Logn og glaðasólskin. Frábært veður allan daginn. Um kvöldið heilsaði máninn upp á okkur og lýsti upp ládauðan sjóinn.

Fórum í góðan göngutúr í hálfan annan tíma eftir hádegið. Gengum Kotagrandann og hringinn í kringum Suðurnesið. Fylgdumst með fuglunum, sem eru ótrúlega margir á þessum tíma. Selur lá á steini skammt frá og brölti einhver ósköp áður en hann skellti sér út í sjó.

Hef gaman af að fylgjast með þresti, sem virðist hafa tileinkað sér gljávíðirunnana hér við inngönguna. Þar hefur hann svolítið skjól og virðist einhvers staðar fá nóg að borða, því hann er spikfeitur.

Briddsinn var hjá okkur í kvöld. Sátum yfir kræsingum eftir spilamennskuna og spjölluðum lengi saman.

Þruma í ruslaskápnum

JANÚARDAGAR 2011

23.1. SUNNUDAGUR

Veður nokkuð gott. Mestur hiti 7°. Dálítill vindur og svolítil rigning öðru hverju.

Furðu fátt í morgunsundinu. Kannski hafa sumir ekki verið búnir að ná sér eftir bóndadag og meðfylgjandi. Ágætt reyndar að hafa gott pláss á sundbrautum. Er komin upp í 700 metra og ekki lengur jafn erfitt um fótahreyfingar. Þetta er allt að koma.

Horfði á kvikmynd Magnúsar Magnússonar um lifnaðarhætti fálkans, samspil fálka og rjúpu í náttúrunni og rannsóknir Ólafs K. Nielsens á þessum fuglum. Feikilega falleg mynd.

Um kvöldið horfði ég á þátt í sjónvarpinu sem kallast 8 raddir. Þær raddir eiga 8 íslenskir framúrskarandi söngvarar og ekki boðið upp á nein lélegheit. Þessir þættir höfðu reyndar til þessa farið algjörlega fram hjá mér, en rak augun í það að gestur þáttarins yrði Bjarni Thor Kristinsson, sem mér finnst fantagóður bassi. Og ekki brást hann. Sagði margt skemmtilegt og söng frábærlega. Svo gerði hann mér þann stólpagreiða að syngja Nóttina hans Árna Thorsteinssonar, sem er með fallegustu lögum þessa lands. Lét þó vera að brynna músum. Fyrsta vers af þremur hljómar svo:

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,

þótt duni foss í gljúfrasal,

í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.

24.1. MÁNUDAGUR

Þokkalega hlýtt veður, en reyndar súld mestan hluta dagsins. Lítill vindur, mestur hiti 7°.

Bridds hjá Sólrúnu og Þórði í Hellulandi um kvöldið. Fékk ýmist bráðskemmtileg spil eða ömurleg og allt þar á milli, eins og oft vill verða. Var nokkuð lánsöm að þessu sinni og þar með var að sjálfsögðu mjög gaman.

25.1. ÞRIÐJUDAGUR

Milt veður, mestur hiti 5°. Þokuloft og alskýjað, rigning öðru hverju.

Sáum að veðurstofan spáðu góðu í Hrunamannahreppnum og brugðum okkur upp á Kaldbak. Þar var öndvegis veður, milt og ljúft, hiti um eða yfir 4°. Aðalmálið var að athuga hvernig hestunum liði. Þeir höfðu nóg af heyi hjá sér á Sandhólnum og sumir höfðu m.a.s. lagt sig í góða veðrinu. Allir spruttu auðvitað upp þegar þeir sáu molapokann. Stönsuðum vel og lengi hjá hestunum, skoðuðum ástand þeirra og komumst að þeirri niðurstöðu að þeir væri í góðu formi. Sannarlega gaman að hitta blessaða hestana loks eftir þriggja mánaða hlé.

26.1. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður í dag, stillt og lítil úrkoma, mestur hiti 6°. Mætti reyndar alveg vera svolítið léttara yfir, það hefur ekki sést almennilega til sólar síðustu daga.

Smáfuglarnir voru kátir í morgun, þeir kunna vel að meta blíða morgna. Hér í kring er orðið talsvert af stórum trjám sem veita fuglunum skjól og bjóða upp á upplagða söngpalla. Stararnir eru oft margir í konsertinum, en þeir eru ekki einir um hituna. Sé oft þresti og heyri til annarra, sem er ekki alltaf jafn auðvelt að þekkja.

27.1. FIMMTUDAGUR

Indælt veður, svolítil súld í morgun og stundum rigndi afar pent. Mestur hiti 5°.

Auður fór eitthvað vitlaust niður tröppur heima hjá sér í kvöld og gat hreinlega ekki stigið í annan fótinn. Meðan hún fór með mömmu sinni í læknisskoðun á slysó var ég hjá Kristínu og Áslaugu. Það var skemmtileg heimsókn, enda líflegar stúlkur. Þær sýndu mér nýjan fjölskylduvin á heimilinu, svolítin páfagauk, sem er reyndar kvenkyns og heitir Vala. Skondin og skemmtileg.

Kristín var að reikna þegar ég kom og las svo upphátt heila bók svona líka ljómandi vel. Er einnig farin að læra á píanó og spilaði lag fyrir mig. Áslaug vildi ekki vera minni og sýndi ýmsar listir. Hún söng bráðskemmtilegt lag og las fyrir okkur heila bók áður en þær systur fóru að sofa. Áslaug fer létt með lesturinn, semur bara eigin texta með myndum í bókunum. Hennar textar eru hreint ekki síðri en bókarhöfundar. Niðurstaða heimsóknar á slysó var hughreystandi, Auður sleppur með tognun.

28.1. FÖSTUDAGUR

Lítið indælt við veðrið í dag. Hitastigið hefur hangið í kringum frostmarkið og öðru hverju höfum við fengið yfir okkur hagl eða hríðarél. Sossum ekkert óveður, bara svolítill þræsingur.

Það var friðsælt og fámennt í sundinu. Vatnið hlýtt og gott að dóla nema rétt á meðan haglið buldi yfir. Notaði daginn til að klára mikinn sænskan doðrant, sem heitir því aðlaðandi nafni “Maðurinn sem var ekki morðingi”. Sögð algjör sprengja eftir Hjorth og Rosenfeldt og ekki meira um það að segja nema að þetta er sannarlega spennandi bók og frekar vel skrifuð. Nú er rétt að hvíla glæpasögur og finna sér eitthvað menningarlegra til aflestrar.

29.1. LAUGARDAGUR

Leiðindaveður. Mikil rigning, fremur hvasst, en hitinn fór í 5°.

