SEPTEMBERDAGAR 2011
25.9. SUNNUDAGUR
Ágætis veður með köflum. Rigning stöku sinnum, hófleg þó. Mestur hiti 11°.
Búin með Frelsarann. Sá var nógu spennandi. Og margt fór öðruvísi en búast mátti við. Stundum er hann Harri Hole nánast ófyrirgefanlegt ólíkindatól.
26.9. MÁNUDAGUR
Aðallega rigning þennan daginn, en frekar stillt og m.a.s. sólarglennur öðru hverju. Mestur hiti 11°.
Í morgun kom galvaskur stýfluþjónustusérfræðingur með allar nauðsynlegar græjur til að taka nú í lurginn á hinum bráðnauðsynlegu skólprörum hússins. Svona er að búa í allgömlu húsi. Þá er sitthvað sem lagfæra þarf.
27.9. ÞRIÐJUDAGUR
Loftið er oft fallegt á morgnana þegar ég syndi á bakinu, horfi á skýin og fylgist með skörfunum, sem fljúga gjarna yfir sundlaugina á leiðinni að huga að fiskum til átu. Þeir fljúga fallega skarfarnir. Held að þetta séu dílaskarfar frekar en toppskarfar.
Töluverð rigning í dag og talsverður vindur. Mestur hiti 10°.
28.9. MIÐVIKUDAGUR
Nú rignir um allt land samkvæmt veðurspá. Ekki er það svo sem látlaus rigning, en það þornar ekki á. Mestur hiti 10°.
29.9. FIMMTUDAGUR
Þokkalegt veður fram eftir degi, mestur hiti 1l°. Versnaði smám saman þegar á leið. Orðið hvasst og mikil rigning um kvöldið.
30.9. FÖSTUDAGUR
Engin blíða í veðrinu, hvasst og mikil rigning. Hitinn mældist þó mest 12° svo að ekki var ástæða til að kvarta undan kulda. Sólin reyndi m.a.s. að blanda sér í fjörið og öðru hverju var ástæða til að dást að regnboga. Alltaf eitthvað til að dást að í heiminum.