OKTÓBERDAGAR 2011
9.10. SUNNUDAGUR
Fjölbreytilegt veður í dag, eins og reyndar marga aðra daga á landi voru. Vindurinn var hvass mestallan daginn og sjórinn þeytti öldunum upp á bakkana. Mestur hiti fór ekki yfir 6°. Um kvöldið datt allt í dúnalogn og fullur máninn horfði með velþóknun til jarðar.
10.10. MÁNUDAGUR
Einkar fallegur haustdagur. Heiðríkt og sólskin frá morgni til kvölds, lítill vindur. Mestur hiti náði 4°.
Brugðum okkur á Kaldbak til að athuga hvernig hestarnir hefðu það. Þeir komu til móts við okkur og tóku kátir á móti molunum góðu. Svolítið voru þeir rytjulegir eftir rok og rigningu síðustu daga. Virtust þó hressir. Pétur og Marcela voru á Kaldbak síðan á föstudag. Þau voru heldur betur ánægð með þetta fallega veður, enda höfðu þau varla getað rekið út nefið fyrir leiðindaveðri.
Kári Kristjáns er 15 ára í dag. Hann var á ferðalagi með foreldrum sínum nýlega og kom sallaánægður heim í fyrradag. Hefur stækkað og fullorðnast mikið síðustu misserin. Alltaf er ég jafn undrandi á þessum sprettum barnabarnanna, þau eldast og stækka eins og þeim liggi einhver ósköpin á.
11.10. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður, sólskin og hóflegur vindur allt til kvölds. Þá fór að þjóta í vindinum.
Fórum í göngutúr um Laugardalinn um miðjan daginn og dáðumst að litbrigðum haustsins. Fuglarnir kunna að meta aðstæður þar, endur og gæsir nutu góða veðursins á tjarnarbökkum, og fjöldi fugla söng í trjánum, skógarþrestir, svartþrestir og aðrir, sem földu sig betur.
Seinnipartinn hófst mikil hreinsun í hesthúsinu okkar í Víðidalnum, þar sem þvottasápa og vatnsgusur þeyttust um bæði hús og menn. Hjá því verður ekki komist, þegar þrífa skal fyrir blessaðar skepnurnar.
12.10. MIÐVIKUDAGUR
Gengur nú mikið á í veðurfari, ýmist rok eða stormur og mikil rigning öðru hverju. Mestur hiti reyndist 8°.
Skruppum í Eymundsson að heilsa upp á Þráin Bertelsson, sem var þar að kynna nýju bókina sína, Fallið. Hann datt í það á fallegu júníkvöldi í Færeyjum, eins og segir á bakhlið bókarinnar. Hlý og nístandi, óendanlega sorgleg og óborganlega fyndin, stendur á bakhliðinni. Hlakka til að lesa bókina.
13.10. FIMMTUDAGUR
Ögn skárra veður í dag. Furðu hlýtt í rigningu og hvössum vindi. Mestur hiti 10°.
14.10. FÖSTUDAGUR
Mikil er vætan í skýjunum, sem þurftu að losa sig við eitthvað af þessum ósköpum. Vindurinn var þó tiltölulega hógvær fram eftir degi, og hitinn mældist allt að 7°. Svo kárnaði gamanið að kvöldi. Æsileg rigning helltist yfir og flutti með sér dynjandi skruggur og eldingar. Svo sljákkaði í veðrinu og máninn tók völdin.
15.10. LAUGARDAGUR
Undarlegt veður. Heilmikil rigning öðru hverju. Allhvasst með köflum. Koldimmt í eina áttina, sólskin og fallega heiðblátt í aðra átt. Mestur hiti 6°. Þetta þætti einhversstaðar ankannalegt.
Stórfrétt barst frá Reykjadalnum í dag. Varð þar eldsvoði snemma síðustu nótt. Kviknaði í Birkifelli rétt norðan við Hvítafell og brugðu slökkviliðsmenn snarlega við og slökktu eldinn. Engan sakaði, en talsverðar skemmdir urðu í húsinu. Þarna hafði fólk leigt um skeið, en var að flytja úr því. Í mbl.is er m.a. sagt svohljóðandi: “Svo virðist sem kviknað hafi í einhverju dóti sem stóð á miðju gólfi í barnaherbergi í húsinu. Mögulega gæti hafið kviknað í út frá lampa.” Undarlegar yfirlýsingar það.
Frétt frá Kaldbak, ekki alveg jafn háskaleg. Hestarnir rústuðu heyrúllurnar sem geymdar eru í girðingu úti. Höfðu brotist gegnum girðinguna og kannað vandlega hvað rúllurnar höfðu að geyma. Hrafnar munu hafa lagt hönd á plóg (ha, ha, hönd á plóg) við það skemmdarverk. Ævar og Ingibjörg vinna nú baki brotnu við betrumbætur.