MARSDAGAR 2012
15.3. FIMMTUDAGUR
Frábært veður, sólskin allan daginn, lítill vindur. Mestur hiti mældist 2°.
16.3. FÖSTUDAGUR
Talsvert fjör í veðrinu. Öðru hverju var haglél eða þétt snjódrífa, en inn á milli skein sól í heiði. Hiti fór upp í 2°, en var eins oft um frostmark.
Við leitum nú að hestum, því sumir hesta okkar eru farnir að eldast og þreytast og eiga skilið senn hvað líður að hafa það náðugt. Skoðuðum einn átta vetra í dag, sem okkur líst vel á. Aðstaðan hefði mátt vera betri, því auðvitað lentum við í mikilli snjódrífu. Hesturinn þekkti sig heldur ekki í Víðidalnum og var hálf ruglaður. Við prófum hann við betri skilyrði.
17.3. LAUGARDAGUR
Ekki var nú beinlínis blíða þennan daginn. Lengst af mátti þó njóta sólar þótt kalt væri. Frost mældist mest -3°.
Við Jónas fórum upp á Kaldbak að líta á hestana okkar, Prúð, Kára og Garp. Þeir eru þarna með hestum Ævars og fjölskyldu og virðast í ágætu formi þrátt fyrir kulda og rysjótt veðurfar. Heimsóttum því næst húsráðendur í Holtsmúla, sem höfðu boðið okkur að líta á gæfulegan hest. Við féllum fyrir hestinum, sem Dugur nefnist, og hlökkum til að kynnast honum betur.
18.3. SUNNUDAGUR
Óttaleg læti í veðrinu. Hvasst og kalt, frost mældist -3° í dag, en um kvöldið var það komið um frostmark. Nú er blindbylur og mikill skafrenningur.
Merkilegt hvað vetrargosinn spjarar sig í frostinu.
19.3. MÁNUDAGUR
Nú hefur hlýnað, en það hefur verið hvasst og mikil rigning með köflum í allan dag. Ég brá mér á bak Stormi, en áttaði mig fljótt á því að ekki var veður til þess arna. Stormur minn kann ekki vel að meta storm! Hann var feginn að snúa aftur í hús.
20.3. ÞRIÐJUDAGUR
Þokkalegt veður í dag, þótt rigningin kæmi við sögu öðru hverju. Heldur hvessti þegar leið á daginn. Mestur hiti 5°.
Nú gátum við kynnst betur hestinum sem við prófuðum á föstudaginn var. Álitlegur hestur af góðum ættum, sem heitir því skemmtilega nafni Breki. Fórum hringinn um Rauðavatn ásamt Gauk og vorum ánægð með reiðtúrinn. Líklegt að Breki komi í hópinn.
Gladdi mig að sjá tjaldur trítla um sjáfarbakka hér rétt neðan Fornustrandar í morgun. Fyrir mér veit það á vorið fyrr en varir.
21.3. MIÐVIKUDAGUR
Sæmilegt veður, en dálítið var kalt í vindinum. Lítils háttar úrkoma. Mestur hiti mældist 3°.
Gaukur er ennþá alveg ótrúlega loðinn á skrokkinn eins og hvítabjörn. Ég eyði miklum tíma í að ná af honum lubbanum, sem mundi hæglega duga í sængurver að þessu loknu. Blessaður kallinn stendur grafkyrr meðan ég bursta og reyti og plokka.
22.3. FIMMTUDAGUR
Nær stanslaus rigning í dag og talsverður vindur. Mestur hiti var 7° og bara ágætt að vera úti. Hestarnir voru hressir í rigningunni og skemmtilega sprettharðir á heimleiðinni.