Undraglæstur ofurmáni

MARSDAGAR 2011

16.3. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður fram eftir degi. Hægur vindur og hógvær snjókoma. Vindinn herti síðari hluta dagsins og frostið var komið niður í -11° síðla kvölds. Veðurspámenn lofa engu góðu næstu daga.

Stundum verð ég alveg gáttuð á því sem ríkisstjórnin er að brölta. Nýlega upplýsti Steingrímur fjármálaráðherra að á síðustu tveimur árum hefði verið fækkað um 540 stöðugildi hjá ríkinu. Reisupassann í þeim stóra hópi fengu 70 karlar og 470 konur. Ekki fylgdi nein skýring á þessum hróplega kynjamun.

Örstuttu síðar boðaði Jóhanna forsætisráðherra aðgerðir stjórnvalda, sem ætlað væri að skapa að minnsta kosti 2200 ársverk. Þar með ætti atvinnuleysið að minnka og hagvöxtur að eflast, sagði Jóhanna. Og um hvaða atvinnu skyldi nú vera að ræða? Jú, Jóhanna tíndi til kunnuglega atvinnuþætti, svo sem aukna afkastagetu álversins í Straumsvík, framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun, byggingu kísilmálmverksmiðju í Helguvík, hreinkísilverksmiðju í Grindavík, natríumklóratverksmiðju á Grundartanga og svo að sjálfsögðu vegamál. Allt saman verkefni sem fyrst og fremst kalla á karlmenn. Eða er búist við að konurnar, sem misst hafa atvinnu hjá ríkinu, á sjúkrahúsunum, í skólunum, í leikskólunum o.s.frv. o.s.frv., muni þyrpast í atvinnubótavinnuna á vegunum og í verksmiðjunum sem boðið er upp á?

17.3. FIMMTUDAGUR

Hvasst og fremur kalt í dag og snjóbyljir alltaf öðru hverju. Frostið mældist þó ekki mikið yfir -3°. Seinni part dags lygndi og birti upp.

Var að fletta bókinni Konur og kosningar, sem Gísli Jónsson, sá góði kennari, tók saman fyrir ríflega 30 árum. Þar segir hann frá baráttu fyrir auknum réttindum kvenna á fyrri hluta tuttugustu aldar og ekki síst umfjöllun alþingismanna um kosningarétt og kjörgengi kvenna, sem margir áttu erfitt með að sætta sig við. Sú barátta tók allmörg ár. Konur fengu loks rétt til kosninga og kjörgengis árið 1915 og fögnuðu því mjög þrátt fyrir að þurfa að sæta aldursmörkum, en með nýrri stjórnarskrá árið 1920 var lögfest fullt og skilyrðislaust jafnræði kynjanna um kosningarétt og kjörgengi.

Baráttukonur þessa tíma máttu þola margt ranglátt og furðulegt sem þingmennirnir létu frá sér fara í umræðum um þessi mál á Alþingi. Okkur finnst það vissulega furðulegt, en ekki síst hlægilegt. Hér eru nokkur orð Jóns Ólafssonar þingmanns sem dæmi:

“Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla, og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum”.

Og Jón í Múla átti mörg undarleg orð í þessum umræðum:

“Eðlismunur karla og kvenna verður ekki afnuminn með alþingislögum. Sá munur er mikill og merkilegur, og sérhvað það, sem eins og þessi nýmæli, miðar til að gera þann mun minni, eða sljóvga náttúrlegt eðli, er skaðlegt og hefnir sín með aukinni ófarsæld þeirra, sem hlut eiga að máli”. Og sami þingmaður segir: “Ég er svo sannfærður sem maður getur verið, að öll þessi svonefnda kvenréttindahreyfing, sem nú er að ná yfirtökunum, er óheillaspor er hlýtur að leiða til vaxandi lífskvalar, sem þó mun varla vera á bætandi”.

Svona töluðu þeir sumir karlanna árið 1911 – fyrir einni öld. Og ekki er alveg víst að karlar nútímans hafi enn náð fullum skilningi á stöðu kvenna í þessum heimi.

18.3. FÖSTUDAGUR

Enn minnir veturinn á sig óþyrmilega. Frostið svo sem ekki mikið, mest -2° í dag, en vindurinn sér um kuldann, og hríðin kemur í gusum.

Mér þótti sérlega gaman að lesa Svar við bréfi Helgu eftir Bergsvein Birgisson, sem út kom fyrir síðustu jól. Og nú fékk ég í hendurnar fyrstu bók Bergsveins, Landslag er aldrei asnalegt, sem kom út 2003. Það tók mig smátíma að átta mig á hvert höfundur stefndi og hugsaði gjarna með mér að þetta gæti nú ekki jafnast á við bréfið til hennar Helgu. En allt komst þetta til skila, og nú er ég ekki síður ánægð með bókina hans Bergsveins um lífið í Geirmundarfirði.