Og nú er það ævisaga Gunnars Thoroddsen. Rosalegur doðrant, þykkur og þungur. Hef aldrei verið fíkin í ævisögur. Þær eru reyndar mun skárri, ef aðalpersónan er ekki lengur á meðal vor. Þá er líklegra að sannleikurinn hafi yfirhöndina. Guðni Th. Jóhannesson skrifar þessa ævisögu af miklum ágætum, og textinn rennur vel. Þessi mikla bók hefur þann ókost að vera svona stór og þung. Hún er ekki góð í rúmi. Ég get yfirleitt alls ekki sofnað án þess að lesa eitthvað áður. Verð að hafa einhverja litla bók við rúmgaflinn til að leysa Gunnar af fyrir svefninn.

30.1. SUNNUDAGUR

Hvasst og rigning öðru hverju. Mestur hiti 4°. Lægði um kvöldið.

“Hábítur” með stórfjölskyldunni. Öll mætt nema Katla, Hera og Dóra, stelpurnar okkar í útilöndunum. Við sátum drjúgt og spjölluðum. Verst að ég er gjörsamlega heyrnarlaus á öðru eyranu og heyrði því ekki alla spekina. Þruma litla skemmti sér gróflega í ruslaskápnum, fundum hana þar þegar KKK fóru að tygja sig. Ungfrúin góða hafði komist í feitt og dreift helming ruslinnihaldsins um allt gólf og var blátt áfram himinsæl á svipinn.

31.1. MÁNUDAGUR

Rigningin var í aðalhlutverkinu í dag, en vindur ekki mikill. Hitastig varð mest 6°.

Merkilegast á þessum degi er sú staðreynd að nú eru liðnir 3 mánuðir síðan ég fór með mjaðmarskarnið í viðgerð. Batinn kostar talsverða þolinmæði. Nú kemur þetta í stökkum í sundiðkun á hverjum degi. Blessað sundið.

Síðbúin afmælisveisla

JANÚARDAGAR 2011

15.1. LAUGARDAGUR

Skikkanlegt veður. Viðráðanlegur vindur, sólskin, mestur hiti 4°.

Fór í drjúga gönguferð. Þvoði bílinn minn sem leit út eins og hann hefði lent á bólakaf í drulluþró. Fórum svo í könnunarleiðangur upp í Víðidal. Aðeins 6 hestar komnir inn í okkar hesthús. Þeim virtist leiðast. Svavar Gestsson er búinn að kaupa stíurnar sem Ævar var með. Hann fær vonandi félagsskap áður en langt um líður.

16.1. SUNNUDAGUR

Nú er það súldin. Hæglætis veður, en ansi blautt. Mestur hiti um 4°. Fór í hálftíma morgungöngu og blotnaði rækilega.

Pétur og Marcela buðu fjölskylduhópnum í mat í tilefni af fertugsafmæli Péturs. Afmælið er jafn merkilegt í dag og það var á aðfangadaginn. Hjónakornin sáu um matinn af miklum dugnaði. Buðu upp á fjölbreytta rétti, þrenns konar vorrúllur, ýsubita í sítrónulegi, ofnbakaða grænmetisrétti, kjúklinga í grænmeti og blöndu af ávöxtum og súkkulagi í eftirrétt. Aldeilis veisla. Það var kátt í koti og vantaði aðeins Dóru, Heru og Kötlu í fjölskylduhópinn. Við sungum afmælissönginn mörgum sinnum, enda gafst ekki tóm til þess á aðfangadaginn.

17.1. MÁNUDAGUR

Nú er fallegt úti. Allt snjóhvítt, hæglátt veður, hitastig við frostmark. Sólin gægðist milli skýja. Heldur hvessti þegar leið á daginn og stöku sinnum komu snjódrífur.

Talsverð ólga í sjónum, sem þeytir öldum upp að bökkum. Gaman að fylgjast með tugum hvítmáfa og æðarblika einum og sér, þar sem þeir léku sér í öldunum eins og krakkar á brimbrettum. Það var flott.

18.1. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður fram yfir hádegi, en þá gerðist þungbúið og vindinn herti. Bætti ögn í snjóinn. Nær kvöldi kom hellirigning. Við slíkar aðstæður verður mér alltaf hugsað til hestanna í útigöngu. Þeir eru sjálfsagt eitthvað klakaðir og ekki er gott að fá rigningu í klakann. Þá er alltaf hætt við hnjóskum. Veðurfréttir gefa til kynna rigningu næstu daga, en reyndar umtalsvert hlýrra en verið hefur.

19.1. MIÐVIKUDAGUR

Hitastig allt að 6° í dag. Dálítill vindur og rigning öðru hverju.

Merkisviðburður dagsins: Fór loksins í sund, en það hefur ekki gerst síðan 31. október 2010. Ég synti 300 metra og gekk bara vel þrátt fyrir stirðleika. Og best var að ylja sér í heitu pottunum.

Sótti fund VG í Kópavogi um kvöldið, sá var vel sóttur og ágætur. Steingrímur fór yfir þróun fjármála allt frá hruni, fyrst og fremst þó eftir að VG og Samfylkingin tóku við taumum í ríkisstjórn. Margt fleira var rætt, m.a. um fiskveiðistjórnun, velferðarmál og stefnubreytingar í húsnæðismálum. Þetta var málefnaleg og fróðleg umræða og ekki minnst á meintan ófrið í þingflokknum. Veit reyndar að þingmenn okkar hafa almennt ekki þungar áhyggjur af ófriði og óánægju, telja raunar eðlilegt að stundum hvessi í þingflokknum við þessar sérstöku aðstæður sem nú ríkja.

20.1. FIMMTUDAGUR

Ekkert óskaveður. Hitastigið hefur þó verið yfir frostmarki, mest um 2°. Dálítill vindur, stundum rigning, stundum svolítil snjókoma.

Ekki var beint notalegt í sundlauginni í morgun, og ég var ekki ánægð með getu mína við fótaspyrnu. Orka og dugnaður enn all fjarri. Óþarft reyndar að láta svona, mér hefur vissulega farið fram síðan 1. nóvember 2010, þótt mikið vanti enn upp á lipurð og fimi!

21.1. FÖSTUDAGUR

Sunnan- og suðvestanátt. Hlýindi um allt land! Hitastigið komið upp í 7° að kvöldinu. Öðru hverju örlítil rigning.

22.1. LAUGARDAGUR

Merkilegt er þetta veðurfar. Þungbúið og sólarlaust, en hitastig yfir 8°. Talsverð þoka víða um landið.

