Því betur sem ég kynnist mönnunum….

OKTÓBERDAGAR 2011

1.10. LAUGARDAGUR

Heldur var þungbúið og rigningarlegt snemma morguns, þegar við ókum að heiman og eins og leið lá upp á Kaldbak. Til stóð að sækja hestana í Bæjarásinn og búa þá sem best undir veturinn. Mikið hefur rignt og blásið þar um slóðir sem annars staðar og áttum við allt eins von á talsverðu brölti í rennblautum og hálum brekkunum. Urðum því harla kát, þegar hestarnir hreinlega biðu á hæsta hólnum á Bæjarásnum rétt eins og þeir hefðu átt von á okkur. Það var því auðvelt að smala hestunum í gerðið. Þeir fengu mola að launum og síðan góða tuggu á Rananum, sem svo er kallaður.

Við þurftum að bíða nokkuð lengi eftir aðstoð, en gerðum það sem við gátum á milli skúra. Við gáfum hestum okkar ormalyf, en Ásgeir og Hjálmar komu frá Flúðum að draga undan skeifur og snyrta hófa. Síðan var hópnum hleypt út í frelsið og var það vel þegið.

Talsvert hefur gengið á í veðrinu síðustu vikur á Kaldbak sem annars staðar. Hálfónýtt trampólín rétt við bæinn ber þess vitni. Mikill yrði söknuður yngra fólksins, ef ekki yrði hægt að gera við.

2.10. SUNNUDAGUR

Þungbúið, en skikkanlegt veður. Mestur hiti um 9°.

Lóðin var hreinlega þakin silfurmávum í morgun. Þeir eru félagslyndir og halda hópinn. Því miður fljúga þeir snarlega upp, ef þeir skynja truflun. Langar að hafa tækifæri til að skoða þá betur. Vonandi fer ég ekki vitlaust með heiti fuglanna, enda með tvær merkilegar bækur til hliðsjónar. Fuglar í náttúru Íslands er eftir Guðmund Pál Ólafsson og Íslenskur fuglavísir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Dáist mikið að fuglum og raunar flestum dýrum, hvort sem þau fljúga, synda eða hlaupa. Er nefnilega komin á sama stig og maðurinn sem sagði: „Því betur sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn.“ Þetta viðhorf mun vera eignað Friðriki II, konungi Prússlands. Er ég alveg sammála Friðriki í þessu efni, nema ég vil ekki einskorða við hunda, heldur mörg fleiri merkileg dýr, ekki síst hesta og fugla.

3.10. MÁNUDAGUR

Veðrið alveg sæmilegt í dag. Talsverður vindur, en nánast engin rigning. Sólin skein glaðlega um miðjan daginn og aftur síðla. Mestur hiti 10°.

4.10. ÞRIÐJUDAGUR

Kalt í morgunsárið. Fjöllin grá niður í miðjar hlíðar. Mestur hiti 6°.

Nokkrar ígulrósir prýddu beðin enn í gær, en næturkuldinn gerði endanlega út af við þær. Gljámispillinn er einkar fallegur á þessum tíma, glansandi rauður. Og merkilegt hvað fjólurnar bera sig ennþá vel. En það leynir sér ekki að veturinn er á næsta leiti.

5.10. MIÐVIKUDAGUR

Alskýjað og lágskýjað, lygnt og úrkomulítið mestallan daginn. Mestur hiti 6°. Í rauninni ágætt veður, og göngugarparnir þramma hér fram og aftur Norðurströndina. Nær kvöldinu versnaði og hvessti hressilega.

6.10. FIMMTUDAGUR

Fallegt er út að líta, en kalt, því vindurinn sér um það. Mestur hiti 6°. Fyrir norðan hefur snjóað víða, en hér lætur snjórinn duga að þekja fjöllin niður í miðjar hlíðar.

7.10, FÖSTUDAGUR

Yndislegur dagur. Heiðríkt og nánast logn. Mestur hiti 6°. Og nú gafst tækifærið að njóta haustlitanna á Þingvöllum. Gulir litir, rauðir og bláir. Dýrðlegt.

Seinnihluta dagsins var allt í einu búið með lognið og heiðríkjuna. Er nú varað við hvassviðri og jafnvel stormi og rigningu í nótt og á morgun. Svona er Ísland.

8.10. LAUGARDAGUR

Veðurguðirnir stóðu við sitt og gekk mikið á fram eftir degi. Grenjandi hvasst og rigning, en furðu hlýtt, mestur hiti 10°. Vindinn lægði heldur um hádegisbilið. Er nú lítið orðið eftir af fagurrauða laufinu á gljámisplinum.