Gott að eiga Katrínu að

FEBRÚARDAGAR 2012

8.2. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður, hóflegur vindur og lítil úrkoma. Mestur hiti 4°.

Fór hin kátasta í hesthúsið og sá fram á að geta loks komist á hestbak. Mér til mikillar gremju tókst mér ekki að opna bakhúsið, sem geymir hjálminn minn og skálmarnar. Án hjálms fer ég ekki á bak.

9.2. FIMMTUDAGUR

Veðrið var þokkalegt fram yfir hádegi, en svo dundi rigningin yfir og varð æ meiri fram eftir kvöldi. Mestur hiti var 5°.

Áslaug á afmæli í dag, er orðin 6 ára og farin að hlakka mikið til að fara í skóla.

10.2. FÖSTUDAGUR

Stundum svolítil rigning, stundum él, stundum snjókoma. Sólin gerði heiðarlega tilraun til að skína almennilega, en það gekk böksulega. Mestur hiti 3°.

Í dag komst ég loks á hestbak. Gaukur var svolítið órólegur til að byrja með, hneggjaði eins og hann héldi að ég væri að taka sig frá félögum sínum. Við fórum ekki langt, en þetta var ósköp notalegt.

Sigrún á afmæli í dag. Nóg að gera á hennar bæ og í vinnunni. Blómvöndurinn verður að bíða.

11.2. LAUGARDAGUR

Það rigndi heil ósköp um hádegisbil, en svo kom þetta fína veður. Hiti mældist mestur 4°.

Það var bara nokkuð lífegt í Víðidalnum, allmargir að viðra hesta sína. Og núna fengu allir okkar hestar að spretta úr spori. Förum þó ekki langar leiðir meðan þeir eru að jafna sig.

12.2. SUNNUDAGUR

Svolítið rigndi öðru hverju í dag og dálítið blæs vindurinn. Mestur hiti mældist 5°.

Hestarnir eru greinilega ánægðir með að spretta ögn úr spori. Við tökum stutta og létta spotta fyrstu dagana. Rauðavatn og Rauðhólar bíða.

13.2. MÁNUDAGUR

Veðrið var ágætt í dag, þótt hvessti ögn nær kvöldi. Mestur hiti 5°.

Fuglarnir eru sáttir við veðrið þessa dagana, þótt rigni oft hressilega. Enn sækja þrestir og starar í garðinn og þiggja epli og brauð. Hins vegar láta snjótittlingarnir ekki sjá sig eftir að snjórinn er horfinn.

14.2. ÞRIÐJUDAGUR

Engin þörf að kvarta þótt öðru hverju rigni. Mestur hiti í dag reyndist 7°. Hins vegar má víst búast við kaldara hér á Fróni á næstu dögum.

Gott er að eiga Katrínu að með alla sína reynslu sem dýralæknir. Hestana þarf að skoða og gá að því sem kann að vera úr lagi. Í dag fór hún yfir þetta allt, gaf hestunum nauðsynlegar sprautur, raspaði tennur og hreinsaði skaufa. Ýmislegt fleira kom til athugunar, og Katrín tekur á þessu öllu

Sex komnir í hús

FEBRÚARDAGAR 2012

1.2. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag. Mestur hiti mældist 2°. Tungl og stjörnur sýna sig að kvöldinu.

Hesthúsið er ekki mjög líflegt ennþá, aðeins einn hefur komið sínum hestum í hús. Stefnan er að fá hestana okkar í hús á föstudaginn, ef veður lofar. Undirbjuggum allt í dag, þurftum að þrífa rækilega jöturnar og hafa allt klárt.

Góð dagskrá á fundi E.V.G. í kvöld. Mátti til með að hlusta á erindi Sigrúnar Helgadóttur og Hjörleifs Guttormssonar, sem sögðu frá svo mörgu um þann merka mann Sigurð Þórarinsson jarðfræðing, náttúruverndarmann og vísnaskáld. Mjög góð bæði erindin. Sönghópurinn Jöklabræður fluttu síðan lög við vísur Sigurðar af miklum áhuga og kátínu.

2.2. FIMMTUDAGUR

Leiðinda veður í dag, hvasst og rigning nánast án afláts. Hiti mældist mestur 6° um kvöldið.

3.2. FÖSTUDAGUR

Gott veður mestan part dagsins, þótt öðru hverju væri lítils háttar snjókoma, stöku sinnum smávegis rigning og stundum svolítill vindur. Um kvöldið herti vind.

Við fórum snemma morguns á Kaldbak. Þar var mjallahvítur snjór yfir öllu, en ekki mjög mikill, svo að færðin var alveg sæmileg. Við náðum hestunum okkar 6, Loga, Djarfi, Gauki, Prinsi, Létti og Stormi. Þeir voru fluttir sína leið í hestaflutningabíl og gekk allt ljómandi vel. Þorgrímur járningamaður hófst þegar handa í kvöld.

4.2. LAUGADAGUR

Veðrið var ekki afleitt að deginum. Lítil úrkoma, mestur hiti 3°. Vindinn herti með kvöldinu.

5.2. SUNNUDAGUR

Sæmilegt veður og lítil úrkoma. Um miðjan daginn mældist frost -5°.

Jónas er 72 ára í dag. Falleg blóm prýða hillur og borð til heiðurs afmælisbarninu.

