MARSDAGAR 2011
1.3. ÞRIÐJUDAGUR
Í dag hefur hríðað nánast sleitulaust. Frekar stillileg og falleg hríð. Hitinn var rétt yfir frostmarki, en hækkaði undir kvöldið. Veðurstofan lofar ekki langvinnu logni, spáir vindi og éljum í fyrramálið.
Svana færði mér þær fréttir í dag, að Lögreglan á Húsavík væri búin að hafa upp á innbrotsþjófunum, sem fóru um Reykjadalinn í nóvember síðastliðinn og brutust inn á nokkrum stöðum. Verst fóru þeir að ráði sínu á Narfastöðum, í búðinni og Dalakofanum, skemmdu og stálu ýmsu á þeim stöðum. Lítinn skurk gerðu piltarnir í Varmahlíð, en engum finnst notalegt að frétta af óboðnum gestum í sínu góða húsi. Málið telst nú upplýst, og verður það meðhöndlað sem sakamál.
2.3. MIÐVIKUDAGUR
Sæmilegt veður, skikkanlegur vindur, hófleg úrkoma, mestur hiti 3°. Þrösturinn minn (ég leyfi mér að halda að þetta sé alltaf sami þrösturinn) er algjörlega í mötuneyti hjá mér hér úti í garði. Alltaf jafn gaman að fylgjast með honum, en eins gott að fara varlega svo að hann fljúgi ekki upp.
3.3. FIMMTUDAGUR
Ágætis veður. Rigning stöku sinnum. Mestur hiti 5°.
Pálmi hringdi í mig kl. hálfellefu og bauð mér að koma með sér á forsýningu í Þjóðleikhúsinu kl. 11. Við stukkum af stað og ekki sé ég eftir því. Þar sáum við leikritið Allir synir mínir eftir Arthur Miller, eitt mesta leikskáld 20. aldarinnar. Mjög gott verk og vel leikið. Frábær sýning.
Nemendur í Hagaskóla efndu til góðgerðadags í dag. Þau buðu upp á alls konar veitingar, happdrætti, völundarhús, spádómshús og draugahús svo að fátt eitt sé nefnt. Draugahúsið þótti ákaflega spennandi. Auður og vinkona hennar gengu um og buðu upp á knús fyrir 20 krónur! Ég fékk ljómandi knús hjá Auði og borgaði vel. Fjöldi fólks kom í Hagaskóla og studdi þetta skemmtilega og góða starf nemendanna. Allur ágóði söfnunarinnar rennur til tveggja málefna, sem nemendur hafa valið að styrkja. Annað er Barna- og unglingageðdeild Landspítalans en hitt er öllu lengra í burtu eða í Suður-Afríku. Þar eru íslensk/suðurafrísk samtök, sem styðja stúlkur og ungar konur sem búa við fátækt og bágar aðstæður þar um slóðir. Frábært og þroskandi framtak nemendanna í Hagaskóla.
Um kvöldið spiluðum við brids við Sólrúnu og Þórð. Nóg að gera allan daginn.
4.2. FÖSTUDAGUR
Bjart og fallegt veður. Mestur hiti 4°.
Guðrún Agnarsdóttir kom í heimsókn færandi hendi með bráðfallega klukku, þar sem fuglar marka tímann og syngja glaðlega þegar nýr klukkutími tekur við. Alltaf jafn væn og góð vinkona hún Guðrún mín. Við sátum saman lengi vel og höfðum margt að spjalla.
5.3. LAUGARDAGUR
Stormur og ausandi rigning daginn langan. Mestur hiti 7° síðla dagsins. Sá ekkert til fuglanna í þessari endalausu rigningu.
Utangarðsbörnin heitir glæpasaga sem ég var að ljúka við. Fyrsta skáldsaga sænskrar konu að nafni Kristina Ohlsson. Spennandi og vel skrifuð bók, en satt að segja býsna óhugnanleg.
6.3. SUNNUDAGUR
Stormur og éljagangur. Hitinn enn yfir frostmarki, mestur hiti 3° í dag, en búist við kólnandi veðri næstu daga.
Það var fátt í morgunsundinu, enda ekki aðlaðandi veður. Í lauginni gekk vatnið í bylgjum og vindurinn sá m.a.s. til þess að haglið næði inn í útiklefann. Þetta var samt ágætt og heilsusamlegt.
Skugga-Baldur eftir Sjón las ég fyrir alllöngu, en fann ekki bókina þegar ég ætlaði að rifja hana upp. Svo fann ég hana á bókamarkaðinum um daginn. Ömurleg og andstyggileg, en hrífandi og vel gerð, hvernig sem það þykir eiga saman.
7.3. MÁNUDAGUR
Þennan daginn berjast vindurinn og snjókoman við birtuna og góðviðrið. Þau fyrrnefndu hafa það betur, satt að segja miklu betur. Það ýmist dimmir eða birtir út um gluggann minn. Dimmir reyndar oftast og iðulega hefur ekki sést út úr augum. Vindurinn þeytti hríðarhraglandanum inn í útiklefana í morgun. Lá við að það borgaði sig ekki að þurrka sér eftir sundið því fötin voru þakin snjó. Hitastigið er komið niður fyrir frostmarkið og fram undan er mikið frost.
Nafna mín Pálmadóttir er 9 ára í dag, sú ljúfa stúlka. Afmælisveislan verður að bíða því systur hennar, Auður og Áslaug, eru báðar lasnar. Þegar ég hringdi í Kristínu sat hún hin ánægðasta og horfði á Schreck og hlakkaði til kvöldsins að borða eitthvað gott.