APRÍLDAGAR 2012
15.4. SUNNUDAGUR
Fallegt veður frá morgni til kvölds. Sólin skein, en svolítið var hvasst. Mestur hiti mældist 7°.
Fermingarveislur eru nú í algleymingi. Við Svana fórum saman í eina slíka í dag. Veislan var að Skógarflöt 25 á Akranesi, þar sem Rún og Reynir búa með sonum sínum þremur, Halldóri, Páma og Erlendi. Sá síðastnefndi fermdist borgaralega í Háskólabíó í dag. Margt fólk kom að gleðjast með fjölskyldunni og vantaði ekki kræsingar á borðum. Skemmtileg veisla og gaman að hitta fólkið.
16.4. MÁNUDAGUR
Veðrið var fallegt, en óþægilega hvasst allan daginn. Að öðru leiti var veðrið ágætt. Hitinn mældist mest 8°.
17.4. ÞRIÐJUDAGUR
Mestur hiti 5° í dag. Ha, getur það verið? Veðrið var gott í allan dag, sólin skein frá morgni til kvölds, og ekki angraði blástur né kalsi. Hefði haldið að hitinn hefði orðið a.m.k. 8° um miðjan daginn. En Veðurstofan ræður.
Svona veður skiptir svo miklu. Ég safnaði saman klipptu greinunum af víðirunnunum og trjánum og kom þessu öllu í Sorpu. Tók skorpu við þrif og þvott. Svona getur góða veðrið haft mikið áhrif.
Fór tvær ferðir um Rauðhólana. Frábær dagur.
18.4. MIÐVIKUDAGUR
Kaldara var í dag, en þó ágætt veður. Hitinn náði 5° um miðjan daginn. Himininn nánast heiður að kvöldi. Gæti orðið frost í nótt.
19.4. FIMMTUDAGUR – SUMARDAGURINN FYRSTI
Svona á sumardagurinn fyrsti að vera! Fallegt veður, sól og sæmilega hlýtt. Mestur hiti mældist 7°. Létt yfir mannskapnum og margt á boðstólnum í tilefni dagsins.
20.4. FÖSTURDAGUR
Ágætis veður, sólskin og ekkert of hvasst. Mestur hiti 6°.
Það er einkar líflegt og skemmtilegt í reiðtúrunum þegar vorið ræður ríkjum. Það er urmull af smáfuglum út um allt. Þeir tísta í trjánum og syngja af gleði. Lóan kveður ljóðin sín og hrossagaukurinn lætur til sín heyra, en lætur ekki svo glatt láta vita hvar hann er að pukrast.
21.4. LAUGARDAGUR
Fallegt veður, en kalt í lofti.
Við Sindri vorum á sprettinum frá því snemma morguns. Undirbúningur og æfingar fyrir borgaralega fermingu 26 unglinga í Salnum í Kópavogi. Eftir það allt saman var næsti sprettur í Mosfellssveitina að sækja fagurlit blóm. Svona leið dagurinn.