Síðdegis var efnt til ættarmóts með afkomendum Jónasar Kristjánssonar afa og nafna J.K. Samkvæmið fór fram í Austurbergi 1, sem er íþróttahús Leiknis. Fólk kom með kökur og annað góðgæti og var ekki til sparað. Afkomendur kynntu sig og sína, og nokkrir skemmtu með sögum af Jónasi, sem var kunnur fyrir læknisstörf sín, dugnað, hegðun, orð og æði.

6.2. MÁNUDAGUR

Dynjandi rigning og rok mikinn hluta dagsins. Hægðist um nær kvöldinu. Mestur hiti mældist 7°.

Var lengi að bursta hestana og greiða úr töglum og föxum. Þarf að gera betur, þegar ég er búin að jafna mig eftir átökin.

7.2. ÞRIÐJUDAGUR

Verulegt hvassviðri og rigning í allan dag. Mestur hiti 7°.

Átti hreinlega erfitt með að ráða við hurðirnar í hesthúsinu til að hleypa hestunum út. Þeir voru ekkert óánægðir með rokið og rigninguna og notuðu tækifærið til að hreyfa sig. Fékk spánnýtt meðal á Dýraspítalanum, sem á að lækna m.a. hnjóska. Vonandi fær Djarfur bata hið fyrsta. Komst loksins niður úr taglinu á Létti, sem stóð grafkyrr allan tímann.

Grenjandi rigning ræðst á snjóinn

JANÚARDAGAR 2012

23.1. MÁNUDAGUR

Fallegt var úti í dag, en vindurinn blés og sá til þess að kuldinn lét okkur finna fyrir því.

Pattaralegur svartþröstur beið þolinmóður eftir matnum og hörfaði ekki einu sinni undan þegar ég kom með epli og brauð. Það truflaði hann ekkert þótt ég hjalaði við hann. Garðurinn fylltist strax af fuglum.

24.1. ÞRIÐJUDAGUR

Allt er hvítt, jörðin, girðingar, trén, víðirunnar, allt rækilega umvafið snjó, ef þannig má orða það. Og bílarnir voru nánast tíndir undir snjónum. Snjór, snjór, snjór. Fallegt er það og sérstakt.

Fuglarnir létu snemma á sér bera í morgun. Ég þurfti að ryðja snjónum frá og gera rennur fyrir mat og fugla. Þeir létu ekki bíða eftir sér. Ég fór síðan að moka af Fordinum, sem var nánast á kafi. Sá þá að húsþakið var hreinlega þakið snjótittlingum. Svo flugu þeir upp allir í einu og voru öruggleg a.m.k.100.

Katrín á afmæli í dag. Við heimsóttum hana og fjölskylduna á Birkigrund. Notalegt og skemmtilegt.

25.1. MIÐVIKUDAGUR

Enn bætist í snjóþykknið hér í suðvesturfjórðungnum, en meira er það og verra víðar. Hér er snjórinn þéttur og fallegur, en ekki beint þægilegt að komast leiðar sinnar. Ekki er mjög kalt, frostið mældist mest -2° í dag.

Meðan enn er glóð – heitir bók sem ég var að lesa eftir norskan rithöfund, Gaute Heivoll. Bókin fjallar um brennuvarg og fólkið á svæðinu. Þar kannast allir hver við annan og tortryggnin magnast. Vel gerð bók.

26.1. FIMMTUDAGUR

Enn hleðst snjórinn upp. Erfið nótt og fram eftir degi fyrir þá sem eru að baksa gegnum snjóskaflana. Lítil úrkoma í dag. Nokkuð hvasst. Frost mældist mest -7°. Himinninn skartaði sínu fegursta um miðjan daginn.

Þurfti að taka á við moksturinn úti í garði til að geta fóðrað fuglana. Alltaf jafn gaman að fylgjast með hópnum.

Spiluðum bridds við Þórð og Sólrúnu í kvöld. Ég var óþarflega djörf og tapaði frekar hressilega. Samt mjög gaman.

27.1. FÖSTUDAGUR

Nú er það rigningin, mikil rigning. Það er hvasst af suðaustan. Búist er við asahláku víða um land næstu daga. Hiti mælist um 2° hér.

Mér leiðist rok og rigning. En kosturinn er sá í þetta sinn, að nú gat ég losað Fordinn úr snjóbingnum.

28.1. LAUGARDAGUR

Enn rignir hann og mun ausa regninu enn meira yfir okkur á næstunni. Veðrið hefur verið hvasst í dag, og mestur hiti mældist 6°.

29.1. SUNNUDAGUR

Nokkuð gott veður í dag. Mestur hiti 6° og ekki mjög hvasst. Öðru hverju rigndi lítillega.

Lítið ber á snjónum, sennilega hvað minnst hér á Seltjarnarnesi. Fuglarnir eru fegnir að losna við snjóinn og ánægðir með að geta kroppað eftir vild eins og þeir eru vanir. Talsverðir afgangar eru handa þeim í garðinum, en þeir litu ekki við þessu í dag. Sá aðeins einn snjótittling spígspora þar um og gogga í brauð og kurl.

Dóra hefur unnið af mikilli elju í gær og dag við að rýma til í kjallaranum og geymslunni, tína saman dót og drasl, sem ekki mun gagnast héðan af. Ég þóttist hjálpa smávegis til. Maður heldur alltaf að hitt og þetta gæti einhvern tíma komið að gagni. En það gleymist oft með tímanum, ryðgar og skemmist og verður gagnslaust. Sindri og Breki hjálpuðu til við að koma draslinu í Sorpu. Þurfti þrjár ferðir. Þetta er mikil hreinsun.