Linda og Halli eru á Kaldbak um helgina. Þau létu vel af hestunum, sögðu þá í ágætum holdum og vel á sig komnir. Þeir höfðu stillt sér upp á hólnum og biðu eftir tuggunni, sem þeir fengu vel úti látna.

Frýs í æðum blóð

JANÚARDAGAR 2011

8.1. LAUGARDAGUR

Enn er kalt og sterkur vindur. Mest frost -6°. Sljákkað hefur í veðurguðunum og flest komið í sæmilegt lag eftir veðurhaminn síðustu daga.

Leyfðar voru brennur og flugeldar í dag til að bæta upp veðrið á þrettándanum, en allt var það heldur hóflegt. Pétur og Marcela tóku að sér að sprengja og skjóta upp flugeldum, sem ekki gafst færi á að senda til lofts á gamlárskvöld. Þá er það frá og jólasvipur einnig horfinn hér innan húss.

9.1. SUNNUDAGUR

Enn er frost á Fróni og frís í æðum blóð. Þetta er nú eiginlega orðið alveg nóg. Samkvæmt dagbók minni var þetta ólíkt betra á sama tíma fyrir ári. Þá var vissulega vetrarveður, frost og stundum snjókoma, en þá var ekki þessi herjans vindur. Sé það skráð að ég hef sprangað um í góða veðrinu 9.1. 2010, hrifist af dýrð himins og jarðar og eigi kvartað yfir dálitlu frosti. Nú er hins vegar eins gott að hafa skjól í góðu húsi.

10.1. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Skýjað, úrkomulaust, lítill vindur, frost mest -5°.

Er enn að taka til eftir hátíðasukkið. Fór með flöskur og dósir í Sorpu og fannst ég klyfjuð, en það var aumur bunki miðað við ósköpin sem flestir aðrir drógu með sér.

Enn er ófriðlegt í þingflokki VG og grasrótarliðið andvarpar utangátta. Erfitt er að átta sig á hvað vakir fyrir þremenningunum, þeim Lilju, Atla og Ásmundi? Ég sé ekki annað en að þau þrjú hafi getað komið öllu sínu á framfæri, þótt tillögur þeirra falli ekki allar í kramið. Hélt reyndar að ýmsar breytingar til batnaðar á fjárlögunum hefði mátt rekja til þeirra, sem þau hefðu mátt fagna. En þau virðast ætlast til að farið sé að þeirra vilja í einu og öllu og eru móðguð ef það gengur ekki eftir. Og gagnrýna félaga sína af fullri hörku, saka þá um forræðishyggju og foringjaræði. Krefjast svo opinberrar afsökunar Árna Þórs, þegar hann svarar gangrýni þeirra.

Gagnrýni er sjálfsögð. Skoðanaskipti eru sjálfsögð. Jafnræði er sjálfsagt. Málamiðlun er nauðsynleg, ef ekki eru allir á sama máli. En fólk er misjafnlega fúst til sátta. Hvað er að í þessum þingflokki? Hverjir eru öðrum þverari? Halda þingmennirnir að þeir séu einir í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði?

11.1. ÞRIÐJUDAGUR

Nokkuð hvass vindur, sólskin með köflum, og mælirinn lúrði við frostmarkið um miðjan daginn.

Pétur og Marcela eiga tveggja ára brúðkaupsafmæli og fagna því á ýmsan máta.

Heyrði hljóðið í Dóru. Þær Hera áttu góða daga í París, enda ekki jafn fjári kalt þar eins og hér á Fróni. Þær urðu fyrir óláni á leið til Gent, Hera var rænd ferðatösku í lestinni frá Brussel. Þeim var skipað að geyma farangur sinn á vissum stað í lestinni, en á leiðarenda fannst ekki taska Heru. Sem betur fer er farangurinn tryggður svo að tjónið verður bætt.

12.1. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað og talsverður vindur. Þurrt og kalt. Hitastigið í kringum frostmark.

Ylja mér við lestur Ársrits Fuglaverndar. Ritið er stútfullt af skemmtilegu efni og frábærum myndum. Textahöfundar hrífast mjög af örnum. Um þá fjalla þrjár greinar og allar athyglisverðar. Ernir eru ekki smáfríðir né árennilegir. En þeir eru magnaðir og tignarlegir á fluginu með vænghaf sem nálgast tvo og hálfan metra. Aðra glæsilega fugla af ýmsum stærðum vantar heldur ekki. Fínlega, litskrúðuga, flugfima, fagurt galandi og skemmtilega. Helsingi, lundi, lómur, gulandarsteggur, krossnefur og allir hinir. Hver einasta fuglamynd gleður augað. Læt mig dreyma um sumar og sól og ljúfan fuglasöng.

13.1. FIMMTUDAGUR

Grenjandi hvasst. Varað við stormi í nótt. Frostlaust við suðurströndina, en kaldara til landsins.

Spiluðum bridds við Þórð og Sólrúnu og nutum góðra veitinga við svo búið. Jónas er kokkurinn að vanda og bauð m.a. upp á frábæran humar.

14.1. FÖSTUDAGUR

Gat ekki sofið fyrir vindgnauðinu og las reifara í heila klukkustund um miðja nótt áður en ég náði að sofna. Sljákkaði ögn í vindinum að deginum og hitastigið lúskraðist yfir frostmarkið.

Fékk þær fréttir hjá Eddu að hestarnir okkar á Kaldbak virtust vel haldnir þrátt fyrir kuldatíðina. Erum vissulega betur sett en hestar og hestamenn í kafsnjónum fyrir norðan. Útigangshestar þar eiga erfitt með að krafsa ofan í snjóinn til að snapa grastoppa, og innistandandi hestar eru ekki ánægðir með sinn hlut, enda fá þeir litla hreyfingu í ófærðinni.

Afdrifaríkt bíó árið 1974

JANÚARDAGAR 2011

1.1.2011 LAUGARDAGUR

Sæmilegt veður á þessum fyrsta degi ársins. Ekki þó jafn fallegt og á síðasta degi gamla ársins. Hitastigið var mest um 3°. Talsverður vindur jók kulið. Sólin skein glatt, en ekki lengi.

Í gær lauk ég dagbók ársins 2010. Hef ekki áður skráð dagbók af slíkri staðfestu, enda ekki sérlega skipulögð manneskja. Hóf þessa tilraun 1.1. 2010 og hafði reyndar helst í huga að skrá upplýsingar um veður og áhrif þess á umhverfið. Ýmislegt slæddist með, sem varðar daglegt líf mitt, fjölskylduna og annað mér nákomið, ekki síst hestana, sem eru mér kærir.