19.3. LAUGARDAGUR

Vaknaði snemma morguns, það snjóaði inn um gluggann. Éljagangur fram eftir degi og talsverður vindur. Létti til um miðjan dag og sólin fór að skína. Drifhvítur snjór yfir öllu. Mest frost -4° að deginum.

Um kvöldið mældist frostið -6°. Var þá komið logn, og alheill máni speglaði sig í sjónum. Þetta er enginn venjulegur máni, heldur er kallaður ofurmáni! Tunglið er nær jörðu þetta kvöld en það hefur verið síðastliðin nítján ár. Það er nærri þriðjungi bjartara en venjulega og 14% breiðara samkvæmt Vísindavefnum.

Pétur og Marcela flugu til Amsterdam í morgun og þaðan liggur svo leiðin til Perú. Ekki seinna vænna hjá Marcelu að kynna eiginmanninn fyrir sinni fjölskyldu. Pétur hringdi frá Amsterdam yfirmáta sakbitinn, taldi sig hafa gleymt giftingarhringnum sínum í bakkanum hjá öryggisleitinni, þar sem fólki er gert að afhenda hina ótrúlegustu hluti til athugunar. Mér tókst að hafa upp á hringnum góða eftir samtöl við að minnsta kosti fjóra starfsmenn í flughöfninni í Keflavík. Vonandi fær Pétur ekki neinn efasemdarsvip frá tengdaforeldrunum þegar þau sjá engan hring á baugfingrinum! En hringurinn bíður hans þegar hann kemur til baka.

20.3. SUNNUDAGUR – JAFNDÆGUR Á VORI

Ágætt veður lengst af. Allsterkur vindur, -6° í morgun en rétt um frostmark þegar á leið. Jafndægur á vori veitir vissa ánægju, en fegin vildi ég kveðja snjóinn og kuldann sem hafa ráðið ríkjum lengi.

Boðið upp á dögurð sunnudagsins. Pétur og Marcela fjarri, Dóra og Hera í Brüssel, Pálmi í útvarpinu og Katrín þurfti að bjarga börnum úr móðurkviði lítillar tíkur. Við hin áttum engu að síður góðar stundir. Bókfinkan, sem brestur í söng þegar klukkan er 13, gladdi mannskapinn, ekki síst yngsta fólkið. Þá gerði svartþröstur, reyndar kvenkyns, okkur þann greiða að kroppa úr eplinu sínu úti í garðinum af mikilli áfergju án þess að hafa áhyggjur af áhorfendum.

21.3. MÁNUDAGUR

Ágætt veður fram eftir degi. Hiti mældist mest 2° og sólin skein dágóða stund um miðjan daginn. Nær kvöldi snjóaði.

Mikið fjör í garðinum. Þangað streymdu bæði venjulegir þrestir, svartþrestir og starar og kepptust við að gogga í eplin. Mjög gaman að fylgjast með þeim.

Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason kölluðu til sín fréttamenn um hádegisbilið og upplýstu að þau hefðu fyrir stundu sagt sig úr þingflokki Vinstri grænna. Þau hafa ekki verið sátt við starfið í þingflokknum og ríkisstjórninni og hafa ekki legið á óánægju sinni. Hins vegar er ekki augljóst hvers vegna þau velja þennan tíma til brottgöngu, þau skýrðu það ekki sérstaklega á fundinum.

Ýmislegt var látið fjúka á blogginu í tilefni af þessum atburði. Jóhanni Haukssyni varð hugsað til Soffíu frænku þegar hann velti fyrir sér dugnaði Lilju og kætti marga þegar hann minnti á sönginn hennar Soffíu:

Já, fussum svei, já fussum svei, ég fyllist gremju og sorg,

það kveður lítt að körlum hér í Kardimommuborg,

en væru allir eins og ég þá yrði betra hér,

það virðist ekki lýðnum ljúft að læra neitt af mér.

Iss.

22.3. ÞRIÐJUDAGUR

Fjör í veðrinu. Vaknaði við hríð og læti í morgun. Sólin kom upp kl. 8 eins og ekkert væri og skein hin glaðasta yfir sundfólkið. Ekki leið á löngu áður en stórhríð barði að dyrum og huldi næstu hús. Og í miðju áhlaupinu braust sólin gegnum ský. Þessir veðurguðir geta aldrei ákveðið sig. Og ég moka og moka snjó í þeirri von að enginn fari á hausinn í tröppunum.

Þórður og Sólrún komu til okkar í bridds, en þá hittist svo á að Sindri og Breki komu til okkar líka. Urðum reyndar svolítið sein fyrir þegar ég sótti strákana, því það tók langan tíma að finna Breka, sem var að leika sér út um borg og bí með Andra vini sínum. En allt gekk vel, við spiluðum og strákarnir sinntu sinni heimavinnu. Komu svo og voru með okkur í matnum. Þeir höfðu ýmislegt að segja gestum okkar og var gaman að hafa þá með okkur. Þeir voru svo ekki alveg búnir að fá útrás, þeir klæddu sig í ömmugallana og veltu sér upp úr snjónum af mikilli kátínu.