30.1. MÁNUDAGUR

Heldur kaldara en í gær, en ágætis veður að öðru leiti. Mestur hiti mældist 2°. Lítil úrkoma.

Í dag var gengið frá sölu okkar á Kaldbak. Ævar og Ingibjörg keyptu jörðina og húsin. Við söknum vissulega staðarins og allt okkar fólk, sem hefur átt þar góðar stundir. Hestarnir okkar verða áfram á Kaldbak.

31.1. ÞRIÐJUDAGUR

Grenjandi rigning nánast án afláts í allan dag. Mestur hiti 5°. Talsverður vindur hér og enn meiri á Hellisheiðinni og víða á leiðinni upp á Kaldbak. Búast má við mikilli rigningu a.m.k. til hádegis á morgun. Hestarnir bera sig ekki illa, en þeir þiggja glaðir molana góðu. Vonandi verður febrúar ögn blíðari við skepnur og menn.

Litlu verður vöggur feginn

JANÚARDAGAR 2012

15.1. SUNNUDAGUR

Ágætis veður í dag, mestur hiti 2° og úrkomulaust. Meira að segja sólin kíkti til okkar. Það er langt síðan himinninn sýndi sig, bauð upp á létt ský og sólskin. Reyndar afar skamman tíma, en “litlu verður vöggur feginn”, segir máltækið.

Fengum fjölskyldurnar í hádegissnæðing. Komu öll nema nafna mín, sem var hjá vinkonu. Hér biðu ungmeyjanna í Skildinganesi jólagjafir, sem ekki höfðu komist með þeim á Kaldbak um jólin, og var nú heldur kátt yfir þessari jólaviðbót, sem komu þeim á óvart.

16.1. MÁNUDAGUR

Fallegt var veðrið fram eftir morgni, en síðan tók rigningin við og hamaðist áfram til kvölds. Mestur hiti var 6°.

Fór með Fordinn í stuttan leiðangur og komst að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki alveg í lagi. Brugðum okkur þar með á Ægissíðuna, þar er alltaf vel tekið á móti manni. Þar kom í ljós að bremsuklossar og diskar voru illa farnir. Við fengum góða afgreiðslu, og ég gat sótt bílinn fyrir lokun í dag.

17.1. ÞRIÐJUDAGUR

Leiðindaveður með köflum, svolítið hvasst og hríðarveður öðru hverju. Mestur hiti 2°.

Gyrðir Elíasson skrifar þannig að maður nýtur hverrar línu. Las Sandárbókina í einum rikk, enda enginn vaðall í þeirri bók. Heldur engin læti né stórkarlaumsvif. Textinn býður samt upp á umhugsun og tilfinningar. Góð bók.

18.1. MIÐVIKUDAGUR

Hvasst í dag og talsverð snjókoma. Hiti mældist rétt yfir frostmark um miðjan daginn.

EM-handboltinn er spennandi þessa dagana. Ísland keppti við Noreg í kvöld. Hún var æðisleg. Okkar lið var mestan hluta keppninnar rétt hangandi í Norðmönnum og allt að 4 mörkum undir þegar lokin voru að nálgast. Ég hélt varla við fyrir framan sjónvarpið, en hafði það þó af sem betur fór. Okkar menn unnu, þegar allt kom til alls, með tveimur mörkum yfir að lokum. Frábær endasprettur.

19.1. FIMMTUDAGUR

Kalt en fallegt. Sól og birta um miðjan daginn. Frost var lítið. Úrkomulaust

Snjótittlingarnir eru svo fjörugir og skemmtilegir. Þeir sitja oft uppi á þaki og gjarna á glugganum beint yfir eldhúsinu. Gaman að skoða þá frá þeim vinkli. Reyndar er gaman að virða alla þessa kostgangara fyrir sér, svartþrestina, skógarþrestina, starana og snjótittlingana.

20,1. FÖSTUDAGUR

Það snjóaði talsvert í dag, en hvassviðrið feykti snjónum svo rækilega til að það situr ekki mikið eftir.

Ég stóð að sjálfsögðu rækilega með handboltastrákunum okkar gegn Slóveníu í kvöld, en það dugði því miður ekki baun.

21.1. LAUGARDAGUR

Skínandi fallegt veður í dag. Glampandi sól og lítill vindur. Frost mældist -1° allan daginn.

Fór upp á Valhúsahæðina og naut víðáttunnar, sem sést frá hinni “litlu og lágu”. Glaðvær hróp bárust frá Plútóbrekkunni.

22.1. SUNNUDAGUR

Yndislega fallegt, sólríkt og stillt fram yfir hádegi. En þá dimmdi yfir og fór að snjóa. Gekk svo á með köflum.

Brugðum okkur upp í hesthús og sáum þar inn um glugga aðeins 5 hesta í eigu Svavars. Lykill var frosinn og brotinn í skránni, svo að við komumst ekki inn. Til stóð að kalla til lásasmið svo að hægt yrði að sinna hestunum. Lítið fjör í hesthúsinu. Í fyrra tókst okkur ekki að sækja okkar hesta fyrr en í lok mars vegna fannfergis og hálku. Vonandi gengur það betur í ár.

Okkar menn stóðu sig vel í EM í dag. Unnu Ungverjana 27-21. Spiluðu af miklum krafti og sýndu snilldar takta.