Einhverntíma hefði ég örugglega skráð ýmsar meiningar um það sem á hefur gengið í stjórnmálunum á þessum sama tíma. Fyrir kom að ég gerði það, oftast af hreinni tilviljun og fann sjaldan löngun til þess. Sennilega vegna þess að mér finnst alveg nóg um alla þá umfjöllun sem yfir okkur hellist. Hef litlu við þau ósköp að bæta.

Er bara nokkuð ánægð með að hafa tekist að halda strikið við dagbókarskrifin í heilt ár, og kannski er komið nóg. Ég velti því fyrir mér, en ætli sé ekki best að sjá bara til.

2.1. SUNNUDAGUR

Milt og gott veður. Mestur hiti 5°. Suddi mestallan daginn. Þoka.

Matreiðslan byrjaði snemma í eldhúsinu. Leitaði uppi gamla góða uppskrift, sem ég hafði ekki notað alllengi. Helguð jólum. Reyndist vel og þótti góð. Linsubaunir, laukur, hnetur, sveppir og sitthvað fleira. Útslagið gerði rosa góð sósa með sólberjasaft, rifsberjasultu, rjóma o.s.frv. Tókst reyndar að rugla ögn saman í önnunum, en yfirleitt gerir það nú ekkert til.

Í þetta sinn gat allur hópurinn okkar verið með. Ánægjulegt upphaf góðs árs 2011.

3.1. MÁNUDAGUR

Gott veður að morgni. Mætti sárafáum á göngustígnum, en hrafnarnir, máfarnir og gæsirnar létu til sín heyra. Um miðjan dag versnaði veðrið. Orðið allhvasst og kalt um kvöldið.

4.1. ÞRIÐJUDAGUR

Hvassviðri raskaði næturró. Heiðríkt mestallan daginn og frostið mældist mest um -5°. Kuldinn er napur í hvassviðrinu.

Ég vorkenndi Sindra og Breka að byrja í skólanum eftir lúxus frídaganna. Dóra ók þeim í Snælandsskóla, en var bara nýkomin aftur þegar hringt var og beðið um að sækja Breka, sem hafði kastað upp í miðjum leikfimitíma. Líklega búinn að fá einum of mikið af hátíðamat, sælgæti og gosi. Jólin og áramótin taka á.

5.1. MIÐVIKUDAGUR

Fjarska fallegt og ósköp kalt. Vindinn lægði nokkuð þegar leið á daginn, sem gerði útivistina bærilegri. Gæsahópur kroppaði grasið hér skammt frá. Ég færði gæsunum mulið brauð. Þær virtust tortryggnar, en vonandi hafa þær gleypt við þessu eftir að ég lét mig hverfa.

6.1. FIMMTUDAGUR – ÞRETTÁNDINN

Hvass vindur og úfinn sjór. Frostið mældist a.m.k. -11° og kuldinn var metinn um -30°. Öðru hverju lítils háttar hríð, einkum þó skafrenningur. Mjög vont víða um landið. Víðast hvar þurfti að fresta þrettándabrennum og tilheyrandi.

Á þrettándanum árið 1974 fór ég í bíó með Jónasi og drengjunum okkar þremur að sjá Chaplin í Nútímanum. Það mun vera einsdæmi í þessari fjölskyldu, þar sem bíóferðir hafa ekki verið almennt skemmtiatriði á dagskránni. Kannski hefði það gerst oftar, ef betur hefði staðið á, því við skemmtum okkur feikilega vel þetta kvöld. Strákunum fannst merkilegt hvað ég hló mikið og ekki síður hvað ég innbyrti mikið popp. Líklega hafði hvort tveggja sín áhrif, því að morguninn eftir fæddist lítil stúlka, sem mörgum þótti ótrúlegur atburður, enda bjuggum við fastlega við fjórða syninum!

Haraldur F. Gíslason leikskólakennari, gjarna kallaður Halli í Botnleðju, skrifaði góðan pistil á Smuguna í dag. Hann segir m.a:

“Ég er 36 ára menntaður leikskólakennari í 100% starfi með þriggja ára háskólanám að baki og 12 ára starfsreynslu á leikskóla. Ég er deildarstjóri og ber ábyrgð á 23 börnum. Ég er yfirmaður annarra kennara á deildinni, ber ábyrgð á því að allir kennarar vinni gott starf og fari eftir Aðalnámskrá leikskóla og Skólanámskrá Hörðuvalla. Ég er líka hópstjóri 8 barna á deildinni og sé um að skipuleggja starfið fyrir þann hóp. Ég ber ábyrgð á lyfseðilskyldum lyfjum eins og rítalíni sem sum börn þurfa að taka. Ég þarf að búa til sérstaka matseðla, vigta allan mat og reikna út með flókinni reiknisformúlu svokallað phenamagn fyrir barn með sjaldgjæfan efnaskiptagalla sem heitir PKU. Ég þarf að skrá það niður allan daginn og senda svo rétta tölu til foreldra. Ef ég geri mistök get ég átt þátt í því að barnið hljóti varanlegan heilaskaða. Ég sé að mestu leyti um tónlistarstarf deildarinnar. Ég fer vikulega á yngstu deildina og sé um tónlistarstarfið þar. Ég sé nær undantekningarlaust um sameiginlegan söngfund leikskólans. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Ég fæ 5 klukkutíma á viku til að undirbúa allt starfið, eiga samtöl við foreldra, reyna að uppfæra heimasíðuna, kynna mér nýjar stefnur og strauma og margt fleira sem fellur undir starfssvið mitt. Fyrir þetta fæ ég útborgað rétt rúmlega 200 þúsund á mánuði.”

Seinna segir hann:

“Það geta allir sungið rokk, það geta allir spilað pönk, það geta allir verið gordjöss, það geta allir farið í sjónvarpsviðtöl, það geta allir verið í bæjarstjórn. En það geta ekki allir verið kennarar. Það geta ekki allir haldið jákvæðum og góðum aga á 23 barna deild eða bekk. Það geta ekki allir skapað með gleði vinnufrið til náms á 23 barna deild eða bekk. Kennsla er list. Góðir kennarar eiga skilið mannsæmandi laun og starfsumhverfi.”

Hárrétt hjá Haraldi.

7.1. FÖSTUDAGUR

Mjög hvasst og kalt. Varla nokkur úrkoma á suðvesturhorninu. Annars staðar ennþá hvassara, einkum norðaustan lands. Hríðarbyljir, oft afar lítið skyggni, ófærð, rafmagnstruflanir, plötur fuku af þökum o.s.frv.

