NÓVEMBERDAGAR 2011
8.11. ÞRIÐJUDAGUR
Rigndi mikið í nótt og fram eftir morgni. Ágætt veður orðið um hádegið. Mestur hiti mældist 8°.
9.11. MIÐVIKUDAGUR
Enn rignir, en veðrið hefur hlýnað. Mestur hiti í dag mældist 10°.
Fórum á Kaldbak til að vitja hestanna og athuga ástandið eftir allt rokið og rigningarnar. Það hellirigndi alla leið upp í Hrunamannahreppinn, en þar reyndist ágætis veður og hvað best á Kaldbak. Ekki sást til hestanna og vorum við eiginlega að gefast upp á leitinni, en ég þrjóskaðist við og kom loks auga á hestahópinn niðri við Kluftána. Í ljós kom að einhver hefur opnað hlið þar niður frá, og hestunum hefur auðvitað fundist spennandi að bregða sér út fyrir. Við smöluðum þeim saman og tókst að koma þeim inn um hliðið og á sinn rétta stað. Þeir voru hressir og vel haldnir.
10.11. FIMMTUDAGUR
Rigndi talsvert í dag og vindur blés. Hitinn mældist 8°. Um kvöldið var orðið stillt og fallegt úti og máninn fullur varpaði geislum sínum á sjóinn.
11.11. FÖSTUDAGUR
Rigning öðru hverju, annars ágætis veður. Um kvöldið var hitinn kominn í 9°.
Ég greip Hraunfólkið, bókina hans Björns Th. Björnssonar, úr bókahillu og las hana öðru sinni. Gaman að rifja hana upp. Sagan gerist á 18. öld og Björn fer afar vel með tungu þess tíma. Það gengur á ýmsu, margt er átakanlegt, en einnig margt fyndið og skemmtilegt. Og persónur sögunnar eru eftirminnilegar.
12.11. LAUGARDAGUR
Gott veður í allan dag. Lítilsháttar rigning á köflum. Fagur himinn og sólskin drjúgan hluta dagsins. Mestur hiti 8°.
Mikið um að vera í bænum þessa helgi undir yfirskriftinni Bókamessa í bókmenntaborg. Í Tjarnarsal Ráðhússins kynna bókaútgefendur fjölda nýrra bóka. Fjölbreytnin er mikil og margar girnilegar bækur og gaman að átta sig á hversu margir stunda þessa skemmtilegu iðju og sjá okkur fyrir bókum.
Í Iðnó er boðið upp á skemmtilega dagskrá af ýmsu tagi. Bók Jónasar, Þúsund og ein þjóðleið, er nýkomin út og vekur mikla athygli, enda stórglæsileg bók. Jónas kom í Iðnó á hestbaki ásamt fleirum um hágegisbilið og afhenti tveimur öðlingsmönnum fyrstu eintök bókarinnar. Síðan var klukkutíma prógram í Iðnó, þar sem Jónas kynnti bók sína og Sigrún Helgadóttir sína bók um Þingvellir. Ari Trausti stjórnaði og sagði reyndar lítillega frá sínum bókum, m.a. um Eldgos. Mjög gaman að sjá og heyra.
13.11. SUNNUDAGUR
Veðurfarið er aldeilis ótrúlegt. Við erum öllu vanari kaldara veðri í nóvember, en nú lítur helst út fyrir að veðrið slái met fyrr en varir. Í dag var fallegt veður, hlýtt og gott. Mestur hiti var 9°.
Breki verður 11 ára á morgun og sparar ekki fögnuðinn alla helgina. Skemmti sér með félögum sínum í skólanum á laugardaginn og í dag fylltist heimilið á Lundi af vinum og vandamönnum. Þar var boðið upp á miklar kræsingar að vanda og gaman að hitta allt þetta ágæta fólk.
14.11. MÁNUDAGUR
Veðurguðunum hefur líklega þótt nóg um góðviðrið um helgina og settu svolítið fútt í veðrið þennan daginn. Allhvasst og svolítil rigning með köflum. Skýin eru með ýmsum brag, sitt á hvað fallega hvít og ógnandi dökk og þar á milli með mildum rauðleitum blæ. Sérkennilegt. Mestur hiti 10°.