Á flughálum klaka

JANÚARDAGAR 2012

8.1. SUNNUDAGUR

Rigning og æðibuna mestallan daginn. Reyndar ekki mjög hvasst, takk fyrir það.

Hálfur dagurinn fór í tiltekt eftir hátíðirnar, ég geymi það alltaf fram yfir afmælisdag Dóru til að spilla ekki þeim merkisdegi. Þetta er heilmikið verk, tína allt skrautið af jólatrénu og svona hér og þar, raða dótinu í kassana, sópa upp barrnálarnar, strjúka yfir gólfin og færa húsgögnin til og frá. Pétur gegnir erfiðustu verkunum (að minnsta kosti legg ég ekki í þau), ganga frá öllu varðandi jólaljósin, koma loftljósinu á sinn stað og koma blessuðu jólatrénu til hvíldar.

9.1. MÁNUDAGUR

Engin vonska í veðrinu fram eftir degi, en hríðin lét öðru hverju til sín segja og spillti þar með fuglunum, sem voru að tína upp í sig um miðjan daginn. Veðrið fer versnandi nú að kvöldinu og spáð vonskuveðri í nótt og á morgun, hvað svo sem það gengur lengi. Bílar eru fastir hér og þar um landið, afar slæmt t.d. á Hellisheiði og í Þrengslum vegna ófærðar og slæms skyggnis. Og ekki bætir flugháll klakinn. Björgunarsveitir frá Reykjavík, Hveragerði og Þorlákshöfn eru til taks á heiðunum. Ekki veitir víst af, og svo mun vera víða um land.

10.1. ÞRIÐJUDAGUR

Slæmt veður í dag, hvasst og kalt, él, skafrenningur o.s.frv. Erfitt færi víða og jafnvel á mörgum stöðum gjörsamlega ófært. Veðurguðirnir leyfa fuglunum “mínum” ekki einu sinni að éta allt góðgætið sem ég gef þeim. Snjófjúkið þyrlast yfir garðinn og kaffærir fuglamatinn.

11.1. MIÐVIKUDAGUR

Rólyndis veður í dag. Engin úrkoma fyrr en að kvöldi. Hitastigið við frostmark.

Gaman var að geta gefið fuglunum almennilega í friði fyrir vindi og éljagangi. Garðurinn var þéttsetinn og mikið um að vera.

Fékk loks í dag röskan og þægilegan Pólverja, Tómas, sem tók að sér að lagfæra klósettin báðum megin í húsinu. Veitti ekki af og Tómas gerði vel. Ekki laust við að sitthvað þurfi að laga í okkar góða húsi, sem er orðið 38 ára gamalt!

12.1. FIMMTUDAGUR

Allgott veður í dag, úrkomulaust fram að kvöldi.

Aldeilis gaman að gefa fuglunum í dag. Þrestirnir fylgdust með, meðan ég stappaði snjóinn niður og dreifði brauði, eplum og fuglakorni. Þeir biðu svo ekki boðanna, þegar þeir sáu að allt var klárt, og hófu máltíðina áður en ég var komin inn fyrir. Ég meira að segja staldraði við og spjallaði ögn við þá. Þrestirnir eru orðnir nokkuð öruggir gagnvart mér.

13.1. FÖSTUDAGUR

Hiti mældist mest 6° í dag. Snjórinn flýr smátt og smátt, en harðfrosin hálkan er erfið. Mikið rigndi.

“Trúir þú á töfra?” spyr Vigdís Grímsdóttir í nýjustu bók sinni. Hún fékk mikla aðdáun þeirra sem telja sig dómbæra á vel gerðar bækur. Ég varð fyrir vonbrigðum. Vissulega athyglisverð lesning, en mér fannst þetta langdregið og hálfgert bull.

Þá var nú “jójó”, bók Steinunnar Sigurðardóttur, betri. Vel skrifuð, skemmtileg, sorgleg, hrífandi, áhrifamikil.

14.1. LAUGARDAGUR

Dynjandi rigningin vakti mig síðla nætur. Hún hélt áfram að vinna sitt verk fram eftir degi og snjórinn minnkar æ meira. Enn þarf að gæta sín á flughálum klakanum, en nú er hægt að brjóta hann niður og gera auðveldara að fara um. Það snjóaði pent og ósköp fallega um miðjan daginn.

Kári í jötunmóð

JANÚARDAGAR 2012

1.1. SUNNUDAGUR

Áfram bítur kuldinn, en úti er fallegt og fuglarnir eru ánægðir með matinn sem þeir fá í garði okkar.

Hingað komu allir okkar nánustu nema fólkið í Skildinganesi, sem var í veislu hjá foreldrum Sigrúnar þar sem haldið var upp á silfurbrúðkaup. Heimafólk hér hjálpaðist að við hangikjöt og kartöflustöppu, hnetusteik og sitt hvað fleira. Allt frábærlega gott. Enginn fór svangur frá borði og við sátum lengi og skemmtum okkur saman.

2.1. MÁNUDAGUR

Ekki hlýnaði þennan daginn og tók langan tíma að skafa frostið af rúðum bíla.

Fengum gæs í heimsókn. Hún beið sallaróleg hér framan við gluggann og fékk sér öðru hverju sæti. Pétur gaukaði að henni hörðu brauði og ég seinna mjúku brauði, en ekki varð séð að hún gerði mun á gjöfum þeim.

