Páskaliljurnar sprungnar út

APRÍLDAGAR 2011

17.4. SUNNUDAGUR

Haglél, slydda, rigning, mestur hiti 3°.

Mikið um að vera í hesthúsinu í dag. Þurftum að setja alla hestana út í gerði svo að hægt væri að moka út úr stíunum. Vorum 4 saman að stússa og aðstoða mokstursmanninn, sem gekk vasklega fram á bobbkattinum. Er nú fínt hjá hrossunum, minni skítur og betra andrúmsloft. Um kvöldið var svo vanaleg tiltekt þeirra sem eru að enda vikuverkin, heygjafir o.s.frv., og svo er skyldan að þrífa vel í hlöðu og kaffistofu og sópa stéttir. Við létum ekki okkar eftir liggja.

Sindri og Breki komu heim í dag eftir góða daga hjá mömmu sinni. Ómar og Hilma undirbjuggu þessa líka fínu veislu á Lundi í tilefni af afmæli Sindra. Strákurinn orðinn táningur! Þeir bræður voru þreyttir, en sannarlega glaðir og ánægðir.

Pálmi, Sigrún, Auður, Kristín og Áslaug óku alla leið í Varmahlíð í dag. Ætla að eiga þar góða daga eftir hentugleikum og var gott í þeim hljóðið. Kristján, Katrín, Kári og Kristinn vinur hans láta hins vegar fara vel um sig á Kaldbak.

18.4. MÁNUDAGUR

Talsverð snjókoma í allan dag með uppstyttu öðru hverju. Mestur hiti var um 5° og aldrei verulega kalt.

Höfuðpaurinn í Hafbergi bauð okkur í hádegisverð. Fengum bragðsterka og góða súpu, steinbít og keilu. Jónas sækir fisk í matinn 4 – 5 sinnum í viku og spjallar við fisksalan í leiðinni. Sá er væntanlega ánægður með þennan ötula kúnna.

Páskaliljurnar að springa út þrátt fyrir umhleypingana, og fleiri jurtir á leiðinni.

19.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætis veður með köflum. Hófsamleg hríð öðru hverju. Mestur hiti 5°. Að kvöldi kom svo dynjandi rigning. Veðurfræðingarnir eru orðnir hálf feimnir við að spá. Fólk kvartar yfir þessu veðurfari. Ég nenni því ekki, enda þokkalega sátt þar sem okkur hefur tekist að stunda útreiðar á hverjum degi.

Dreif mig loksins í sund eftir 12 daga hlé. Eftir þessi ósköp er algjör óþarfi að fá kvefpest fyrr en eftir langan, langan tíma. Og hana nú.

20.4. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað og svolítil rigning fram eftir morgni. Fór þá sólin að gægjast undan skýjunum og stakk þau nánast af.

Fórum Rauðhólahringinn í dag, það er einna skemmtilegasta leiðin með hestana.

Síðasti vetrardagur segir almanakið og sífellt fjölgar farfuglunum.

21.4. FIMMTUDAGUR – Sumardagurinn fyrsti

Stundum hefur nú sumardagurinn fyrsti verið notalegri en daginn þennan. Vesalings skátarnir þrömmuðu til kirkju án yfirhafna og reyndu að bera sig vel. Það rigndi mikið á suðvesturlandinu og hvassviðrið bætti ekki úr skák. Skátastelpurnar áttu í miklum vandræðum með stuttu pilsin sín. Um miðjan daginn var hávaðarok og læti.

Besta veðrið var fyrir austan og norðaustan. Skildingarnir hafa valið rétta staðinn. Þeim líður vel í Varmahlíð og hafa áreiðanlega heyrt betur í fuglum þar en hér. Þar mun mestur hiti hafa verið 10 – 12°.

22.4. FÖSTUDAGURINN langi

Allgott veður í dag. Hitinn fór upp í 8° og vindurinn ekki með nein læti. Okkur tókst nú samt að lenda í talsverðri rigningu í reiðtúr kringum Rauðavatnið. Hefðum betur verið seinna á ferð því þá létti til.

23.4. LAUGARDAGUR

Veðrið byrjaði bærilega. Logi, Djarfur og Prins voru sóttir á Kaldbak og eins gott að því var lokið áður en veðrið brjálaðist. Að kvöldi var orðið mjög hvasst og rigndi mikið og stöðugt. Spáð er enn verra veðri á morgun.