NÓVEMBERDAGAR 2011
1.11. ÞRIÐJUDAGUR
Ekki var þetta notalegur dagur, en fallegur var hann út um glugga. Sólin skein eins lengi og hún mátti, en vindurinn blés í miklum móð. Mestur hiti mældist 3°, en um kvöldið var komið frost.
Ég hef lengi ætlað mér að hreinsa til í tölvunni og ákvað að vera afspyrnu dugleg þennan kalda dag úr því ég hafði svona fallegt útsýni þegar ég þurfti að hugsa mig um. Það fór reyndar eins og oft áður. Lendi alltaf í því að rifja upp og lesa megnið af þessum skemmtilegu greinum og alls konar gögnum. Gengur því hægt að fækka í tölvunni.
2.11. MIÐVIKUDAGUR
Enn blæs vindurinn og það rækilega. Hitamælirinn náði 3°.Um kvöldið buldi rigning á þakinu og vindurinn gnauðaði.
Fórum austur á Kaldbak að líta eftir hestunum. Ekki vantaði rokið þar. Hestarnir voru í skjóli við braggana. Þeir fögnuðu molunum góðu, sem ég veiddi upp úr vösunum. Þreifaði á hestunum og fann ekki betur en allt væri í góðu lagi. Helst að Kári gamli væri svolítið hengilmænulegur. Eins gott að fylgjast vel með honum.
Fórum nýja veginn frá Þorlákshöfn til Grindavíkur. Merkilega fáir bílar áttu erindi um veginn, sem búist hafði verið við að yrði í mikilli notkun strax og vegurinn væri nothæfur.
3.11. FIMMTUDAGUR
Nú er það rigningin sem ræður ríkjum. Talsvert hvasst allan daginn, en lægði um kvöldið. Hitinn mældist 9° og var svo kominn upp í 10° um kvöldið!
Var að lesa skelfilegar fréttir um vanrækslu og hroðalega meðferð á íslenskum hestum í Svíþjóð. Hrossin voru í eigu formanns hestamannafélagsins á svæði sem kallast Ashammar. Aðbúnaður var afar slæmur, hrossin látin standa vanfóðruð í þröngum básum, hófarnir ofvaxnir og ekki klipptir né lagaðir mánuðum saman. Get varla horft á myndir, sem sýndu hvernig meðferðin var. Tuttugu hross eru nú í umsýslu lögreglunnar í Svíþjóð og nokkrum varð að lóga. Eigandinn er hinn versti og hótar kæru. Það ótrúlega er að nokkrir félagar halda því fram að vanræksla formannsins hafi verið ýmsum kunnug en ekkert verið gert. Ég er bæði reið og hrygg.
4.11. FÖSTUDAGUR
Vindurinn var óvenju hlýr í dag, mestur hiti reyndist 10°, sem er harla gott á þessum tíma. Rigningin lét ögn af sér vita, en spillti engu.
Ólafur H. Óskarsson var jarðsunginn í Dómkirkunni í dag. Ég ætlaði að heiðra hann með veru minni ásamt Jónasi, en við fundum hvergi pláss fyrir jeppann og niðurstaðan varð að Jónas fór í kirkjuna, en ég ók heim. Keypti bara Moggann og las minningargreinar dagsins. Þannig fór það.
5.11. LAUGARDAGUR
Hráslagalegt var í morgunsundinu, það gerði vindurinn. Það rigndi heilmikið öðru hverju. Mestur hiti 5°.
6.11. SUNNUDAGUR
Þennan daginn skiptust á skin og skúrir sem oftar. Mestur hiti 5°.
Hlustaði á viðtal Egils við Lilju Mósesdóttur. Hún sagði loks skilið við VG á Landsfundinum nýlega og lýsti því jafnframt yfir að hún mundi stofna nýjan flokk og urðu nú ýmsir forvitnir. “Það sem ég vil gera er að endurvekja grunngildi”, sagði Lilja í Silfrinu og nefndi nokkur dæmi, sem ég skildi misjafnlega vel. Hún virðist t.d. telja að Alþýðuflokkurinn hafi skilið gildin um jöfnuð og réttlæti eftir í reiðileysi og ekki aðrir til gagns, þegar hópurinn sá flykktist í Samfylkinguna. Ekki víst að margir séu sammála því.
“Ég vil líka taka hugtak Vinstri grænna um sjálfbærni og leggja áherslu á að endurmóta efnahagslífið á grundvelli sjálfbærni”, sagði Lilja. Ekki allt tóm vitleysa sem betur fer. Gott er að hún og fleiri eru farin að skilja mikilvægi sjálfbærni, sem VG hefur lagt mikla áherslu á og unnið ötullega að umfram flesta aðra.
En nú versnaði í því þegar Lilja sagði: “Ég vil taka upp gildi Sjálfstæðisflokksins um réttlæti þannig að ef einhver verður fyrir áfalli þá aðstoðum við”. Ha? Er Lilja ánægð með réttlæti Sjálfstæðisflokksins?
Og áfram hélt Lilja að lýsa því sem henni finst hvað mikilvægast. Beint úr Silfrinu:
“Og grunngildi Framsóknarflokksins um valddreyfingu, líka hvað varðar eignarhald í atvinnulífinu”. Er konan að grínast? Ég er kjaftstopp.
7.11. MÁNUDAGUR
Rigning og meiri rigning. Hitinn nær 8°, en það dugir ekkert gegn þessum regnbeljanda.
Spiluðum bridds við Þórð og Sólu í kvöld, og nú gekk mér betur en síðast. Aðalmálið er að ég hef mjög gaman af að spila bridds þótt snilldin sé ekki til að gorta af.