FEBRÚARDAGAR 2012
8.2. MIÐVIKUDAGUR
Ágætis veður, hóflegur vindur og lítil úrkoma. Mestur hiti 4°.
Fór hin kátasta í hesthúsið og sá fram á að geta loks komist á hestbak. Mér til mikillar gremju tókst mér ekki að opna bakhúsið, sem geymir hjálminn minn og skálmarnar. Án hjálms fer ég ekki á bak.
9.2. FIMMTUDAGUR
Veðrið var þokkalegt fram yfir hádegi, en svo dundi rigningin yfir og varð æ meiri fram eftir kvöldi. Mestur hiti var 5°.
Áslaug á afmæli í dag, er orðin 6 ára og farin að hlakka mikið til að fara í skóla.
10.2. FÖSTUDAGUR
Stundum svolítil rigning, stundum él, stundum snjókoma. Sólin gerði heiðarlega tilraun til að skína almennilega, en það gekk böksulega. Mestur hiti 3°.
Í dag komst ég loks á hestbak. Gaukur var svolítið órólegur til að byrja með, hneggjaði eins og hann héldi að ég væri að taka sig frá félögum sínum. Við fórum ekki langt, en þetta var ósköp notalegt.
Sigrún á afmæli í dag. Nóg að gera á hennar bæ og í vinnunni. Blómvöndurinn verður að bíða.
11.2. LAUGARDAGUR
Það rigndi heil ósköp um hádegisbil, en svo kom þetta fína veður. Hiti mældist mestur 4°.
Það var bara nokkuð lífegt í Víðidalnum, allmargir að viðra hesta sína. Og núna fengu allir okkar hestar að spretta úr spori. Förum þó ekki langar leiðir meðan þeir eru að jafna sig.
12.2. SUNNUDAGUR
Svolítið rigndi öðru hverju í dag og dálítið blæs vindurinn. Mestur hiti mældist 5°.
Hestarnir eru greinilega ánægðir með að spretta ögn úr spori. Við tökum stutta og létta spotta fyrstu dagana. Rauðavatn og Rauðhólar bíða.
13.2. MÁNUDAGUR
Veðrið var ágætt í dag, þótt hvessti ögn nær kvöldi. Mestur hiti 5°.
Fuglarnir eru sáttir við veðrið þessa dagana, þótt rigni oft hressilega. Enn sækja þrestir og starar í garðinn og þiggja epli og brauð. Hins vegar láta snjótittlingarnir ekki sjá sig eftir að snjórinn er horfinn.
14.2. ÞRIÐJUDAGUR
Engin þörf að kvarta þótt öðru hverju rigni. Mestur hiti í dag reyndist 7°. Hins vegar má víst búast við kaldara hér á Fróni á næstu dögum.
Gott er að eiga Katrínu að með alla sína reynslu sem dýralæknir. Hestana þarf að skoða og gá að því sem kann að vera úr lagi. Í dag fór hún yfir þetta allt, gaf hestunum nauðsynlegar sprautur, raspaði tennur og hreinsaði skaufa. Ýmislegt fleira kom til athugunar, og Katrín tekur á þessu öllu