Músarrindlar í heimsókn

OKTÓBERDAGAR 2011

16.10. SUNNUDAGUR

Bjart yfir og gott fram eftir degi. Vindinn herti þegar leið á daginn. Mestur hiti 6°.

Í dag var haldið upp á 15 ára afmæli Kára. Hann er nú orðinn nálægt 1.80 á hæð og líklegur til að bæta við sig nokkrum sentimetrum. Frændur hans og frænkur nálgast líka óðum háloftastílinn. Mér finnst ég ekki lengur neitt undarlega stór í þessum selskap!

17.10. MÁNUDAGUR

Hrollkalt í vindgarranum. Engin úrkoma þennan daginn. Mestur hiti 5°.

Dreif mig á Heilsugæslina og bað um sprautu gegn inflúensu. Tvær tóku á móti mér. Önnur var að æfa sig að sprauta liðlega í mannskapinn. Gekk allvel, en ögn var hún skömmustuleg þegar blóðið rann niður handlegg minn. Mér fannst rétt að hressa upp á hana og fullyrti að hún væri efnileg sprautukona.

Jonas Jonasson heitir sænskur maður, sem verður að líta svo á að sé afburða hugmyndaríkur. Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf, er nafnið á fyrstu bók Jonasar, sem Páll Valsson þýddi nýlega. Sá hlítur að hafa skemmt sér vel við þá iðju. Gamlinginn er ein af vinsælustu bókum um þessar mundir, enda upplagt að geta hlegið upphátt við lestur góðrar bókar í stað þess að bölsótast yfir roki og rigningu.

18.10. ÞRIÐJUDAGUR

Veðrið var ljúft og fallegt, sólskin og logn. Mestur hiti mældist 3°. Einmitt rétta veðrið til að laga til í garðinum og rífa upp það sem eftir var af hvönninni grimmu. Ekki veitti af að taka til hendi, þrír pokar fylltust og fengu ferð í Sorpu.

Fuglarnir kættust mjög í góða veðrinu. Stór hópur þrasta hoppaði um lóðina í miklu fjöri og fuglarnir fundu eitthvað gott í beðunum. Þeir tístu mikið og flugust svolítið á. Ég fylgdist lengi með þeim og skemmti mér vel. Ekki varð þó eintóm ánægja, því einn þeirra rak sig illa á og dó. Ekki varð við því gert. Ég jarðaði þröstinn undir rósarunna.

Merkilegast fannst mér þegar músarrindill birtist á handriðinu beint fyrir framan mig. Annar bættist svo við, og þeir voru ekkert að flýta sér í burtu. Var yfir mig hrifin, því músarrindill kemur ekki í heimsókn á hverjum degi. Síkvikur en felugjarn, eins og sagt er í Fuglavísi. Músarrindill er sérlega skemmtilegur fugl og syngur vel.

19.10. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag, þótt ekki jafnist það á við gærdaginn. Lítið sást til sólar, en vindurinn var hógvær. Lítilsháttar rigning að morgni, en öllu myndarlegri að kvöldinu. Mestur hiti 5°.

Ekki er að spyrja að húmornum og málsnillinni hans Þráins Bertelssonar. Er hreint ekki viss um að ég hefði afborið öll þau ósköp sem lesa mátti í bókinni hans, Fallið, ef hann hefði ekki orðað margt skemmtilegt inn milli ömurleika og örvæntingar. Mælska Þráins og gamansemi bjargar miklu.

20.10. FIMMTUDAGUR

Ágætt veður á milli skúra. Lítill vindur og sá varla til sólar. Mestur hiti 6°.

Átti notalegan afmælisdag og hafði nóg að gera. Alltaf gaman að fá spjall við mitt góða fólk í tölvu eða síma í tilefni dagsins. Eignaðist svo enn eina fuglabókina, möppu með alls konar sérstökum upplýsingum, fróðlegum og skemmtilegum, kortum, myndum o.s.frv.

Sá enn og aftur músarrindil skjótast um garðinn hér í morgun. Vonandi ætlar hann bara að búa hér!

21.10. FÖSTUDAGUR

Mikil rigning í morgun. Sól og blíða eftir hádegi. Hellidemba öðru hverju seinnipartinn og fram eftir öllu. Mestur hiti 6°, þegar veðrið var best.

Fór í gönguferð um Suðurnesið í góða veðrinu. Örfátt á golfvellinum og harla fátt á gönguleiðum. Fuglarnir við Bakkatjörnina biðu spenntir eftir góðgæti. Ég var ekki einu sinni með örðu í vasa, en þeir fengu heimsókn og gott í gogginn. Sá vængbrotnu gæsina, sem ég gái alltaf að. Hun stendur sig vel og virðist ekki þjáð.

22.10. LAUGARDAGUR

Sæmilegt veður, þótt engin væri sólin, og rigningin minnti öðru hverju á sig. Mestur hiti reyndist 6°. Um kvöldið var besta veðrið, logn og allt í rólegheitum.

Amma mín, Kristín Jónsdóttir, fæddist 22.10. árið 1867. Hefði viljað kynnast ömmu minni, sem mamma virti mikils. Amma veiktist af berklum og lést á Kristneshæli 27.10.1928.