NÓVEMBER 2011
15.11. ÞRIÐJUDAGUR
Tunglið sá um dýrð morgunins. Stillt og gott veður. Mestur hiti 10°.
Lengi hefur staðið til að heimsækja Kristján á Náttúrufræðistofnuna á nýja staðnum, þ.e. á Urriðaholti í Garðabæ. Þangað flutti starfsemin fyrir rúmu ári og hafa nú heldur betur batnað aðstæður. Skömmu eftir að flutningum var lokið var fólki boðið að koma í heimsókn og kynna sér húsakynnin og það sem þarna fer fram. Ótrúlegur fjöldi fólks þáði boðið og fyllti húsið. Við Jónas fórum þangað loks í dag. Kristján sýndi okkur þetta allt saman, sem var mjög gaman og margt að sjá.
Í kvöld var svo afmælisveisla Auðar, sem átti reyndar 14 ára afmælið á laugardaginn var. Þar var glatt á hjalla að vanda og ekki vantaði ljúffengar kökur og aðrar kræsingar.
16.11. MIÐVIKUDAGUR
Rigning öðru hverju, en hóflegur vindur. Mestur hiti 9°.
Erum í stöðugum veislum. Þetta kvöldið neyttum við glæsilegs matar hjá Ingibjörgu og Ævari. Skemmtilegt og notalegt að eiga stundir með þeim.
17.11. FIMMTUDAGUR
Ágætis veður, svipað og í gær. Mestur hiti 7°. Enn prýða blóm undir veggjum, einkum fjólur. Sums staðar sjást brum á trjám og runnum, sem virðast halda að vorið sé að koma. Eins gott að hestarnir felli ekki vetrarhárið í góða veðrinu!
Fór ásamt Guðrúnu Agnars í jarðarför Matthiasar Á. Mathiesen í Hafnarfjarðarkirkju. Mannfjöldi fyllti kirkjuna og fengu ekki nærri allir sæti. Að útför lokinni hittum við marga kunnuga, en stóðum reyndar ekki lengi við. Settum okkur niður heima hjá Guðrúnu og áttum þar góðar stundir. Hittumst of sjaldan.
18.11. FÖSTUDAGUR
Rigning lét á sér kræla, en annars þokkalegt veður. Mestur hiti 6°.
Puðuðum í hesthúsinu í dag. Máluðum þar jöturnar og tilheyrandi af mikilli snilld eða þannig! Fegin var ég reyndar þegar starfi þessu var lokið. En hvað gerir maður ekki fyrir hestana sína.
19.11. LAUGARDAGUR
Dýrðlegur morgun og gott veður fram eftir degi. Mestur hiti 7°. Að kvöldi helltist yfir rigning og hertist vindur. Samkvæmt Veðurstofunni má búast við öllu meiri úrkomu í veðrinu næstu vikurnar.
20.11. SUNNUDAGUR
Ekki vantaði úrkomuna í dag. Miklar rigningar og jafnvel haglél um tíma. Mestur hiti 6°.
21.11. MÁNUDAGUR
Heldur fer kólnandi, hitinn fór varla upp fyrir 4° í dag. Rigning með köflum.