APRÍLDAGAR 2011
10.4. SUNNUDAGUR
Grenjandi rigning og vindstrekkingur í allan dag. Rigningin bylur á rúðum og vindurinn skekur fánastengur, ljósastaura og tré. Flugvélar hafa ekki komist að Flughöfninni og farþegar hafa orðið að bíða í vélunum á vellinum tímunum saman. Mikið hefur gengið á vítt um vegi og hlutir fjúka, sérstaklega á Suðurnesjum. Manni dettur nú bara í hug: Hverju reiddust goðin? Ætli þau viti annars nokkuð um Icesave!
Auður fermdist borgaralega í dag ásamt 89 öðrum táningum og jafn mörg fermdust stuttu síðar. Athöfnin fór fram í Háskólabíói og var bráðskemmtileg að vanda. Fermingarbörnin léku á hljóðfæri, lásu ljóð, dönsuðu, fluttu sögur, ávörp, uppistand og Páll Óskar Hjálmtýsson flutti ávarp við mikinn fögnuð. Auður lék á píanó The Pink Panther Theme og stóð sig afar vel, virtist hvergi bangin að sitja ein á sviði og spila fyrir troðfullu Háskólabíó. Svo var að sjálfsögðu glæsileg veisla í Skildinganesi 37. Margt fólk, frábærar veitingar. Gaman að hitta allt fólkið þótt ekki gæti það allt stillt sig um að rausa svolítið um Icesave kosningarnar.
11.4. MÁNUDAGUR
Ögn skikkanlegra veður í dag en í gær, en á ýmsu gekk. Verst þykir mér að horfa á aumingja vetrargosana, sem fóru illa út úr óveðrinu í gær. Margir hafa þó yfir alvarlegra tjóni að kvarta, en sem betur fór slösuðust engir.
Það var gaman að eiga þátt í sköpun VG fyrir 12 árum. Það sem hreif mig mest voru áherslur á náttúruvernd og umhverfismál, útrýmingu kynjamisréttis og aukinn jöfnuð í samfélaginu. Árum saman var frábær andi í þessum ágæta flokki, félagar unnu vel saman, þótt ekki væri nein feimni við að gagnrýna og berjast fyrir eigin sjónarmiðum. Nú virðist öldin önnur. Það er erfitt að standa nú álengdar og reyna að skilja þann skolla sem ruglar þetta eitt sinn skemmtilega samfélag, enda aðstæður ótrúlega erfiðar. Margt hefur þar vissulega verið vel gert, yfir sumu hefur maður grett sig og fyrirgefið dræmt, en í þetta sinn er ég reið. Guðfríður Lilja var að koma aftur til starfa eftir hálfs árs fæðingarorlof og bjóst við að taka að nýju við sem formaður þingflokks, en meirihlutinn vildi að Árni Þór, sem hafði leyst hana af, héldi embættinu. Árni Þór er vinnusamur og klár, en það er Guðfríður Lilja einnig og hún vildi halda sínu starfi áfram. Framganga félaga hennar í þingflokki VG er fullkomlega ómakleg og niðurlægjandi. Sem sagt ég er reið.
12.4. ÞRIÐJUDAGUR
Eins og fyrri daginn er stundum rigning, stundum snjóél, stundum sólarglenna. Mestur hiti í dag 7°.
Ennþá er ég kvefuð, hóstandi og snýtandi, en nú þoldi ég ekki lengur við og heimtaði að fara með í hesthúsið. Það var ljúft gaman. Ætlaði eiginlega bara að kemba hestunum, sérstaklega Gauki sem er eins og bjarndýr nýkomið úr vetrarhíði. En svo stóðst ég ekki mátið og við fórum í reiðtúr. Mikið skelfing leið mér vel. Vonandi versnar ekki kvefið.
13.4. MIÐVIKUDAGUR
Svipað veður og í gær nema rigningin var heldur ágengari og varla hægt að nefna sólina sem gerði heiðarlega tilraun til að láta sjá sig. Létum ekki rigninguna hindra okkur í léttum reiðtúr og gekk vel.
Árni Þór sá að sér og afþakkaði formennsku í þingflokki VG. Guðfríður Lilja afþakkaði skiljanlega boð um að taka við embættinu og það hafnaði að lokum hjá Þuríði. Ég er orðin alveg gáttuð á þessum þingflokki. Þetta er orðinn hálfgerður hænsnakofi. Ásmundur Daðason kom félögum sínum algjörlega á óvart í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina, sem sjálfstæðismenn lögðu fram. Ásmundur kastaði bara hnakka og sagðist ekki geta stutt ríkisstjórnina. Kannski man hann bara ekki alltaf hvaða flokki hann tilheyrir – eða tilheyrði.
14.4. FIMMTUDAGUR
Rigning, hríð eða nánast slydda, talsvertur vindur, frekar kalt, enda 1-2° hiti mestur þennan daginn. Og nú er ekki um annað að gera en að brynja sig þolinmæði, því samkvæmt veðurfræðingum eru umhleypingar líklegar áfram.
Við höldum okkar striki og skellum okkur í stutta reiðtúra á milli rigningademba og haglélja. Blessaðir klárarnir þurfa viðrun og hreyfingu, þeir láta sér stuttar ferðir nægja, þangað til veðrið batnar.
15.4. FÖSTUDAGUR
Vindurinn var hóflegri í dag. Hitinn var vel yfir frostmarki. Svo var þetta venjulega: stundum rigning, stundum hríð, en oft var líka úrkomulaust.
Ég var farin að halda að ég væri veik, orðin þreytt á hnerrum og hóstum og snýtum og blóðnösum og nefið orðið aumt og rautt. Fór til Árna heimilislæknis míns í dag, eins og ég geri gjarna þegar ég er farin að halda að eitthvað sé að mér, og hann læknaði mig eins og venjulega. Hann segir að mér sé greinilega að batna. Og ég trúi því. Mjög einfalt.
16.4. LAUGARDAGUR
Veður var bara nokkuð gott í dag, skikkanlegur vindur, lítil úrkoma og sólskin með köflum. Mestur hiti 5°.
Lóan hljómar angurvært. Minnir kannski eins og mig að oft sé svo gott veður í apríl. Ég fletti upp í dagbók minni fyrir ári og sé þá að ekki hafa hlýindin verið meiri þá en nú.