MARSDAGAR 2011
23.3. MIÐVIKUDAGUR
Gott veður í dag, milt og notalegt. Hiti mældist yfir frostmarki, en sólin fékk ekki að skína.
Fuglarnir fögnuðu veðrinu og sungu frá morgni til kvölds. Fyrsti svangi fuglinn var mættur í garðinum áður en ég lagði af stað í morgunsundið. Setti út epli sem var uppétið þegar ég kom heim. Seinni hluta dagsins þyrptust að fuglar og hreinsuðu upp bæði eplin og brauðið sem á borðstólum var. Þeir tístu mikið og hoppuðu fram og aftur.
24.3. FIMMTUDAGUR
Alskýjað og rigning með köflum. Hlýnaði smám saman uns mælirinn sýndi 7° að kvöldi.
Fylgdist með mínum skemmtilegu gestum, sem eru alltaf jafn fegnir að finna eitthvað ætilegt í garðinum. Leist þó ekki á þegar ég sá einn þröstinn hoppa afkáralega og sá loks að blessaður fuglinn var slasaður á fæti sem stóð út í loftið. Hann flaug þó eins og ekkert væri.
Jón Hallur Stefánsson skrifaði glæpasöguna Krosstré fyrir allnokkru og mér fannst hún ágæt. Næsta bók hans heitir Vargurinn, ég nældi mér í hana á bókamarkaðinum í Perlunni og var að lesa hana. Varð því miður ekki hrifin. Fannst hún einhvern veginn úti á túni. Náði ekki til mín.
25.3. FÖSTUDAGUR
Milt og gott veður í dag, vantaði bara sólskinið. Mestur hiti 5°. Nú er bara að vona að færðin lagist fyrir ofan Þverspyrnu svo að við komumst með hestakerruna upp á Kaldbak og aftur til baka með hesta í kerrunni!
Snjórinn er smám saman að bráðna og þá kemur margt skemmtilegt í ljós, sérstaklega í beðinu sunnan undir. Þar er vetrargosinn að breiða úr sér með fallegu hvítu blómin sín.
Tjaldur var að spranga um á sjávarbakkanum í dag og tína upp í sig. Mér finnst alltaf tjaldurinn vera vorboði ekki síður en lóan. Hún velur sér aðra staði frekar en Seltjarnarnesið lítið og lágt. Tjaldurinn og vetrargosinn færa okkur vorið.
26.3. LAUGARDAGUR
Ágætis veður í dag, en þokuloft mestallan daginn. Lítill vindur, mestur hiti 4°. Sólin í felum eins og fyrri daginn.
Enn er verið að agnúast út í göngin sem gera á í Vaðlaheiði og ætlunin að hefjast handa að hausti. Þeir sem nöldra hafa að öllum líkindum lítið þurft að nota Víkurskarðið og að minnsta kosti alls ekki að vetri til. Sjálfri líður mér ekki vel á leiðinni yfir skarðið jafnvel að sumri. Á m.a.s. erfitt með að njóta hins fagra útsýnis af skarðinu því mér finnst þessi leið liggja beint í sjóinn. Vegurinn um Víkurskarðið þótti mikil bót, enda Vaðlaheiðarvegurinn gamli ótrúlegt fyrirbæri. Ég var vön að telja beygjurnar til að hafa eitthvað fyrir stafni meðan rútan sniglaðist upp á topp og aftur niður. Man því miður ekki tölurnar, en þær skiptu tugum. Því er ekki að undra að notendur Víkurskarðsins urðu fegnir, að minnsta kosti þar til þeir þurftu að fara um það að vetrinum. Víkurskarðið er vissulega til bóta við skikkanlegar aðstæður, en þetta er erfiður og hættulegur vegur í snjóþyngslum og skelfilegur í hálku. Víkurskarðið verður örugglega notað til jafns við nýju göngin næstu árin, en fegin mun ég fara Vaðlaheiðargöng þegar þannig stendur á.
27.3. SUNNUDAGUR
Veðrið breytist lítið þessa dagana. Fremur milt veður, alskýjað, úrkomulítið, mestur hiti 5°.
Kristján er 47 ára í dag. Heimsóttum fjölskylduna í Birkigrund og fengum þessa líka frábæru köku með kaffinu þar í tilefni dagsins. Þau eru flink á þessum bæ að töfra fram frábærar kökur og fleira góðgæti. Ekki hafa þau lært það frá mér.
Fyrsta bókin eftir breska (bandaríska?)höfundinn Meg Rosoff nefnist Þannig er lífið núna. Er eiginlega orðlaus að lestri loknum. Bókin gagntók mig. Slík bók hverfur ekki strax úr huganum.
28.3. MÁNUDAGUR
Svipað veður og verið hefur. Stillt veður, skýjað, mestur hiti 4°, rigning að kvöldi. Ekki veit ég hvers vegna Veðurstofan birtir mynd af glaðhlakkalegri sól og heldur því blákalt fram að hininninn sé heiðskír allan seinnipart dagsins og fram eftir kvöldi. Einhver hefur ruglast á vaktinni.
Aumingja Dóra braut litlu tána. Lexía: Aldrei brölta til þarfinda sinna berfætt í myrkri. Stóll eða sófi bíður þess að bregða fyrir fæti.
29.3. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætis veður í dag. Milt sem fyrr, hitastig um 5°, lítil úrkoma.
Og loks gafst okkur tækifæri til að bruna austur í Hreppa í trausti þess að vegarspottinn milli Þverspyrnu og Kaldbaks væri orðinn fær til hestaflutninga. Hestarnir voru í miklu stuði, hlupu sem óðir um túnin. Mátti ætla að þeir væru að æfa sig fyrir þátttöku í æsispennandi kapphlaupi. Við sóttum reiðtygi og fleira í skemmuna og komumst að raun um að mýs höfðu búið sér ból í kistu, sem hafði m.a. að geyma hjálma og fleiri nauðsynjar. Æ, æ, flest stórskemmt, tætt og ónýtt. Eins og litlu mýsnar eru sætar!
Hestarnir fengu molana, sem þeir eru svo sólgnir í. Tókst vel að bregða múl á Gauk, Storm og Létti og koma þeim í hestakerruna. Vegurinn niður að Þverspyrnu var hræðilegur að vanda. Kerran dunkaðist áfram yfir holur og grjót, og fegin vorum við að komast á malbikið. Eftir það gekk allt með ágætum. Eru nú allar stíur vel setnar.
30.3. MIÐVIKUDAGUR
Talsverður vindur og rigning með köflum. Hiti 6°.
Gaukur minn er dálítið spaugilegur, ótrúlega loðinn með sítt skegg rétt eins og geithafur. Ég var heilan klukkutíma að skafa hann og bursta og nú er hann líkari sjálfum sér. Nema skeggið. Stormur og Léttir eru mjög lítið farnir að fella hár og því einfaldara að snyrta þá. Aðalmálið er að greiða úr flækjum í faxi og tagli.
31.3. FIMMTUDAGUR
Líflegt veðurfar, öðru hverju hellirigning, en gott á milli. Sólin stekkur inn á sviðið við tækifæri og stundum í miðri dembu. Mestur hiti í dag 7°.
Er komin með harðsperrur í handleggina eftir hestakembingar, en reyndar ekki síður eftir átökin við að skrúbba músétnu hjálmana. Sennilega enda ég með því að henda þeim flestum.
Pétur lenti síðdegis kátur og hress eftir skemmtilega daga í Perú. Marcela kemur hins vegar ekki fyrr en eftir 4 vikur.