Og árla morguns flaug afmælisbarnið frá okkur. Heldur fannst mér ónotalegt að kveðja Dóru um miðja nótt í beljandi vindinum. Pabbi hennar ók með hana og Heru suður á Keflavíkurflugvöll og þaðan flugu þær til Parísar. Var ekki í rónni fyrr en ég heyrði frá þeim, þá komnar á hótel í París. Sögðust hafa sofið af sér allan óróann í loftinu og ekki rumskað fyrr en tilkynnt var um lendingu á Charles de Gaulle airport.

Dóra á sem sagt 37 ára afmæli í dag. Þvílíkt hvað tíminn flýgur.

Fertuga jólabarnið

DESEMBERDAGAR

24.12. FÖSTUDAGUR – AÐFANGADAGUR

Hvít jól. Ágætt veður. Snjór yfir öllu og sæmilega stillt.

Pétur 40 ára. Trúi því reyndar varla. Finnst ekki langt síðan ég fór á Fæðingarheimilið að morgni aðfangadagsins 1970. Fæðingin gekk ljómandi vel, enda móðurmyndin orðin nokkuð vön og þurfti ekki frekar en endranær á lækni að halda. “Þriðji drengurinn fæddur og móðirin ljómandi af ánægju”, sagði fæðingarlæknirinn þegar hann birtist. “Þetta er heilbrigður myndarstrákur. Er það ekki aðalatriðið”, svaraði ég. Svo hvíldist ég eftir átökin og sofnaði öðru hverju allan daginn. Fannst ég stundum heyra messutóna: “Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn”, söng útvarpskórinn.

Anna og Óli afi komu í heimsókn og færðu okkur Pétri gjafir. Ég fékk svaka flott leðurstígvél, en í pakka Péturs kom heil brennivínsflaska! Mikið var að því hlegið, en þar höfðu orðið víxl á jólamerkjum. Brandarinn sá er oft rifjaður upp.

Þennan sama dag vildi svo til að birt var teiknimynd af ungum pilti, sem lá í sófa hjá sálfræðingi. Og hvað amar nú að þér, piltur minn?, spurði sálfræðingurinn. Ég á afmæli á aðfangadag, stundi pilturinn.

Pétur hefur aldrei kvartað yfir þessum örlögum. Allmörg fyrstu ár hans komu frændsystkini hans til okkar fyrir hádegi á aðfangadag, fengu kakó og kökur og skemmtu sér hið besta. Enn þann dag í dag er boðið upp á kakó og kökur um hádegisbilið á aðfangadag í tilefni afmælisins.

Samkvæmt venju áttum við öll fjölskyldan saman skemmtilega samverustund í kvöld. Hver hópur borðar heima hjá sér um kvöldið. Hittumst síðan öll og gefum hvert öðru gjafir, en þó aðallega börnunum. Mikið fjör og bráðskemmtilegt fram undir miðnætti. Börnin öll svo glöð og skemmtileg eins og alltaf.

25.12. LAUGARDAGUR – JÓLADAGUR

Engin leti á boðstólum þennan morgun. Framundan jólakaffið með Svönu og hennar fólki. Við fáum góða aðstoð frá okkar börnum og þeirra mökum. Kristján og Katrín komu með brauðlengjur fylltar góðmeti. Pálmi og Sigrún komu hlaðin kræsingum, brauði og kökum. Marcela og Pétur bjuggu til fisk að perúskum sið, og Dóra sá um karamellukökurnar. Við systur höfum haldið þeirri venju árum saman að hittast á jóladag til skiptis hjá hver annarri. Alltaf jafn gaman og sérstaklega núna að fá yngstu barnabörn Svönu, Mími, Arnald og Svanhildi, sem ekki hafa fyrr komið á Fornuströnd.

Veðrið ekki upp á sitt besta og á víst eftir að láta verr á morgun. Hiti var um 4° mest í dag. Hvessti æ meira nær kvöldi. Talsverð úrkoma, ýmist hríð eða slydda.

26.12. SUNNUDAGUR

Leiðindaveður um allt land, verst á austur- og suðausturlandi. Víða rigndi mikið og sums staðar þurfti að fyrirbyggja skaða vegna vatnavaxta. Fór raunar betur en á horfðist, og veðrinu slotaði þegar leið á daginn.

Höfðum fondue um kvöldið að vanda. Okkur finnst það albest eftir allt hangikjötið og kökuátið. Við vorum 11 talsins við borðið, Pálmi og fjölskylda komu til liðs við heimafólkið.

27.12. MÁNUDAGUR

Ágætt veður í dag, úrkomulaust, frostlaust og stillt.

Loks gafst tími til að líta á mynddiskana, sem Jónas gaf mér. Þetta eru fjórir diskar sem kallast Náttúra Íslands. Fallegar og skemmtilegar myndir og fróðleikur um fugla. Heiðurinn af þessum diskum á Magnús Magnússon kvikmyndagerðarmaður.

28.12. ÞRIÐJUDAGUR

Gott veður í dag. Úrkomulaust og stillt. Mestur hiti 3°.

Fór í góðan göngutúr og fylgdist með fuglum. Hrafnar eru margir hér í kring á þessum árstíma, þeir sátu á ljósastaurum í langri röð. Fjöldi máfa er á stöðugri ferð og ertir stundum hrafnana, sem ekkert hafa á móti svolitlum hasar. Ég sker niður afganginn af jurtafeitinni eftir steikingu laufabrauðsins og dreifi því á lóðinni. Þeir þiggja það fegnir. Og stararnir eru snöggir að ná sér í bita, ef stóru fuglarnir bregða sér frá.

29.12. MIÐVIKUDAGUR

Sama góða veðrið. Himininn skipti litum við sjóndeildarhring.

Brá í brún þegar ég arkaði af stað í göngutúr, það var svo hált á götu og stígum. Gekk á grasi þar sem hægt var. Hafði félagsskap gæsa í tugatali. Þær labba líka um grasið og finna alltaf eitthvað að kroppa þegar snjórinn er fjarri.

Er strax orðin leið á flugeldum og sprengjum, enda klárt að þeim mun ekki linna fyrr en einhvern tíma í janúar.

30.12. FIMMTUDAGUR

Enn er hægt að segja: Sama góða veðrið. Og m.a.s. er hlýrra í dag, mestur hiti 6°. Spáð kólnandi á morgun.

