Eplastríð í garðinum

FEBRÚARDAGAR 2011

15.2. ÞRIÐJUDAGUR

Fallegt veður í dag, sólríkt og bjart, en nokkuð hvasst og kalt.

Fékk tiltektarkast og var töluvert ánægð með að hafa loksins mannað mig upp í örlítinn myndarskap. Ekki þó hollt að gera mikið af slíku í einu!

Sá allt í einu að páskalaukarnir eru komnir vel upp úr moldinni hér sunnan undir. Þeim hefur greinilega vegnað vel undir snjónum.

16.2. MIÐVIKUDAGUR

Fínt veður, lítill vindur, sólskin með köflum, mestur hiti 2°.

Hengdi eplabita á runna og horfði á þröstinn vin minn gæða sér á bitunum mér til mikillar ánægju. Hann er þar oftast einn á ferð.

17. 2. FIMMTUdAGUR

Skínandi fallegt veður. Frekar stillt, mestur hiti 5° um miðjan daginn.

Brunuðum upp á Kaldbak í þessu listafína veðri. Gott færi alveg þangað til komið var fram hjá Hruna. Eftir það varð æ meiri hálka og verst þegar við vorum komin að Kaldbak. Þar dansaði jeppinn á gleri. Komumst að bragganum, en lögðum ekki í brekkuna upp að húsi. Ég ætlaði að þramma við kantinn upp eftir, en það var m.a.s. flughált á snjónum meðfram veginum. Reyndum að heimsækja hestana á túnunum upp af aðaltúnunum, en komumst ekki yfir skurðina, nenntum ekki að kafffærast undir snjófarginu. Horfðumst í augu við vini okkar handan skurða. Þeir voru afar vonsviknir að fá ekki molana sína.Virtust þó vel haldnir.

Marcela á afmæli í dag. Hún heitir reyndar hvorki meira né minna en Miriam Pacheco Velasques, en Marsela er hún kölluð.

Máninn hátt á himni skín, segir Jón Ólafsson í kvæðinu góða. Það á vel við einmitt núna.

18.2. FÖSTUDAGUR

Fallegt veður, en talsverður vindur. Hiti mældist mest 3°.

Gekk um Suðurnesið og var fegin hvað ég klæddi mig vel. Gaf fuglunum á Bakkatjörn. Þar var mikið fjör. Taldi 20 svani, en gæsirnar voru óteljandi.

Fóðra þröstinn vin minn með hálfu epli á dag. Þori ekki að hafa það meira meðan hann situr einn að krásinni, gæti annars fengið magapínu. En það er mjög gaman að fylgjast með honum.

19.2. LAUGARDAGUR

Hiti mældist mest 7° í dag. Sólin hefði mátt skína lengur, en því var ekki að heilsa. Með kvöldinu var orðið alskýjað og talsvert hvasst.

Fyndið að fylgjast með eplastríðinu í garðinum. Þrösturinn, sem setið hefur einn að krásunum síðustu viku, var allt í einu umkringdur 5-6 boðflennum sem vildu taka þátt í máltíðinni. Var nú mikið fjör, tíst og þeysingur fram og aftur milli runna. Þrösturinn eini telur sig greinilega ráða ríkjum og rak alla í burtu um leið og þeir nálguðust eplabitana um of. Hann varði þetta eplaborð af þvílíkum dugnaði, að hann hafði ekki nokkurt næði sjálfur til matar. Boðflennurnar hörfuðu að lokum. Eftir sat þrösturinn eini og nartaði í epli. Alllöngu síðar var minnsti og horaðasti þrösturinn kominn og naut þess að sitja einn að því sem eftir var af eplaveislunni. Honum veitti ekki af.

20.2. SUNNUDAGUR

Frábært veður, stillt og fallegt. Glaðasólskin. Smáfuglarnir sungu af hjartans lyst í góða veðrinu.

Stórfjölskyldan kom í hádegisverð. Vantaði þó þrjú, þ.e. Sindra, sem var slæmur í maga, Auði, sem var hjá vinkonu sinni uppi í Borgarfirði, og Pálma, sem var í vinnunni á RÚV. Buðum m.a. upp á verðlaunaköku ársins til heiðurs Marcelu, sem átti afmæli á fimmtudaginn.

Fór í góðan göngutúr, sem varð þó aðeins skemmri en ég ætlaði. Var búin að fara um Suðurnesið, en þegar ég ætlaði að fara út í Gróttu þá voru slík ósköp af bílum og fólki að ég lét vera að sinni.

Heldur dró úr ánægju dagsins þegar Ólafur Grímsson fékk orðið í sjónvarpinu og upplýsti að hann ætlaði að vísa IceSave samningnum til þjóðarinnar. Ég er hlynnt þjóðaratkvæði þegar við á. Hef sjálf unnið að söfnun undirskrifta m.a. í þágu náttúruverndar þar sem ríflega 45 þúsund manns undirritaði áskorun um aðgerðir gegn spjöllum á náttúrinni í tengslum við virkjunaráform. Ekki dugði það til að vekja ráðamenn í það skiptið. En það er eitthvað bogið við það sem nú hefur gerst, bæði við undirskriftirnar og einnig viðbrögð forsetans. Maður hefur svona á tilfinningunni að sviðsljósið skipti forsetann mestu. Kunningjakona mín ein kallar það “áberusýki”. En hvað um það, nú fær þjóðin að kjósa og vonandi verður heiðarleiki og skynsemi í fyrirrúmi.

21.2. MÁNUDAGUR

Hlýtt, lítill vindur, alskýjað. Mestur hiti 5°. Veðurstofan hélt því fram allan liðlangan daginn að hér um slóðir yrði stöðug rigning, jafnvel mikil rigning. Þessi merka rigning sást ekki hér á Seltjarnarnesinu fyrr en um kvöldið.

“Mörg eru ljónsins eyru” heitir bók Þórunnar Erlu-Valdimarsdóttur. Efniviðinn er hún sögð hafa sótt sér til Laxdælu. Ekki hreyfst ég af þeirri aðferð hennar og heldur ekki bókinni sjálfri. Var nýbúin að lesa bók Þórunnar “Stúlka með fingur” og fannst hún ólíkt skemmtilegri og betri.