APRÍLDAGAR 2012
8.4. PÁSKASUNNUDAGUR
Sæmilegt veður, m.a.s. sólskin góðan hluta dagsins.
Hangikjöt, kartöflustappa og baunir, hnetusteik með sólberjasósu, og að sjálfsögðu páskaegg handa öllum. Það vantaði aðeins Auði, Pétur og Marcelu í stórfjölskylduna. Það var glatt á hjalla á Fornuströndinni fram eftir kvöldi. Kristín og Áslaug sátu lengst af með kisurnar, Snældu og Sneplu, og eiga áreiðanlega eftir að heimsækja þessar sætu kisur þeirra Sindra og Breka.
9.4. MÁNUDAGUR
Fínt veður í dag. Sólskin mest allan daginn. Mestur hiti 7°. Og páskaliljurnar opna sig hver eftir annarri.
Sindri Snær er 14 ára í dag, þessi stóri piltur. Gnæfir m.a.s. yfir ömmu sína
Dugur og Breki eru betri með hverjum degi. Dugur virðist ætla að taka fljótt við sér. Jónasi gengur betur að stjórna honum, ég er ekki með nógu sterkar hendur, en það kemur vonandi. Breki er léttur og þægilegur.
10.4. ÞRIÐJUDAGUR
Nokkuð gott veður, en dálítið hvasst. Mestur hiti mældist 8°, og sólin skein. Um kvöldið rigndi.
Halldór heitir ungur maður, einn þeirra sem sinnir hestum í hesthúsinu í Faxabóli. Hann er laginn við hesta og hefur tekið að sér að athuga og prófa hestana okkar. Hann leiðbeinir okkur ef honum finnst við megum gera betur. Hann hefur prófað Gauk og Storm og var ánægður með þá. Ekki var ég hissa á því, en það er alltaf gaman að fá góða umsögn.
11.4. MIÐVIKUDAGUR
Veðrið hefði mátt vera betra. Það var frekar hvasst og rigndi talsvert. Mestur hiti var 4°.
Halldór prófaði Dug og Breka í dag og leist mjög vel á þá báða. Dugur þarf góða meðhöndlun meðan hann er að venjast umhverfinu og hinum hestana.
12.4. FIMMTUDAGUR
Gott veður í dag. Mestur hiti 6°. Og ekki er verra að fuglarnir kvaka og syngja, eru alveg komnir í vorstemninguna.
Fór þrjár ferðir kringum Rauðavatn, á Breka, Gauki og Stormi. Allir í góðu formi, hvort sem þetta ágæta veður hafði þessi góðu áhrif. En þeir eru reyndar allir góðir.
13.4. FÖSTUDAGUR
Ágætis veður þótt ögn hafi kólnað hér. Það er kaldara fyrir norðan og austan, þar er nú frost, en verður vonandi orðið notalegra á sumardaginn fyrsta.
Fórum tvisvar reiðtúra um Rauðhólana, skemmtilegustu leiðina. Breki gerði mér aldeilis bilt við á heimleiðinni, tók allt í einu viðbragð og hentist með mig drjúgan spöl, án þess að ég gæti að gert. Kannski var hann orðinn leiður á stjórnsemi minni. Hann er afar mjúkur og góður hestur, en á það til að hoppa svolítið, og ég þykist vera að laga það. Þarf sennilega að fara varlega í þetta.
14.4. LAUGARDAGUR
Kvöldið er fagurt. Sólin skín á svo til heiðbjörtum himni og roðar bæði fjöll og sjó. Ekki var dýrðin jafn mikilfengleg fyrr um daginn. Ekki sást þá sólin, og rigningin lét öðru hverju á sér bera. En það er ekki þörf að kvarta.