Dreif mig loksins til Svönu í nýju íbúðina í Álfatúni 19, Kópavogi. Þangað flutti hún í byrjun nóvember. Hafði aðeins séð íbúðina á netinu, en var strax nokkuð viss um að þetta væri rétti staðurinn. Sannfærðist í dag um að svo er. Íbúðin mátulega stór, falleg og vel gerð. Allt mjög haganlegt og vel fyrir komið. Umhverfið notalegt og allgott útsýni, sem ég gat að vísu ekki sannreynt í dag vegna dumbungs. Svana er sannarlega lukkunnar pamfíll og líður augljóslega vel á nýja heimilinu.

31.12. FÖSTUDAGUR – GAMLÁRSDAGUR

Þegar suddinn vék að áliðnum morgni birtist dýrð himinsins. Fjöllin voru sem borðalögð dökkrauðum dúk sem smám saman varð ljósfagurrauður. Ég skellti mér í gallann og arkaði út. Gat ekki litið af skýjunum fallegu og má þakka fyrir að hafa ekki rekist á hlauparana eða steypst á hausinn á stígnum. Vindur var allnokkur og herti þegar leið á daginn.

Sindri, Breki, Dóra, Pétur, Marcela og við Jónas borðuðum saman um kvöldið. Pétur og Marcela voru á næturvakt í Gistihúsinu þar sem Marcela vinnur. Þótti vissara að Pétur væri þar með henni á slíkri gleðskaparnóttu. Dóra og strákarnir kveiktu í alls kyns flugeldum og fýrverkeríi hér úti á lóðinni. Ég fylgdist með út um gluggannn og skemmti mér hvað best yfir útganginum á þeim. Sindri var í galla af Pétri og Breki í galla af mér, býsna spaugilegir í múnderingunni.

Skemmtum okkur vel yfir áramótaskaupinu, sem var harla gott. Flugeldarnir voru hreint ekki af minni sortinni og flugu um loftið lengi nætur. Var farin að halda að svefnfriður fengist alls ekki. Las fram eftir nóttu, en svefnin sigraði að lokum.

Laufabrauð og tunglmyrkvi

DESEMBERDAGAR

15.12. MIÐVIKUDAGUR

Snemma morguns var 7° hiti á mæli. Um hádegisbilið var hitinn kominn niður í 2° og kl. 13:30 -1° frost. Og undir kvöld var frostið orðið -4°.

Fór til Gunnars læknis í morgun til eftirlits. Hef verið hálf ergileg yfir mislöngum löppum og ólánlegum frágangi skurðsársins. Það þótti Gunnari algjör óþarfi. Var bara ánægður með framvindu mála og sá ekki ástæðu til annars en að ég yrði hraust og hress eftir 2-3 mánuði. Ólánlegi frágangurinn ætti eftir að lagast. Ég trúi yfirleitt öllu sem hann segir.

16.12. FIMMTUDAGUR

Fallegt út að líta, en afar kalt. Kaldara verður víst á morgun og næstu daga. Hugnanlegt fyrir konukind eins og mig, sem á eftir að kaupa allar jólagjafirnar.

17.12. FÖSTUDAGUR

Óveðrið skall á í gærkvöldi og er enn að djöflast á Norður- Austur- og Suðausturlandi. Línur slitnuðu víða og rafmagnslaust var allengi á nokkrum bæjum. Upp úr hádeginu var óveðrið komið hingað. Ýmislegt hefur gengið á, en við erum altént laus við fannfergið, sem er mikið fyrir norðan og austan.

Helgi Seljan tók Lilju Mósesdóttur á beinið í Kastljósinu í kvöld. Lilja stóð sig þokkalega, en virtist þó óörugg og ekki mjög sannfærandi. Hún, Atli Gíslason og Ásmundur Daði Einarsson studdu ekki fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, sem var til lokaafgreiðslu í dag. Athyglisvert að Atli og Ásmundur höfðu áður stutt fjárlagafrumvarpið við lok 2. umræðu, en ekki að lokinni þeirri þriðju, sem hafði þó tekið nokkrum breytingum til hins betra, sérstaklega í velferðarmálum. Svolítið ruglaðir. Auðvitað á hver og einn þingmaður að breyta samkvæmt bestu samvisku. Á hinn bóginn verða þingmenn líka að geta starfað með öðrum. Þeir verða að geta tekið því að ná ekki öllu fram sem þeir vilja og sætta sig við málamiðlun innan eigin hóps.

18.12. LAUGARDAGUR

Grenjandi hvasst í nótt. Átti allt eins von á rúðunum inn í rúm til mín! Um frostmark fyrripart dagsins, því sem næst heiður himinn. Sólin reis við enda Heiðinnar há kl. 11:50.

Upp úr hádeginu safnaðist fjölskyldan saman til laufabrauðsgerðar. Allt okkar önnum kafna fólk mætti til leiks og var aldeilis líf og fjör í kotinu. Var nú skorið út af misjafnlega mikilli list, og afraksturinn hátt á 200 laufabrauðskökur. Pétur og Marcela reiddu fram vorrúllur og pítsur, og ekki nokkur sála fór svöng heim. Það má bóka.

Horfði á skemmtilega og sérstaka mynd í sjónvarpinu. Frönsk mynd sem kallast Refurinn og barnið. Það kemur sem sagt fyrir, að boðið er upp á góðar myndir í sjónvarpi allra landsmanna, eins og sagt er.

19.12. SUNNUDAGUR

Enn er kalt og hvasst, og mætti nú alveg hlýna ögn.

Tvö barnabarnanna voru í sviðsljósinu í dag. Auður spilaði á píaníó, m.a. Til Elísu, og Sindri keppti í fótbolta og gekk vel. Var dálítið lúin og dösuð eftir atið í gær og gat því miður ekki séð þau brillera. Léleg amma þennan daginn. Eins og það er gaman að sjá þessa krakka sýna listir sínar og ná sífellt meiri færni. Verð vonandi orðin hress og fjörug í næstu hrinu.

20.12. MÁNUDAGUR

Frostið bítur og vindur næðir. Og enn mun kólna samkvæmt spá Veðurfræðinga.

Jónas brá sér upp á Kaldbak og ekki var nú hlýrra þar. Því miður sá hann hvergi hestana. Þeir geta víða leitað sér skjóls og vilja frekar vera úti en inni. Gæti þó örugglega þegið svolítið hlýrra loftslag.

Fór loks í leit að góðum gjöfum handa barnabörnunum. Gekk allvel, en á helminginn eftir.

21.12. ÞRIÐJUDAGUR

Vetrarsólstöður. Hlakka til að sjá dagana lengjast og birtuna þokast nær. Mjög kalt, mest -9° í Reykjavík, -15°á Kaldbak.