3.1. ÞRIÐJUDAGUR

Skíðafólk er harla ánægt með snjóinn og frostið og streymir í Bláfjöllin. Það má búast við að njóta þess næstu daga. Ég skil gleði þeirra, en vorkenni hestum og fuglum þegar frost og harður vindur þýtur.

4.1. MIÐVIKUDAGUR

Frostið fór í -7° í dag og búist við svipuðum kulda á morgun. Kári er sem sagt í jötunmóð.

Fuglarnir létu lítið á sér bera í dag, kannski voru þeir hræddir við skothvellina frá strákunum, sem eru farnir að búa sig undir Þrettándann.

5.1. FIMMTUDAGUR

Ekki alveg eins kalt og í gær og vindur hóflegur.

6.1. FÖSTUDAGUR – ÞRETTÁNDINN

Veður ágætt með köflum en líka rigning með köflum, sem var ekki alveg jafn ágætt.

Við höfðum afmælismat í kvöld. Dóra á afmæli á morgun, en Þrettándinn hentaði betur. Frábært hangikjöt með kartöflustöppu og grænum baunum og auðvitað laufabrauðinu ómissandi. Sindri og Breki voru að sjálfsögðu mættir til mömmu sinnar í tilefni dagsins og spiluðu við mömmu sína og Pétur fram eftir nóttu! Þetta fólk kann að skemmta sér.

7.1. LAUGARDAGUR

Ágætt veður, frekar stillt og sæmilega hlýtt. Gríðarleg hálka er og féllu æði margir og brutu úlnliði eða ökla á þessum degi.

Og nú er hinn rétti afmælisdagur. Dóra fæddist kl. 7:45 að morgni 7.1.1974 á Fæðingarheimilinu og er því nú orðin 38 ára.

Ég má til með að stela af henni góðum brandara (sem hún er sjálfsagt búin að dreifa til vinahópsins á fésbók sinni): Einar er inn í herberginu sínu þegar mamma hans kallar í hann: Einar!..Einar.. viltu heita brauðsneið?? …smá þögn..”Nei…ég vil bara heita Einar”. (Svona nokkuð þarf maður að geyma!)

Hvít jól og áramót í frosti og fjúk

DESEMBERDAGAR 2011

24.12. LAUGARDAGUR – AÐFANGADAGUR

Úfinn var veðurguðinn þennan daginn. Hvassviðri og snjókoma með köflum. Ekki þó verst hér um slóðir. Engin vandræði að njóta dagsins og sérstaklega kvöldsins. Áttum hér góðar stundir með okkar fólki, nema að nú vantaði Pálma, Sigrúnu, Heru, Auði, Kristínu og Áslaugu, sem fannst það mikil tilbreyting að halda jólin á Kaldbak.

Við Jónas munum aldrei að við eigum brúðkaupsdag á þessum merkisdegi. En þennan dag munum við hins vegar vel að þriðji sonur okkar, hann Pétur, kom í heiminn á aðfangadaginn árið 1970. Það var mikill merkisdagur.

25.12. SUNNUDAGUR – JÓLADAGUR

Við Svana höfum lengi haft þann vana að bjóða til skiptis upp á jólakaffi á sjálfan jóladaginn. Alveg ómissandi samkoma. Arnhildur býður nú orðið liðinu í sitt hús svo að hópurinn komist nú áreiðanlega fyrir. Það er svo gaman að hitta fólkið, sérstaklega ungviðið, sem breytist frá einu ári til annars og sýnir nýja takta og skemmtilegheit. Það var gaman hjá okkur, en vissulega söknuðum við hópnum hans Pálma og hópnum hans Óttars, sem var erlendis með konu og synina tvo. En þau misstu af sýningu Breka, sem nú æfir af kappi galdrabrögð, og þótti viðstöddum gaman að.

26.12. MÁNUDAGUR – ANNAR Í JÓLUM

Rólegur og góður dagur. Á slíkum degi gefst tími til að líta á bækurnar sem komu úr jólapökkunum. Er að lesa Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur og líst vel á.

Pálmi og Sigrún sinna hestunum á Kaldbak og veitir ekki af í kuldanum. Þeim líst ekki alveg á aumingja Kára, sem er orðin 25 ára og hefði kannski átt að fella síðasta haust. Aðalmálið er að hestarnir fái nóg að éta, og Pálmi og Sigrún sjá um það af miklum dugnaði.

27.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki afleitt veðrið, en hálka er mikil. Fordinn neitar alveg að hreyfa sig, sem er vafalaust skynsamlegt í fljúgandi hálkunni.

Pálmi og Sigrún gáfu hestunum tvær rúllur og við afar fegin því. Hera þurfti að koma sér heim því vinnan bíður. Gekk vel hjá henni þrátt fyrir hálkuna.

28.12. MIÐVIKUDAGUR

Við Jónas, Dóra, Sindri og Breki fórum upp á Kaldbak og mættum Pálma með sitt fólk á heimleið. Veður var fallegt og gott. Pallurinn var þakinn snjótittlingum, sem voru að gæða sér á ljúffengum afgöngum.

Gaman að koma á Kaldbak. Dóra og strákarnir sáu um matinn og spöruðu ekki góðgætið. Svo spiluðum við Kana og skemmtum okkur vel.

29.12. FIMMTUDAGUR

Heldur var þyngra í veðurguðunum í dag. Nokkuð hafði snjóað í nótt og öðru hverju að deginum. Dóra, Sindri og Breki skemmtu sér lengi vel í snjónum.

