Trommari á þakinu?

SEPTEMBERDAGAR 2011

18.9. SUNNUDAGUR

Ótuktarlegt veður í dag. Hvasst og mikil rigning. Hins vegar var ekki svo kalt, hitinn fór yfir 10°. Heldur var fátt í morgunsundinu og vafalaust enn færra þegar á leið og herti bæði vind og regn. Kosturinn vitanlega sá að við svo myndarlega rigningu þarf ekki að búast við moldroki, sandfoki né öskufalli.

19.9. MÁNUDAGUR

Sólskin og næstum heiðríkt í morgun, en varla var ég komin heim úr sundinu þegar hellirigning buldi á þakinu eins og kolvitlaus trommari væri þar að verki. Fengum slíkar trakteringar öðru hverju allan daginn. Best var þó þegar sólin og rigningin sameinuðust í gerð eins stærsta og fallegasta regnboga sem ég hef séð. Takk fyrir það! Mestur hiti mældist 11°.

Var að ljúka einni af bestu bókum sem ég hef lesið lengi. Eyru Busters heitir hún. Salka gefur út. Sérlega vel skrifuð bók sem snertir mann alveg inn í bein. Höfundur er sænsk kona, heitir Maria Ernesta. Get hugsað mér að lesa fleiri bækur eftir þá konu.

20.9. ÞRIÐJUDAGUR

Svipað veðurfar. Heldur minni rigning þó. Mestur hiti 10°.

21.9. MIÐVIKUDAGUR

Mikil var dýrðin í dag. Sólskin, logn og blíða fram eftir öllum degi, reyndar aðeins vindur seinnipartinn. Mestur hiti 10°.

Frábært að fá slíkan dag. Gönguferð um Suðurnesið. Tiltekt í garðinum. Þarfaferð í Sorpu. Eftir tiltektina berfætt með bók í kjöltunni úti í garði. Og bæði hunangsflugur og geitungar létu eins og um miðsumar væri.

22.9. FIMMTUDAGUR

Öndvegis veður. Sólskin frá morgni til kvölds. Logn fram á miðjan dag. Mestur hiti mældist 9°.

Leyfði mér þann munað að sitja með bók úti á palli í þessu yndislega veðri. Enda komin með nýjustu bók Jo Nesbö, Frelsarann.

23.9. FÖSTUDAGUR

Sólin skein öðru hverju í dag, þegar skýin gáfu henni glufu. Mestur hiti dagsins 11°.

Ég les fréttablöðin (nema Moggann) yfirleitt nokkuð vandlega. Er hrædd um að missa annars af einhverju merkilegu. Það sannast reyndar sjaldan og margt er furðu ómerkilegt í þessum blöðum. Til dæmis er gengið út frá því sem sjálfsögðu að kvenfólk hafi nánast takmarkalausan áhuga á útliti, klæðaburði og kroppalínum. Í nánast hverju fréttablaði má sjá og lesa um þetta þrennt. Nokkuð einhæft. Bara um konur, sem eiga að vera laglegar, lögulegar og flott klæddar. Og fyrst og fremst grannar. Konur taka margar hverjar þessar kröfur bókstaflega og eyða bæði tíma og peningum í þessa vitleysu. Sárasjaldan er hins vegar ýtt við körlunum, enda vaða þeir ófeimnir fram og aftur með írstrurnar sínar og virðist líða vel með þær.

24.9. LAUGARDAGUR

Hellirigning að morgni og öðru hverju að deginum. Mestur hiti 11°.

Ætluðum endilega að fara á Þingvöll og sjá litadýrð haustsins. En skúraveðrið lofaði ekki góðu.