APRÍLDAGAR 2011
1.4. FÖSTUDAGUR
Margbreytilegt veður í dag. Oftast ágætt, stundum sólskin, stundum rigning, mestur hiti 5°.
Birkir á Hæli ætlaði að koma í dag til að járna hestana okkar og allt til reiðu. En þá fengum við þær leiðu fréttir að hann hefði meiðst á hendi þar sem hann var einmitt að járna, og þar með er ljóst að hann járnar ekki alveg á næstunni. En sem betur fór frétti ég af góðum járningamanni, Þorgrími að nafni, og hafði upp á honum. Við mæltum okkur mót í hesthúsinu að morgni sunnudagsins.
Gaman var að fylgjast með lokahrinu Útsvarsins í sjónvarpinu í kvöld, þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu spurningu. Akureyringar höfðu heilmikið forskot þegar kom að síðasta keppnisatriðinu, og áttu sjálfsagt flestir von á sigri Akureyringa. En keppni er ekki búin fyrr en hún er búin, eins og spekingar segja. Raunin varð að lið
Norðurþings vann lið Akureyrar með 75 stigum gegn 73.
2.4. LAUGARDAGUR
Veður líkt og í gær. Var þó betra að því leiti að sólin fékk meira svigrúm til að verma okkur. Svo brá fyrir ósköp fallegri hríð í nokkrar mínútur síðla kvölds. Líklega bara til að minna okkur á að það er bara 2. apríl og við öllu að búast.
Þótt engu sé svo sem að treysta í veðurfarinu þá er sjálfsagt að lifa á bjartsýninni. Vetrargosinn breiðir æ meira úr sér og páskaliljurnar eiga ekki langt í land. Og fuglarnir eru sammála.
3.4. SUNNUDAGUR
Fallegt veður í dag, heiðríkt og lítill vindur. Þrátt fyrir sólskin frá morgni til kvölds fór hitinn ekki upp fyrir 4°.
Loks er búið að járna hestana. Þorgrímur Hallgrímsson mætti í hesthúsinu kl. 10 og gerði það sem gera þurfti. Mig blóðlangaði að skella mér strax á bak, en fannst vissara að hafa Jónas mér við hlið svona í fyrsta skipti eftir mjaðmaraðgerðina. Hann er í önnum, en getur vonandi komið með mér á morgun. Ef vel gengur get ég svo bjargað mér sjálf.
4.4. MÁNUDAGUR
Dálítið napurt í morgun, vindurinn sá um það. Hlýnaði heldur þegar á leið, en skýin földu sólina að mestu. Hiti mældist allt að 5°.
Og nú var farið á bak! Heldur var ég kaufaleg að koma mér í hnakkinn, en svo gekk þetta allt eins og í sögu. Hestarnir voru sem hugur manns rétt eins og við hefðum verið í reiðtúr í gær, en ekki fyrir 6 mánuðum. Voru léttir á fæti og auðfundið að þeir væru til í drjúgan sprett. Svona á lífið að vera.
5.4. ÞRIÐJUDAGUR
Hitinn fór upp í 6° í dag, en það gekk á ýmsu. Veðrið var stundum milt og gott, og sólin skein öðru hverju, en stundum var líka ausandi rigning. Við fórum í góðan reiðtúr í góðu veðri, en nokkrum föðmum frá rigndi rækilega.
Í hádeginu fór ég á skemmtilegan fyrirlestur, sem kallaðist: Frá mæðrahyggju til frjálshyggju. Hugmyndir um opinbera þátttöku kvenna 1900-2010.
Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði flutti fyrirlesturinn, sem fjallaði m.a.um þátttöku kvenna í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum og hvernig þær leituðust við að ná fram jafnrétti á því sviði. Það var þungur róður hjá konunum í byrjun 20. aldar, og þeirri baráttu er ekki lokið. Þorgerður bar saman ýmislegt í kvennabaráttunni fyrir ríflega 100 árum og í okkar samtíma. Furðulegt hvað margt er enn með sama sniði. Salurinn var þéttsetinn og við hristum höfuð og hlógum að þessari fáránlegu togstreitu sem engan endi ætlar að taka.
6.4. MIÐVIKUDAGUR
Svipað veður og í gær. Sluppum vel í reiðtúr og fórum svo með hestana á Dýraspítalann til Katrínar. Hún sprautaði þá, raspaði tennur og hreinsaði skaufa. Allir vel á sig komnir.
Fór á síðasta fund vetrarins með EVG (eldri vinstri græn) um kvöldið. Hef því miður lítið sótt þessa fundi, sem eru yfirleitt góðir. Í þetta sinn var dagskrárefnið um útgáfustarfsemi kvenna og skáldkonurnar Halldóru B. Björnsson og Málfríði Einarsdóttur. Auður Styrkársdóttir, Unnur María Figved, Þóra Elfa Björnsson, Berglind Gunnarsdóttir og Guðný Ýr Jónsdóttir sögðu frá og voru hver annarri skemmtilegri. Karlarnir mættu ekki síður en konurnar, sýndu þar meiri áhuga á efninu en karlarnir á fundinum í gær.
7.4. FIMMTUDAGUR
Enn er baráttan milli sólar og regns. Talsverður vindur, jafnvel rok með köflum, sem fór illa með vetrargosana. Mestur hiti 6° og vonandi meiri hlýindi framundan.
Sindri og Breki flugu til Amsterdam í morgun. Verða hjá mömmu sinni og Heru í 10 daga. Það var mikil tilhlökkun hjá þeim þegar ég hitti þá í gærkvöldi, og ekki var síður tilhlökkun hjá þeim sem biðu þeirra á flugvellinum í Amsterdam.
Varð að sitja heima í dag, því ég er allt í einu orðin ferlega kvefuð, þarf að snýta mér látlaust, hósta og skyrpa. Ekki viðraði til útreiðar, en Jónas fór í hesthúsið, ætlaði að setja hestana í gerðið og hafði með sér verkefni að fást við meðan þeir skemmtu sér utan húss. Stormur og Léttir sneru aldeilis á hann, komust út úr gerðinu og hlupu út um víðan völl. Jónas eltist við þá lengi vel í haugarigningunni og fékk loks aðstoð frá góðu fólki. Annað eins gerist nokkuð oft í Víðidalnum, og þá hjálpast fólk að.
8.4. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður, alskýjað. Mestur hiti 7°. Nánast engin úrkoma fyrr en að kvöldi, þá var hálfgert Nóaflóð.
Svaf drjúgan hluta dagsins, enda er fátt betra en góður svefn þegar heilsan er ekki alveg 100%. Er orðin hálfleið á hnerrum, hóstum og snýtum.
Einnig mjög leið orðin á icesave. Nokkuð góður þáttur í RÚV í gærkvöldi og annar í kvöld þar sem Steingrímur og Sigmundur Davíð skiptust á skoðunum. Mundi þá allt í einu eftir ansi góðu orðatiltæki: Ég geri aldrei skyssu (smá þögn) ég viðurkenni það að minnsta kosti aldrei!
9.4. LAUGARDAGUR
Miklar rigningar og hvassviðri. Þrátt fyrir það fór hitinn upp í 10° hér um slóðir, en allt að 20° t.d. á Vopnafirði. Undarlegt.
Sindri Snær er 13 ára í dag. Afmælisóskum rignir yfir hann á fésbók og þau Breki, Dóra og Hera halda upp á daginn í Brüssel.