Fórum að sinna hestunum og gefa þeim mola, sem þeir eru allir afar hrifnir af. Ég hafði miklar áhyggjur af Kára, en hann bar sig betur en ég óttaðist. Hann var orðin því sem næst laus við klakahrönglin, og flestir hestanna eru með slík hröngl. En öll virðast þau bara vel í holdum, sæmilega feit og borubrött. Vonandi batnar veðrið áður en langt um líður.

30.12. FÖSTUDAGUR

Ekki var útlitið gott þegar við vorum að búa okkur til brottferðar fram eftir degi. Ævar kom upp úr hádeginu til þess að færa hestunum heyrúllur og höfðum við reiknað með að samfylgd Ævars fleytti okkur rétta leið. En þá hafði veðrið versnað, var orðið talsvert hvasst og hríðarhraglandi. Skaflar voru orðnir miklir og viðsjálir. Jónas hringdi í björgunaraðstoð á Flúðum og veitti ekki af þeirri aðstoð. Þeir reyndust okkur vel, enda þaulvanir. Við hefðum ekki komist leiðina okkar frá Kaldbak að Þverspyrnu án þeirra.

31.12. LAUGARDAGUR – GAMLÁRSDAGUR

Sæmilegt veður, mikil hálka, svolítil rigning öðru hverju, hiti yfir frostmark.

Hér var fámennt að þessu sinni. Við Jónas og Dóra sátum hér ein að snæðingi um kvöldið. Sindri og Breki voru með pabba sínum og bræðrum hans, og Pétur og Marcela voru í afmælisveislu hjá Gauta, sem er 40 ára í dag. Ekki vantaði raketturnar og ljósadýrðina meira og minna allt kvöldið, en dýrðin sú hvarf að mestu í mistur og mengun um miðnættið.

Þetta er býsna ólíkt því sem við sveitafólkið í Reykjadalnum nutum áramóta í mínum ungdómi. Við mamma vorum oft tvær einar á áramótum, snæddum lambalæri og hlustuðum á útvarpið. Þar var oftast boðið upp á gamanþætti og mikla tónlist. Og þegar klukkan sló og boðaði nýtt ár var allt með hátíðarbrag. Ég horfði á tunglið og dýrð himins, ef veðrið var gott, og velti fyrir mér því sem gerðist eftirminnilegast á árinu sem var að kveðja. Flugelda sá ég ekki fyrr en ég komin var á þrítugsaldurinn.

Laufabrauðið ómissandi

DESEMBERDAGAR 2011

8.12. FIMMTUDAGUR

Frost mældist mest -5° í dag. Talsverð snjókoma var í morgun, einmitt þegar Jónas ók með Dóru í flughöfnina. Hún verður í nokkra daga í Belgíu, kemur aftur heim fyrir jólin.

Fuglarnir komu seint í matinn sinn, ég var farin að halda að þeir vildu bara kúra í einhverri holunni. En svo komu þessir venjulegu, svartþrösturinn, skógarþrösturinn og músarrindillinn. Alltaf gaman að fylgjast með þeim.

9.12. FÖSTUDAGUR

Frostið mældist mest -7° í dag. Kaldara er í Hrunamannahreppi, þar er kuldinn víðast hvar -10° og nokkru hvassara en hér um slóðir. Hestarnir taka því með rósemi.

Við hjónakornin fengum okkur gott að borða í hádeginu. Fannst tilefni til að gleðjast yfir umfjöllun Páls Baldvins Baldvinssonar um bók Jónasar í Fréttatímanum í dag. Páll gefur Þúsund og einni þjóðleið fimm stjörnur og segir furðu sæta að bókin skuli ekki vera tilnefnd til Bókmenntaverðlauna. Ekki held ég Jónas telji það skipta máli, heldur að sem flestir átti sig á því að “..þar er færð fram þekking á reiðleiðum um landið sem hér hefur safnast upp á þúsund árum”, svo að vitnað sé til orða Páls.

Ævintýrablær var yfir himni og jörð þegar leið á daginn. Grillti vart í ský á himni, fullur máni bar sig glæsilega yfir Esjunni, ljósin glitruðu frá einu húsi til annars og jólaljós á ljósastaurum. Dýrðlegt umhverfi, þótt kalt sé úti.

10.12. LAUGARDAGUR

Kalt og talsverður vindur. Úrkoma og fjúk öðru hverju. Frost var mest -7°, en minnkaði allt niður í -2° þegar leið að kvöldi.

Þótt kalt væri úti var hlýtt og fjörugt í kotinu. Hingað kom stórfjölskyldan í laufabrauðsgerð, sem á þessum bæ þykir ómissandi. Þriggja var saknað, Pálmi önnum kafinn við rafmagnsviðgerðir, Hera í nýju vinnunni sinni í móttökunni á Hótel Holti, og Dóra í Brüssel að ganga frá ýmsu. Öll hin kepptust við útskurðinn í laufabrauðið. Sérlega gaman hvað allir krakkarnir eru orðnir duglegir að skera út og gera það vel. Boðið var upp á pítsur að loknum útskurði og steikingu, og allt stússið tók ekki meira en fjóra tíma! Voru þó laufabrauðsstaflarnir myndarlegir.

