OKTÓBERDAGAR 2011
23.10. SUNNUDAGUR
Fram eftir degi var frábært veður, heiðríkt og stillt. Hitinn nálgaðist 6°. Eftir hádegið hvessti. Eins gott að klæða sig fyrir göngutúrinn.
Gaf fuglunum á Bakkatjörn og ætlaði alveg sérstaklega að gefa vængbrotnu gæsinni, en hún flúði í burtu. Hún er reyndar ekki lengur ein, þær eru tvær vængbrotnar og halda saman.
Adam og Evelyn heitir athyglisverð bók sem ég var að klára. Býsna skrítin saga. Snýst um ást og gengur á ýmsu. Aðalpersónirnar þrasa þvílíkt að ástin sú getur varla lifað það af. Höfundur Ingo Schulze.
24.10. MÁNUDAGUR
Fallegt veður, sérstaklega heiðríkt og stillt fyrripart dagsins. Hitinn komst upp í 3°.
Gott að geta fylgst með því sem gerist í Reykjadal og nágrenni. Fréttirnar má lesa á http://www.641.is/ Í dag var sagt frá því að samþykkt hafi verið að sameina Litlulaugaskóla og Hafralækjarskóla í eina stofnun með tvær starfstöðvar. Hins vegar er í þoku hvers konar ávinningur er í sigtinu og mikið ógert við skipulag og útfærslur áður en sameiningin verður að veruleika 1. ágúst 2012. Fróðlegt að vita hvað kemur út úr þessum breytingum.
25.10. ÞRIÐJUDAGUR
Ágætt veður í dag þrátt fyrir miklar rigningar allan daginn. Vindur var lítill og ekki kalt að ráði. Hitinn fór upp í 7° þegar leið að kvöldi.
26.10. MIÐVIKUDAGUR
Rigndi talsvert í dag, en öðru hverju rofaði til og sólin gægðist fram. Stærðar regnbogi sýndi sig í heilu lagi. Einkar fallegur.
Sindri og Breki voru í heimsókn eftir kennaraviðtöl í morgun. Höfðu fengið góðan vitnisburð eins og við var að búast. Við spiluðum Tíuna vinsælu og skemmtum okkur vel.
Á www.641.is er sagt frá merkum tímamótum í sögu heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslu um þessar mundir: Heilbrigðisstofnun Þingeyinga er 75 ára, Heilsugæslan (Læknamiðstöðin) er 45 ára, Hvammur, dvalarheimili aldraðra 30 ára, Tannlæknastofa í húsakynnum heilsugæslunnar 20 ára og Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga 15 ára. Það er eins og gætt hafi verið vandlega upp á árabilin, svo að hægt væri að halda upp á öll afmælin í einni syrpu. Hyggileg hagræðing. Ætli konur hafi ráði þessu?
27.10. FIMMTUDAGUR
Fallegt veður, stillt og hlýtt. Mestur hiti 7°.
Loks gafst tækifæri til að spila bridds við okkar ágætu vini Sólrúnu og Þórð. Ég fór reyndar illa út úr spilamennskunni í þetta skipti, sú eina sem tapaði stórt. Það gleymdist snarlega meðan við snæddum góðan mat og ræddum landsins gagn og nauðsynjar.
28.10. FÖSTUDAGUR
Ágætt veður í dag. Mestur hiti 6°.
Öðru hverju fæ ég póst frá SOS, fréttir af Barnaþorpunum og beiðni um framlag til þorpanna og barnanna, sem þar fá skjól og tækifæri til mannsæmandi lífs. SOS Barnaþorpin eru stærstu einkareknu barnahjálparsamtökin í heiminum, sem sérhæfa sig í að útvega munaðarlausum og yfirgefnum börnum heimili og umönnun. Stórkostlegt hjálparstarf í yfir 100 löndum í Mið- og S-Ameríku, Afríku, Asíu og A-Evrópu. Í fréttablaði SOS er margt sem vekur umhugsun. Sumt er svo sorglegt að tárin spretta fram, en margar eru líka sögurnar sem gleðja.
Í SOS-blaðinu núna er merkileg saga, sem kemur við hjartað. Helga Huld Halldórsdóttir læknanemi segir þá sögu. Hún fór með vinkonu sinni til Tansaníu í ársbyrjun, þar sem þær stöllur unnu sjálfboðastarf á frumstæðum spítala. Einn daginn fundu þær lítinn munaðarleysingja, sem hírðist í litlum járnkassa og sást lítið annað en stór brún augu. Enginn vissi hvar móðir barnsins var, og litið var hægt að gera í málinu annað en vonast eftir að einhver vildi ættleiða barnið. En í Tansaníu gerist slíkt ekki á hverjum degi.
Þær vinkonurnar tóku drenginn upp á sína arma og fengu að annast hann meðan þær störfuðu á spítalanum. Þær gáfu honum nafnið Oliver eftir söguhetjunni Oliver Twist og höfðu mikla ánægju af að annast hann. Þær gátu hins vegar ekki haft hann með sér heim og höfðu miklar áhyggjur af framtíð litla drengsins, sem var þeim orðinn svo kær. En vandinn leystist þegar þær fengu aðstoð starfsfólks á Íslandi við að tryggja Oliver vist í SOS barnaþorpi í Tansaníu. Nú á Oliver mömmu, frænku og heilan flokk systkina í SOS Barnaþorpinu og dafnar vel. Frásögn Helgu er hjartnæm, og eðlileg gleði og ánægja vinkvennanna að vita af Oliver litla á góðum stað. Því miður er ótrúlegur fjöldi barna, sem ekki eru jafn lánsöm og Oliver. En farsæl aðstoð við hvert eitt barn skiptir miklu.
29.10. LAUGARDAGUR
Leiðindaveður, sífelld rigning og hvasst. Mestur hiti var þó 6°.
Þegar svona er úti, er upplagt að nota spilin, og þá er Tían vinsælust. Það var fjörugt við spilaborðið.
30.10. SUNNUDAGUR
Rigning mikinn hluta dagsins. Mestur hiti 7°.
Þær eru klárar dönsku konurnar tvær, Kaaberböl og Friis, sem semja harla góðar spennusögur. Fyrir nokkru las ég bókina, Barnið í ferðatöskunni, og þótti hún mögnuð. Og nú var ég að lesa bók þeirra, Hægur dauði, sem ekki er síðri. Frumlega gerð og feykilega spennandi.
31.10. MÁNUDAGUR
Enn blæs vindurinn og rigningin hellist yfir okkur. Það var hráslagalegt í dag þótt hitinn færi upp í 7°.