Í morgun gafst Íslendingum tækifæri til að fylgjast með tunglmyrkva, sem er sannarlega ekki hversdagslegur viðburður. Afar sjaldgæft er að tunglmyrkvi verði sama dag og vetrarsólstöður. Það gerðist síðast 21. desember árið 1638.Við höfðum ágæta aðstöðu hér á Fornuströnd til að sjá þetta út um glugga. Stórmerkilegt. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stillti upp sjónaukum við Útvarpshúsið og bauð hverjum sem vildi að njóta þeirrar aðstöðu. Nokkur hundruð þáðu boðið og þótti ekki verra, að auk tunglmyrkvans var hægt að sjá Satúrnus og Venus vel í sjónaukunum.

22.12. MIÐVIKUDAGUR

Kalt, kalt, kalt. Mér er alltaf kalt um þessar mundir. Jónas segir að ég sé ekki nógu feit. Það er líklega alveg satt.

Í morgun var mikið frost, en dró verulega úr frosti þegar leið á daginn. Seinnipartinn var frostið um -4°, þá herti vind og snjóaði lítilsháttar.

23.12. FIMMTUDAGUR

Þorláksmessa. Snjóhula yfir öllu. Lítið frost, en nokkuð hvasst. Hrafnarnir fljúga stöðugt fram og aftur, og gæsirnar kúra sig niður á bakkanum. Blessaðir fuglarnir vonast eftir einhverju í gogginn.

Hvað gerir Grímsson nú?

DESEMBERDAGAR

8.12. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað, -2° frost fram eftir degi. Undir kvöld var kominn 3° hiti!

9.12. FIMMTUDAGUR

Aldeilis umbreyting í veðrinu. Hiti 5° og lítilsháttar rigning.

Mannaði mig upp í að hreyfa bílinn. Það gekk ljómandi vel. Þurfti ekki einu sinni sessu undir rassinn. Er fegin að geta bjargað mér sjálf.

Dóra kom fljúgandi frá París kl. 5. Fór eldsnemma morguns frá Gent með tram og lest og metro og þurfti svo að hanga í 3 tíma í faðmi de Gaulle. Var orðin ansi þreytt og slæpt og fegin að skríða upp í gamla góða rúmið sitt.

Enn einu sinni er búið að semja við Breta og Hollendinga um Icesave, þ.e.a.s. til bráðabirgða, því Alþingi þarf að fjalla um málið og vonandi samþykkja að lokum. Og svo er auðvitað stóra spurningin hvort Ó.Grímsson stillir sig um að sprengja samkomulagið.

10.12. FÖSTUDAGUR

Dimmt yfir, talsverð úrkoma, mestur hiti 7°.

Stöðugar umræður um Icesave-samninginn. Fróðlegt að heyra og lesa um starf Lee C. Bucheit formanns nefndarinnar, sem vann að samningnum. Þar fer maður með mikla reynslu og athyglisverð eftirfarandi orð hans: “Ég gerði skuldamál þjóða að ævistarfi og ég ann því heitt, enda eru engin verkefni sambærileg.” Ég segi nú bara að mikið er gott að hann hefur gaman af þessu! Hann var til í tuskið hér fyrir tveimur árum og má ætla að viturlegt hefði verið að fá hann þá strax í þetta “skemmtilega” verkefni. Það var óráð að setja lítt reynda menn í þetta mál. Líklegt er þó að það hafi hreinlega þurft þennan tíma til að ná svo góðum árangri sem nú blasir við.

11.12. LAUGARDAGUR

Þungbúið loft og rigning öðru hverju. Hiti mestur 5°.

12.12. SUNNUDAGUR

Milt veður, hiti 5°.

Tvívegis gisti ég í Lauftúni í Skagafirði á ferðalagi um landið, síðast sumarið 2005. Gott var þar að gista. Nokkru fyrr höfðu Frakkar dvalist þar og kunnað vel við sig. Bóndanum þótti merkilegt að Frakkarnir tóku látlaust myndir af skýjum himins og voru yfir sig hrifnir. Við hlógum að þessu. Ég minnist þessa oft þegar ég get varla slitið mig frá glugganum í ljósaskiptum að morgni eða kvöldi.

13.12. MÁNUDAGUR

Dagarnir stuttir og dimmir. Ekki sást til sólar í dag. Lítilsháttar rigning. Mestur hiti 5°.

Fórum með Fordinn minn í viðgerðina snemma í morgun. Yfirmaður Péturs rak bílinn sinn utan í minn fyrir nokkru og dældaði hann pent. Fékk bílaleigubíl til afnota meðan minn er í viðgerð.

Pétur og Marcela komu heim eftir viku dvöl á Kaldbak. Sögðust hafa sofið heil ósköp og notið leti og hvíldar eftir annasama mánuði undanfarið.

14.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki fékk sólin að skína í dag, en hitinn fór upp í 7°. Öðru hverju svolítil rigning.

Mér sýnist ekki hafa dregið úr auglýsingum blaðanna í tilefni jóla frá því sem var fyrir hrunið margumrædda. Dýrustu gjafahugmyndirnar þekja dagblöð og ótal sérblöð. Flugfélögin auglýsa ferðalög sem aldrei fyrr og gefa til kynna að það séu tilvaldar jólagjafir. Tölvubúðirnar auglýsa 100 – 200 þúsund kr. tölvur til jólagjafa. Flatskjár bíða í hillum. Rándýr fatnaður, kjólar, skór og útivistarflíkur eru áberandi. Hvað hugsar fólkið sem á naumast fyrir jólamat?

Landnámshænur, þjóðgarður og forystufé

DESEMBERDAGAR 2010

1.12. MIÐVIKUDAGUR

Fullveldisdagurinn rann upp í allri sinni hógværð, enda yfirleitt frekar lítið með hann gert. Veður milt og gott.

Í dag var athöfn í Þjóðmenningarhúsi þar sem úthlutað var styrkjum úr Þjóðhátíðarsjóði. Alls höfðu 273 umsóknir um styrki borist stjórn sjóðsins samtals að fjárhæð um 418 millj. kr. Urðu því margir útundan þar eð stjórnin hafði aðeins 35 millj. til skiptanna. Mikill fjöldi styrkhafa var viðstaddur athöfnina og virtust allir hinir ánægðustu með sinn hlut. Hæstu styrkina fengu eftirtaldir:

1. Hugvísindastofnun Háskóla Íslands; v. gagnasöfnunar og skráningar á íslensku táknmáli.

2. Ríkisútvarpið, Rás 1; v. þátta um sögu Ríkisútvarpsins í tilefni 80 ára afmælis.

3. Íslensk tónverkamiðstöð; v. flutnings og varðveislu handrita í Þjóðarbókhlöðu.

