Svartþrösturinn sér um sig

MARSDAGAR 2011

8.3. ÞRIÐJUDAGUR

Í nótt hlóðst niður snjór og bættist við hann fram eftir degi. Mikill snjór var í útiklefanum og ekki þægilegt að ganga um laugarbakkana. Frostið fer vaxandi.

Við höfðum vonast til að komast upp á Kaldbak að sækja hesta nú í vikunni. Veðurspáin lofaði góðu, en spáin hefur breyst. Snjókoman er ekki minni upp frá og þar er nú ekki verið að ryðja og þétta vegi fyrir höfuðborgarskrílinn. Það er því ekki annað til ráða en að bíða betri tíma.

9.3. MIÐVIKUDAGUR

Veröldin var falleg í dag, björt og hrein, en ansi köld. Frostið mældist mest -10° um miðjan daginn.

Fór í göngutúr á Kotagranda, klædd hlýjum galla og loðhúfu. Ekki veitti af þar sem vindurinn var meiri en ég átti von á. Var eldrauð og köld í framan þegar heim kom.

Breki og Sindri brugðu sér í Plútóbrekku með sleða sína. Þeir skemmtu sér vel, en tolldu ekki lengi vegna kuldans. Þó voru þeir klæddir góðum flíkum af ömmu sinni. Þeim finnst það alltaf jafn snjallt.

10.3. FIMMTUDAGUR

Talsverður vindur og -9° í morgun. Napurt var að koma út og ekki batnaði þegar leið á daginn. Himinninn var heiður og fagur fram eftir morgni, en nær kvöldi blés vindurinn svo hraustlega að snjórinn þyrlaðist upp í strókum.

Sturturnar í útiklefanum voru frosnar og ég varð að fara í inniklefa, sem er náttúrlega bara áfall. Hafði ekki komið í slíkt og þvílíkt síðan árið 2004! Rataði varla þar um.

Varð harla kát þegar ég sá svartþröst kominn að gæða sér á epli úti í beði. Var orðin áhyggjufull yfir kostgangaranum mínum, sá hann ekkert í gær. En svartþrösturinn var greinilega feginn að finna epli og vonandi kemur fastagesturinn fljótlega líka.

11.3. FÖSTUDAGUR

Talsvert dró úr frostinu í dag. Í morgun voru -8°, en -5° að kvöldi. Sólin lét lítið sjá sig og vindur blés nokkuð.

Allison Panther frá Bandaríkjunum er komin til Íslands til að afla upplýsinga um Kvennalistann, sem átti fulltrúa á þingi frá 1983 – 1999. Guðrún Agnars bauð henni og nokkrum kvennalistakonum í kvöldmat í Lækjarási 16. Ég sótti Allison, sem vill raunar vera kölluð Allie, og flutti fram og til baka. Guðrún bauð upp á dýrindis súpu og súkkulaðiköku með ávöxtum. Einkar ljúft og gott eins og hennar er vandi. Þarna voru 10 hressar kvennalistakonur og þeim var sumum svo mikið niðri fyrir að þær töluðu oftar en ekki margar í einu. Það hefði verið í góðu lagi ef aumingja Allie hefði skilið eitt orð í íslenskunni sem gjarna tók völdin. Hún virtist þó hafa gaman af fjörinu

12.3. LAUGARDAGUR

Frábært veður. Nánast logn, og frostið minnkaði þegar leið á daginn. Glampandi sólskin frá morgni til kvölds.

Fékk mér góðan göngutúr og heilsaði upp á selinn á skerinu. Hann leit nú ekki við mér blessaður, en það er gaman að horfa á hann.

13.3. SUNNUDAGUR

Ágætis veður og hartnær logn fram eftir degi. Sá þó lítið til sólar þennan daginn. Síðla dags herti vind. Um kvöldið var orðið verulega hvasst og talsverð úrkoma.

Í dag var haldið upp á 9 ára afmæli Kristínar, sem var raunar 7.3. Að hennar beiðni var boðið upp á dýrindis bollukaffi í Skildinganesinu. Vatnsdeigsbollurnar slógu gjörsamlega í gegn. Algjört gómsæti. Við gáfum Kristínu m.a. Laxdæla sögu, hún er svo dugleg að lesa og verður gaman að vita hvernig henni líkar þessi forna Íslendingasaga.

Svartþrösturinn var einn um eplið í beðinu. Hef ekki séð aðra fugla þar síðustu daga. Kannski þeir séu hræddir við svartþröstinn, eða kannski líst þeim ekki á allan snjóinn í garðinum. Kári gamli mætti alveg rýma til fyrir vorinu svona hvað úr hverju.

14.3. MÁNUDAGUR

Endemis leiðindaveður, rok og rigning mestallan daginn. Eins gott að ekki var frost. Hitinn mældist mest 6° í höfuðborginni.

Í nótt gekk á ýmsu. Fólk hafði t.d. lagt á Holtavörðuheiði þrátt fyrir veður og varnaðarorð, og björgunarsveitir höfðu nóg að gera. Bílar urðu eftir á heiðinni, fólk var ferjað niður í sveitir, og um morguninn var hafist handa við að bjarga bílunum. Víðar urðu erfiðleikar vegna veðurofsa og ófærðar, og nokkur óhöpp urðu hér og þar, en engin stórslys.

Hera er 22 ára í dag og hamingjuóskum rignir inn á fésbókina. Greinilegt að hún á mikinn fjölda vina. Í afmælisveislu Kristínar í gær notuðum við tækifærið og sungum afmælissönginn líka fyrir Heru. Hennar er mikið saknað.

Góði elskhuginn eftir Steinunni Sigurðardóttur var meðal bókanna sem ég keypti mér á bókamarkaðinum um daginn. Mér leist ekki of vel á þessa bók í byrjun, lét hana m.a.s. fara svolítið í taugarnar á mér. Það gjörbreyttist þegar á leið. Ég skildi við þessa ágætu bók í góðri sátt í gærkvöldi.

15.3. ÞRIÐJUDAGUR

Er nú aftur frost á Fróni og harla ónotalegt utan húss. Hvasst og öðru hverju snjófjúk. Sólin gerði nokkrar tilraunir til að senda okkur birtu og yl, en varð óðar að hörfa. Upp úr hádeginu brast á stórhríð sem dundi yfir með köflum.

Þurfti að þurka snjó af bekknum í útiklefanum í morgun og allt orðið aftur snævi drifið þegar ég kom úr sundinu. Mætti vera notalegra. En morgunsundið er alltaf jafn nauðsynlegt hvernig sem viðrar.

Við Guðrún Agnars og Allie brugðum okkur á Háskólatorgið og spjölluðum þar saman um liðna tíð. Mér fannst gaman að koma á torgið sem ég hef ekki fyrr séð. Allie er þegar búin að leita upplýsinga um Kvennalistann hjá allmörgum konum og á enn eftir að hitta nokkrar. Hún lofaði að senda okkur ritsmíðina að henni lokinni.