SEPTEMBERDAGAR 2010
24.9. FÖSTUDAGUR
Þokkalega hlýtt, en þungbúið og svolítil rigning öðru hverju.
Fórum á Kaldbak síðdegis. Greinilega ekki búið að sækja sauðféð sem tókst að flýja smalafólkið fyrir viku. Sáum a.m.k. 7 kindur spranga um brekkur og tún hinar ánægðustu.
25.9. LAUGARDAGUR
Blautur dagur, en hlýtt í veðri þrátt fyrir talsverðan vind. Mestur hiti 10°.
26.9.SUNNUDAGUR
Allhvasst að morgni, en 12° hiti. Hestarnir komu að girðingunni í morgunheimsókn og fengu að sjálfsögðu góðar móttökur og heil ósköp af molum, sem þeim þykja mikið góðgæti. Upp úr hádeginu æstist vindurinn skyndilega og í kjölfarið fylgdi dynjandi rigning. Um kvöldið voru sagðar fréttir af hvassviðri og mikilli úrkomu á Suðurlandi. Verst var undir Eyjafjöllum, þar sem ár bólgnuðu og flæddu yfir bakka sína. Fjöldi fólks var veðurteppt í Þórsmörk.
27.9. MÁNUDAGUR
Fallegt veður að morgni. 12° hiti, dól og hóflegur vindur. Hestarnir komu í morgunheimsóknina, fengu mola og voru síðan reknir í gerðið og á ranann þar sem þeir gátu úðað í sig öndvegis grasi.
Birkir á Hæli var væntanlegur síðdegis til að draga undan hestunum okkar og snyrta hófana. Hann tafðist nokkuð og var svona rétt að byrja þegar yfir okkur helltist hvassviðri og hellirigning. Sem betur fór vorum við búin að koma ormalyfi í hestana, og eru þeir nú vel búnir undir veturinn. Þeir virðast ágætlega á sig komnir, en enn vottar fyrir hor í nösum. Þessi fjárans pest heldur áfram að angra stóðið. Gaukur minn er einna verstur um þessar mundir.
28.9. ÞRIÐJUDAGUR
Þokkalega hlýtt, en rigning öðru hverju.
Indriði Þorláksson, skólabróðir í M.A., er sjötugur í dag og bauð til veislu. Segist lítið fyrir afmælisveislur, en lofar að halda upp á afmælið sitt á 70 ára fresti. Þetta var bráðskemmtileg veisla. Indriði sló tóninn, sagði frá ýmsu úr lífi sínu og reytti af sér brandarana. Hann lærði m.a. í Berlín og var svo lánsamur að sjá og heyra John F. Kennedy mæla fram þá heimsfrægu setningu “Ich bin ein Berliner”. Sagan segir að Georg Bush hafi nokkrum árum síðar ætlað að sýna að hann væri ekki minni maður en Kennedy, en varð fótaskortur á tungunni og sagði: “Ich bin ein Hamburger”. Margt fleira skemmtilegt fékk að fjúka úr pontunni og margir vildu heiðra afmælisbarnið. Og ekki var leiðinlegt að hitta árganginn góða að norðan. Hann mætti vel.
Það var sannast sagna ljómandi gott að fá svona góða skemmtun á þessum degi einmitt þegar alþingismenn voru nýbúnir að greiða atkvæði um ákærur á hendur fjögurra fyrrverandi ráðherra. Sú atkvæðagreiðsla varð Alþingi til skammar.
29.9. MIÐVIKUDAGUR
Læti í veðrinu lungan úr deginum. Grenjandi hvasst og hellirigning. Ekki þó kalt, hitinn fór yfir 10°. Milt og stillt að kvöldinu.
30.9. FIMMTUDAGUR
Rólegra veður en í gær. Skikkanlegur vindur og meinlausar skúraleiðingar. Hitastigið var um 10°.
Þessa dagana sit ég lon og don yfir umsóknum um styrki úr Þjóðhátíðarsjóðnum og gengur hægt, enda skipta umsóknir mörgum tugum. Þar er margt um merkileg og gagnleg verkefni, sem ástæða væri til að styrkja. En blessaður sjóðurinn býr nú ekki að neinum auðæfum og hætt við að margir umsækjendur verði fyrir vonbrigðum þegar aurunum verður deilt á mannskapinn.