11.12. SUNNUDAGUR

Frábært veður, fallegt og stillt. Ók um á gamla góða Fordinum, sem kvartar ekki bofs yfir frostinu. Fór svo í góða gönguferð meðfram sjónum þar sem fuglar léku sér á bárunum og rósrauð skýin nutu sólarinnar. Svona mætti vetrarveðrið oftar vera.

Nú virðist farið að lifna aðeins yfir Fornuströnd 1, a.m.k. eru komin jólaljós í glugga. Nýju eigendurnir tóku við húsinu í byrjun september og síðan hefur verið borað og barið með miklum látum. Aðallega hefur verið unnið að breytingum í kjallaranum. Þar á að verða hljóðver fyrir húsfreyjuna, söngkonu frá Danmörku.

12.12. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Frekar lítill vindur og hiti mældist mest 1°.

Mikið fjör í garðinum, svartþrestir, skógarþrestir og snjótittlingar. Svartþrestirnir reyndu að hrekja hina í burtu, en snjótittlingarnir eru léttir og snöggir og létu þrestina ekki hafa af sér matinn.

13.12. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður fram eftir degi. Síðan kólnaði og frysti að kvöldi.

14.12. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag, svolítið hvasst í morgun, en svo bara gott. Frost mældist mest -2°.

Snjótittlingarnir tístu út í garði áður en birti almennilega. Dreifði brauði í matarolíu, korni og eplum, og ekki skorti kostgangarana. Ótrúlega gaman að fylgjast með þeim.

15.12. FIMMTUDAGUR

Svipað veður og verið hefur. Frostið mældist mest -3°.

Jólabækurnar skipta alltaf miklu máli, og í þetta sinn eru margar góðar bækur á boðstólum. Nú hefur verið tilkynnt um bestu bækurnar að mati bóksala. Þar eru valdar þrjár bestu bækurnar í sjö flokkum, m.a. í flokki hand- og fræðibóka. Og viti menn, Þúsund og ein þjóðleið fékk efsta sætið í þeim flokki! Enn ein viðurkenning Jónasar fyrir þessa bók.

Laufabrauðið ómissandi

DESEMBERDAGAR 2011

8.12. FIMMTUDAGUR

Frost mældist mest -5° í dag. Talsverð snjókoma var í morgun, einmitt þegar Jónas ók með Dóru í flughöfnina. Hún verður í nokkra daga í Belgíu, kemur aftur heim fyrir jólin.

Fuglarnir komu seint í matinn sinn, ég var farin að halda að þeir vildu bara kúra í einhverri holunni. En svo komu þessir venjulegu, svartþrösturinn, skógarþrösturinn og músarrindillinn. Alltaf gaman að fylgjast með þeim.

9.12. FÖSTUDAGUR

Frostið mældist mest -7° í dag. Kaldara er í Hrunamannahreppi, þar er kuldinn víðast hvar -10° og nokkru hvassara en hér um slóðir. Hestarnir taka því með rósemi.

Við hjónakornin fengum okkur gott að borða í hádeginu. Fannst tilefni til að gleðjast yfir umfjöllun Páls Baldvins Baldvinssonar um bók Jónasar í Fréttatímanum í dag. Páll gefur Þúsund og einni þjóðleið fimm stjörnur og segir furðu sæta að bókin skuli ekki vera tilnefnd til Bókmenntaverðlauna. Ekki held ég Jónas telji það skipta máli, heldur að sem flestir átti sig á því að “..þar er færð fram þekking á reiðleiðum um landið sem hér hefur safnast upp á þúsund árum”, svo að vitnað sé til orða Páls.

Ævintýrablær var yfir himni og jörð þegar leið á daginn. Grillti vart í ský á himni, fullur máni bar sig glæsilega yfir Esjunni, ljósin glitruðu frá einu húsi til annars og jólaljós á ljósastaurum. Dýrðlegt umhverfi, þótt kalt sé úti.

10.12. LAUGARDAGUR

Kalt og talsverður vindur. Úrkoma og fjúk öðru hverju. Frost var mest -7°, en minnkaði allt niður í -2° þegar leið að kvöldi.

Þótt kalt væri úti var hlýtt og fjörugt í kotinu. Hingað kom stórfjölskyldan í laufabrauðsgerð, sem á þessum bæ þykir ómissandi. Þriggja var saknað, Pálmi önnum kafinn við rafmagnsviðgerðir, Hera í nýju vinnunni sinni í móttökunni á Hótel Holti, og Dóra í Brüssel að ganga frá ýmsu. Öll hin kepptust við útskurðinn í laufabrauðið. Sérlega gaman hvað allir krakkarnir eru orðnir duglegir að skera út og gera það vel. Boðið var upp á pítsur að loknum útskurði og steikingu, og allt stússið tók ekki meira en fjóra tíma! Voru þó laufabrauðsstaflarnir myndarlegir.

11.12. SUNNUDAGUR

Frábært veður, fallegt og stillt. Ók um á gamla góða Fordinum, sem kvartar ekki bofs yfir frostinu. Fór svo í góða gönguferð meðfram sjónum þar sem fuglar léku sér á bárunum og rósrauð skýin nutu sólarinnar. Svona mætti vetrarveðrið oftar vera.

Nú virðist farið að lifna aðeins yfir Fornuströnd 1, a.m.k. eru komin jólaljós í glugga. Nýju eigendurnir tóku við húsinu í byrjun september og síðan hefur verið borað og barið með miklum látum. Aðallega hefur verið unnið að breytingum í kjallaranum. Þar á að verða hljóðver fyrir húsfreyjuna, söngkonu frá Danmörku.

