Sólin gerir sitt besta

FEBRÚARDAGAR 2014

15.2. MIÐVIKUDAGUR

Sól og regn skiptu veðurfari dagsins kurteislega sín á milli. Kl. sex í morgun var hitinn 6°, en hann minnkaði smám saman og frostmarkið er nálægt.

16.2. FIMMTUDAGUR

Veður var við frostmark þennan daginn. Öðru hverju kom snjóbylur, og inn á milli skein sól.

Við gáfum hestunum frí, nenntum ekki að giska á hvenær éljagangurinn riði yfir okkur. Eins gott, því okkar ágætu vinir, Ævar og Lóa, birtust einmitt á réttum tíma til að spjalla á kaffistofunni. Eins og nærri má geta snerist spjallið mest um hesta

17.2. FÖSTUDAGUR

Í dag var allt svo fallega hvítt, og sólin skein. Vindurinn var ekki með nein læti og kuldinn beit ekki þrátt fyrir frostið, sem mældist mest -5°. Við riðum áleiðis inn í Heiðmörk. Snjórinn glitraði á trjánum. Sólin og snjórinn sáu um dýrðina. Frábær dagur.

Marsela, sem heitir reyndar fullu nafni Miriam Pacheco Velasques, á afmæli í dag.

18.2. LAUGARDAGUR

Heldur hráslagalegra var í dag en í gær. Vindurinn var napur og sólin komst lítið að. Mest frost mældist -7°. Fórum stutta reiðtúra í kuldanum.

Fuglarnir biðu eftir matnum fyrir hádegi, og fjórir þrestir hófu máltíðina meðan ég var enn að gefa þeim. Og nú birtust loksins snjótittlingar aftur í garðinum, enda allt snjóhvítt og lítinn mat að hafa.

19.2. SUNNUDAGUR

Ekki skorti rigninguna í dag, og sést nú lítið af fannhvíta snjónum. Mestur hiti mældist 4°.

20.2. MÁNUDAGUR

Ljómandi veður í dag. Sólin gerði sitt besta og vindurinn var frekar stilltur. Hitastigið fór ekki hátt, komst aldrei hærra en 1°, var svo komið niður fyrir frostmark í kvöld.

Hef ekki stundað sund síðan í nóvember og var farin að halda að ég væri orðin ga ga! Fékk allt í einu kast og hentist í Neslaugina ómissandi. Hún tók einkar vel á móti mér. Sama er að segja um þau sem ég kannast við eftir margra ára laugaferðir. Töldu sig hafa saknað mín.

21.2. ÞRIÐJUDAGUR

Hrollkalt í morgun, en lagaðist með deginum. Lítils háttar úrkoma. Mest mældist hitinn 5°.

Fátt var um fugla á Bakkatjörn, þegar ég gáði að í morgun. Þar voru aðeins svanir, sautján talsins.