4. Íslenska landnámshænan; til kynningarstarfs og ræktunar á Vatnsnesi.

5. Fræðslufélag um forystufé; til uppbyggingar fræðaseturs í Þistilfirði.

6. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; til að skrásetja í gagnagrunn allar fornleifar þjóðgarðsins.

7. Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna; til endurgerðar á Hrunaréttum og varðveislu á eyktanöfnum og notkun sólarklukku.

8. Þjóðminjasafn Íslands; til að skrá og nýta heimildir um jörð og byggingar að Þverá í Laxárdal og setja upp sýningu.

Gaman væri að segja frá öllum hinum verkefnunum, sem við sáum ástæðu til að styrkja, en það er of mikið upp að telja.

Um kvöldið var svo annar merkisviðburður á Fornuströnd. Pétur bauð upp á heimagerða pítsu í tilefni af 10 ára afmæli Breka (14.11.). Þetta var þriðja afmælisveislan hans Breka og stefnir í þá fjórðu, þegar hann býður til sín bekkjarfélögunum! Finnst alltaf jafn athyglisvert hvað krakkar nú til dags gera mikið úr afmælisboðum. Þekki það ekki frá mínum æskudögum.

2.12. FIMMTUDAGUR

Frábært veður. Ekki skýhnoðri á himni. Sólin fær ekki mikinn tíma til að skína, en hún nýtir þennan skamma tíma vel. Nú væri gaman að ganga um Kotagranda, en það verður að bíða betri heilsu og betri tíma.

Áhugamenn um kosninguna til stjórnlagaþings eru enn að velta fyrir sér fyrirkomulaginu og niðurstöðunum. Ekki allir ánægðir eins og sjá má á blogginu. Því verður hins vegar ekki breytt úr þessu, en spurning hvort það kerfi verður oftar notað. Hefðbundna kerfið hefði skilað talsvert annarri niðurstöðu. Sjálf hefði ég verið ánægðari með hana. Hefði viljað hafa Jónas í hópnum, og einnig sakna ég Áslaugar Thorlacius, Stefáns Gíslasonar, Evu Sigurbjörnsdóttur, Gunnars Hersveins, Kristínar Jónsdóttur, Gísla Más Gíslasonar, og fleiri mætti nefna. Þetta fólk var margt á næstu grösum við þá sem inn fóru. En þetta verður ekki endurtekið, og sem betur fer valdist inn þarna margt fólk traustsins vert.

3.12. FÖSTUDAGUR

Enn er dýrðar veður. Sól og heiðríkja. Mest frost um -6° síðdegis.

Er ekki enn búin að finna mér bók við hæfi. Mér þykir svo vænt um söguna um Litla tré, að ég er ekki tilbúin fyrir nýja bók í bili. Þarf að jafna mig eftir lesturinn.

4.12. LAUGARDAGUR

Þvílík dýrð sem þetta land býður upp á. Gat ekki haft augun af fegurð himins og jarðar lengi morguns. Jörðin hrímhvít. Skýjafarið eins og ullarhnoðrar á túni. Elddökkrauð skýin upp af fjöllunum, og ljósin blika í Bláfjöllum. Skarfar fljúga hjá.

Ég er orðin svo löt að fylgjast með sjónvarpi, að ég steingleymdi að kíkja á útsendinguna á Stöð 2 á degi rauða nefsins. Alltaf ánægjulegt hvað fólk er duglegt að bregðast við söfnun til bágstaddra. Í þetta sinn söfnuðust ríflega 170 milljónir, sem er vel að verki staðið.

Fékk smá samviskubit yfir þátttökuleysi mínu, en læt að þessu sinni duga þau félög og stuðningssamtök sem ég styð. Þau eru: Náttúruverndarsamtök Íslands, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, SOS – barnaþorpin, Kattavinafélag Íslands, Happdrætti Krabbameinsfélagsins, Blindrafélagið, Fuglaverndarfélag Íslands, Sjálfsbjörg, Landssamband fatlaðra, Barnaheill, Rauði kross Íslands, Gigtarfélag Íslands, Félag heyrnarlausra, Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs, Hestamannafélagið Fákur, Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra. Safnast þegar saman kemur!

5.12. SUNNUDAGUR

Fagurt veður, logn og kalt.

Myndaröð um Planet Earth, eða Móður Jörð, styttir mér stundir þessa dagana. Stórkostlegar myndir af dýrum og umhverfi þeirra, blíðu sem óblíðu. Lífsbaráttan er mikil og stundum svo grimm og hatrömm, að það er erfitt á að horfa. Merkilegast er að fylgjast með uppeldi hinna nýfæddu. Þá skortir ekki umhyggju og fórnarlund foreldranna.

6.12. MÁNUDAGUR

Loksins, loksins kl.11:29 sást sólin gægjast upp fyrir Heiðina há. Heiðríkt og -5° frost. Ennþá kaldara á Kaldbak samkvæmt veðurfréttum, þar er frostið -11°.

Í dag eru liðnar 5 vikur frá aðgerðinni á mjaðmarskarninu mínu. Batinn silast áfram, og eftir rúma viku skoðar Gunnar læknir hvernig til hefur tekist.

7.12. ÞRIÐJUDAGUR

Skýin huldu himininn og sólin fékk frí í dag. Frostið náði a.m.k. -7°. Meira er frostið inn til landsins. Pétur og Marcela fóru á Kaldbak. Þar var allt að -11° frost og nokkur vindur.

Búin að finna bók handa mér, eða öllu heldur Jónas fann bókina. Ég er í slíku baksi að finna bókarkorn í hillunum, að ætla mætti að ég sé kolrangeygð. En sem sagt nú ætla ég að lesa Our Man in Havana eftir Graham Greene. Las hana endur fyrir löngu og nú dúkkaði hún upp í kolli mínum, þegar ég var að kynna mér Wikileaks-skjölin sem bárust héðan frá bandaríska sendiráðinu. Fátt er þar merkilegt, margt án efa satt, sumt hlægilegt og sjálfsagt óþægilegt þeim sem koma við sögu. Oft er greinilega um að ræða getgátur. Skýrsluhöfundum er vafalaust ætlað að senda öðru hverju eitthvað bitastætt til Washington, og þeir reyna að gera sitt besta úr litlu. Og þá datt mér bókin í hug. Bókin um manninn sem var settur í einhverjar njósnir, iðnaðarnjósnir ef ég man rétt. Hann lenti í mestu vandræðum með verkefnið og tók það til bragðs að ljúga upp útliti og gagnsemi hlutar sem ég man ekki hvaða hlutverki átti að þjóna. Kemst að því þegar ég les bókin aftur.