12.12. MÁNUDAGUR

Sæmilegt veður í dag. Frekar lítill vindur og hiti mældist mest 1°.

Mikið fjör í garðinum, svartþrestir, skógarþrestir og snjótittlingar. Svartþrestirnir reyndu að hrekja hina í burtu, en snjótittlingarnir eru léttir og snöggir og létu þrestina ekki hafa af sér matinn.

13.12. ÞRIÐJUDAGUR

Þokkalegt veður fram eftir degi. Síðan kólnaði og frysti að kvöldi.

14.12. MIÐVIKUDAGUR

Ágætt veður í dag, svolítið hvasst í morgun, en svo bara gott. Frost mældist mest -2°.

Snjótittlingarnir tístu út í garði áður en birti almennilega. Dreifði brauði í matarolíu, korni og eplum, og ekki skorti kostgangarana. Ótrúlega gaman að fylgjast með þeim.

15.12. FIMMTUDAGUR

Svipað veður og verið hefur. Frostið mældist mest -3°.

Jólabækurnar skipta alltaf miklu máli, og í þetta sinn eru margar góðar bækur á boðstólum. Nú hefur verið tilkynnt um bestu bækurnar að mati bóksala. Þar eru valdar þrjár bestu bækurnar í sjö flokkum, m.a. í flokki hand- og fræðibóka. Og viti menn, Þúsund og ein þjóðleið fékk efsta sætið í þeim flokki! Enn ein viðurkenning Jónasar fyrir þessa bók.

Eplaveisla í garðinum

DESEMBERDAGAR 2011

1.12. FIMMTUDAGUR

Í dag er fullveldisdagurinn mikli, sem fæstir halda upp á nema helst háskólafólk. Talsverð snjókoma hefur verið í nótt og él öðru hverju í dag. Engin vonska þó í veðrinu. Frost hefur mælst um -°3.

Kom eplum fyrir á gamla góða staðnum hér úti og varð harla kát þegar nokkrir þrestir komu að bragða. Músarrindillinn virðist hafa hreiðrað um sig einhvers staðar rétt hjá og ég skemmti mér við að fylgjast með honum. Hann lítur ekki við eplum, lifir aðallega á skordýrum og virðist laginn við að ná sér í fæðu.

Hef óneitanlega áhyggjur af hestunum á Kaldbak. Þar er lítið að hafa úr snjónum, en sem betur fer fá þeir hey á morgun og ef erfitt er orðið að ná í vatn kemur snjórinn þar að einhverju leiti í stað lækjarvatns.

2.12. FÖSTUDAGUR

Fallegur dagur og stilltur. Mest frost mælist -4° hér í suðvestrinu. Það er kaldara á Kaldbak og þar um kring, -6° til -8° frost. Mjög hált á vegum.

Ævar fór austur í morgun og gaf hestunum tvær rúllur. Höfðu krafsað mikið í jörð og gátu náð sér í einhver strá. Þeir fá meira að vinsa úr næstu daga.

Þrestirnir hafa áttað sig á gjafmildi minni hér, gogga í eplin af mikilli list. Svartþrestirnir telja sér bera heldur meira af þessu góðgæti, hinir sæta lagi þegar færi gefst. Og viti maður, ég hreinlega hitti vin minn músarrindilinn í dag. Hann var ekkert smeikur og ég hef aldrei séð músarrindil jafn nálægt mér.

3.12. LAUGARDAGUR

Enn er fagurt úti og engin læti í veðrinu, engin úrkoma og kátt í Plútóbrekkunni. Frostið mældist mest -4° í dag.

4.12. SUNNUDAGUR

Svipað veður og undanfarna daga, nokkuð þó þungbúið þennan daginn, en engin úrkoma. Undir kvöldið var frostið komið í -6°.

Fer lítið á Fordinum mínum í hálkunni, enda er hann á sumardekkjum. Viðra hann þó daglega eins og aðrir sinna hundum sínum. Málið er að Fordinn verði ekki rafmagnslaus í frostinu.

5.12. MÁNUDAGUR

Sólin kom upp kl. 11:10. Frost -10° um hádegisbil. Veitir ekki af meiri hita á heimilinu. Keypti nokkuð góðan ofn sem kemur sér vel.

Þórður og Sólrún komu í bridds. Mér tókst að gera reginvitleysu og ætlaði varla að ná mér eftir skandalann. Allt fór samt vel að lokum.

6.12. ÞRIÐJUDAGUR

Ekki er hægt að lofa neitt góðviðri um þessar mundir. Það er kalt og dálítill vindur. Frostið var mest -6°. Það er harla lítið miðað við Mývatnssveit. Þar er frostið -27,3°.

Fyndnir eru fuglarnir “mínir”, – svartþrösturinn kúrir sig mikið í gljámisplinum þegar hann er búinn að seðja sig. Ef hann fer frá, laumast hinir þrestirnir í krásirnar, en svartþrösturinn þykist ráða yfir eplagjöfunum og kemur til að passa upp á góðgætið. Þarf greinilega að útbúa fleiri matarborð.

Dóra og synir bjuggu til öndvegis mat í kvöld. Ég þyrfti líklega að læra ögn meira í matreiðslu.

7.12. MIÐVIKUDAGUR

Engin úrkoma og frekar stillt veður, en kalt er það. Frost mældist mest -7°.