FEBRÚARDAGAR 2011
22.2. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður. Nokkuð skýjað, en sólin lætur ekki að sér hæða og skín öðru hverju. Mestur hiti 5°.
Á enn dálítið af tólgarbitum sem stararnir kunna vel að meta. Þeir koma í þéttum hópi og er gaman að fylgjast með þeim. Krummi hafði svolítinn áhuga á þessum kræsingum, en stararnir gáfu honum enga möguleika.
23.2. MIÐVIKUDAGUR
Grenjandi rigning í morgunsárið. Síðan aðeins lítils háttar rigning með köflum þar til kvöldaði. Sólin skein öðru hverju í dag og hitinn mældist 7°.
Náði loksins sambandi við Dóru, sem hafði verið önnum kafin. Þær Hera voru báðar lurkum lamdar eftir flutningana í nýja bústaðinn í Brüssel, sem ég hélt reyndar að væru löngu afstaðnir. En þetta er alltaf vesen hversu smátt sem flytja þarf. Annars var gott í þeim hljóðið, hafa nóg að gera í vinnunni og finnst gott að búa saman.
24.2. FIMMTUDAGUR
Áfram nokkuð gott veður. Mestur hiti í dag 6°. Alskýjað þennan daginn og öðru hverju frekar hógvær rigning þar til hellt var úr skálum skýja að kvöldi.
Hittum Ingibjörgu og Ævar á Höfninni. Það er notalegur veitingastaður við sjávarströndina, sem hefur mjög góðan mat á boðstólum. Ég valdi skelfisksúpu með humri, kræklingi og hörpuskel og síðan gufusoðinn krækling frá Stykkishólmi. Þyki sjálfsagt nokkuð einhæf í mataræði, en mér þykir einfaldlega fátt betra en sjávarfang af þessu tagi. Algjört gómsæti.
25.2. FÖSTUDAGUR
Heldur kólnar í veðri. Hitastigið var 4° í morgun, en síðan kólnaði jafnt og þétt. Skyndilega kom hríð og skafrenningur seinnipart dagsins. Það stóð að vísu stutt og sólin hélt að nú væri komið að henni. Hún stóð sig vel, en fljótlega kaffærðu skýin hana.
Svönu varð fótaskortur í göngutúr sínum í dag, var of upptekin af fuglum og trjám. Óhappið kostaði margra klukkutíma hangs á slysavarðstofunni, en er sem betur fer ekki brotin. Sé fram á að ekki komi hún með mér í níræðisafmæli Inga Tryggvasonar á sunnudaginn.
26.2. LAUGARDAGUR
Bættist við snjóinn í nótt, ekkert þó til trafala. Hitinn var um 1° og svolítill vindur. Öðru hverju sendu skýin okkur snjóhraglanda.
Lauk nýlega lestri bókar eftir Sofi Oksanen. Hreinsun nefnist sú merkilega bók, sem fjallar um reynslu fólks í Eistlandi undir hæl Sovétríkjanna. Mögnuð bók og margverðlaunuð. Það tekur á að lesa þessa bók. Hún hlífir engum.
27.2. SUNNUDAGUR
Sæmilegt veður. Misjafnlega hressileg rigning með köflum. Sólin fékk aðeins stuttan tíma til að sýna sig. Mestur hiti 6°.
Ingi frændi Tryggvason varð níræður 14. febrúar og bauð til afmælisveislu í gamla hótelinu í Hveragerði í dag. Þar var troðfullt hús og heil ósköp af hnallþórum. Rúmbi þandi nikkuna og Hera Björk söng fyrir Inga, aðallega lög Fikka á Halldórsstöðum. Guðni Ágússon stjórnaði þessum viðburði og notaði að sjálfsögðu tækifærið til að viðra sína eigin persónu og segja misjafnlega góða brandara. Þegar nokkrir gestanna voru búnir að nota hljóðnemann til að mæra afmælisbarnið (-barnið!) stungum við Jónas af. Hefði þó gjarna viljað kveðja Inga og Unni, en ekki auðvelt að komast að þeim í þessum mannfjölda.
28.2. MÁNUDAGUR
Ólíkindalæti í veðrinu. Furðu hlýtt að morgninum, hiti um 6°. Í morgunsundinu dundi yfir haglél svo að beit í andlitið. Nokkrum mínútum síðar sópuðust skýin í burtu og fuglarnir upp hófu glaðlegan söng! Svo kólnaði og rigndi öðru hverju. Seinni hluta dagsins var háflóð og ægir henti gusum upp á bakkana. Þetta var eins og að horfa á hveri gjósa.
Fórum á bókamarkaðinn í Perlunni og komum hlaðin heim. Ég keypti m.a. Fjallaþyt, úrval úr ljóðum Hákonar Aðalsteinssonar, sem lést fyrir tveimur árum. Skemmtilegur karl, þekktur hagyrðingur. Svohljóðandi sjálfslýsing hans er dæmigerð:
Ég er mjúkur, hægur, hlýr,
hefi kosti þráða.
Undirgefni í mér býr
ef ég fæ að ráða.