Vinir okkar hestarnir

FEBRÚARDAGAR 2012

22.2. MIÐVIKUDAGUR

Ágætis veður í dag. Hiti 3° frá morgni til kvölds. Stöku skúrir.

Elsti hestanna sex, sem nú eru í hesthúsi hjá okkur, er Logi frá Húnavöllum, hestur Jónasar. Logi er fæddur 1988, alrauður og algjör hríðskotabyssa á töltinu, ef hann fær að ráða hraðanum. Eftirminnilegt er þegar við vorum mörg saman í hestaferð fyrir alllöngu og lentum í því, að hestahópurinn skiptist í tvennt. Annar fór rétta leið, en hinn á þeysispretti til baka leiðina daginn áður. Jónas var á Loga, sem fór á harðaspretti langa leið fram úr öllum hópnum og þeir félagar gátu stöðvað strokuhestana. Logi fékk að hvíla sig eftir ósköpin, en virtist reyndar ekki þreyttur eftir lætin. Hann er nú 24 vetra, ennþá ótrúlega þolinn og fús til að taka sprettinn. Jónas heldur honum gjarna fyrir aftan mig á einhverjum minna hesta, svo að Logi sé aðeins stilltari. Merkilegur hestur.

23.2. FIMMTUDAGUR

Ekki sérlega notalegt veður. Hvasst og rigning öðru hverju. Mestur hiti 2°.

Djarfur heitir annar hestur Jónasar, rauður með stjörnu, hágengur og ber sig vel. Djarfur er frá Kálfholti, vel ættaður og fallegur hestur. Faðir hans var Toppur frá Eyjólfsstöðum og móðir Nótt frá Kálfholti. Djarfur er viljugur og fer mjög fallega á töltinu. Hann er nú 21 vetra og í góðu formi. Katrín er mjög ánægð með Djarf. Hún kemur stundum með okkur í reiðtúra, og þá kemur ekki annar til greina en Djarfur.

24.2. FÖSTUDAGUR

Rok og rigning og öldugangur í morgunsundinu. Eftir hádegi var svo bara ágætis veður. Fór í þrjá reiðtúra í þessu ágæta veðri.

Léttir heitir enn einn af ágætum hestum Jónasar. Léttir er undan Flygli frá Votmúla, flottur hestur og gangmikill. Hann var ódæll framan af, hélt sig frá hinum hestunum, vildi ekki láta ná sér og vék sér undan fólki. Hann skarst illa á enni fyrsta veturinn í hesthúsi og kom það í minn hlut að hlúa að honum, bera á sárin og líta eftir. Það varð til þess að við urðum vinir, hann virtist treysta mér og mér tókst að ná honum í haga. Léttir kom til okkar 11 vetra og er nú orðinn 18 vetra.

Var á flokksráðsfundi VG seinnipartinn og fram yfir kl. 11 um kvöldið. Það var gaman að hitta þar fullt af fólki, sem ég áður vann með, en sem betur fer er þar mikið af nýjum félögum og ekki síst ungum. Ekki eru allir ánægðir með gang mála, en andrúmsloftið er miklu betra en ég átti von á.

25.2. LAUGARDAGUR

Gott veður í dag. Og nú hittumst við frænkurnar í morgunsundinu og höfðum mikið að spjalla eftir langan tíma þar sem við höfðum ekki náð saman. Svo fórum við Jónas skemmtilega reiðtúra í góða veðrinu.

Nú er ég búin að segja lítillega frá reiðhestum Jónasar, sem eru allir eldri en mínir hestar. Minn elsti er Gaukur undan Páfa á Kirkjubæ og því stundum kallaður Páfagaukur. Mjög góður hestur, einn af þeim bestu. Ungur var hann býsna æstur og reif stundum af manni ráðin. Smám saman varð hann minn hestur og líkar mér afar vel. Gaukur er stór hestur, alrauður, með frekar lítið fax, en myndarlegur og ber sig vel. Eitt sinn fór ég með hann á ísilögðu Rauðavatni og urðum við þá fyrir því að honum skrikaði fótur og féllum við saman á ísinn. Eins gott að lenda ekki í vatninu. Hann virtist alveg undrandi og raunar hálf beygður að liggja þar á ísnum, en í ljós kom að hann hafði tapað skeifu, sem er afleitt á ís. Okkur varð þó hvorugu meint af. Gæti sagt margar sögur af samvistum okkar Gauks, en það þyrfti of mikið pláss hér. Gaukur hefur mjög þægilegan gang, töltir vel og án afláts, er duglegur, röskur og þolinn. Er frábær á skeiði, en heldur sér yfirleitt við töltið. Hann er nú orðinn 19 vetra.

26.2. SUNNUDAGUR

Veðrið bæði vont og gott í dag. Tíðir skúrir, og sólin skein öðru hverju. Stórkostlegir regnbogar sýndu sig. Mestur hiti mældist 5°.

Prins heitir einn af mínum hestum. Jónas fékk hann sendan einn góðan veðurdag frá Brynjari á Feti, en ég tók hann seinna að mér. Rauðblesóttur er Prinsinn, frekar stór og myndarlegur, mikið átvagl og oftast alltof feitur. Ekki er hægt að segja að hann sé röskur og lipur blessaður. Hann var seinn til og þarf að hafa fyrir honum. Ég hef alltaf á tilfinningunni að hann geti gert betur og baksa við að ná betra lag á honum. Einn er sá galli að hann reisir helst ekki höfuðið. Prins er af góðum ættum, faðir hans Kraflar frá Miðsitju, móðirin Gifta frá Hurðarbaki. Prins er orðin 18 vetra og verður víst aldrei einn af þeim bestu, en mér þykir samt vænt um hann.

27.2. MÁNUDAGUR

Kólnaði talsvert í dag og var komið niður fyrir frostmark í kvöld.

Það er alltaf erfitt að missa hesta og allra mest þá sem hafa verið manni sérstaklega kærir. Þannig var með hann Víking minn, afar sérstakan hest, sem spattaðist illa og varð að fella fyrir nokkrum árum. Þegar ljóst varð vorið 2005 að Víkingur minn færi ekki fleiri langferðir fór ég fljótlega að svipast um eftir hesti í hans stað. Ég var frekar neikvæð til að byrja með og sannfærð um að aldrei fengi ég jafnoka Víkings til langferða. Leitin stóð þó ekki lengi, við fundum strax álitlegan 7 vetra hest, og ég var nokkuð fljót að ákveða mig. Hesturinn heitir Stormur og er undan Hágangi frá Sveinatungu og Fjöður frá Steinum í Borgarfirði. Stormur er fallegur og myndarlegur,

leirljós hestur með nokkuð breiða blesu, prúður á fax og tagl. Hann reyndist strax vel í ferðum sumarsins og hefur farið fram í öllum gangi. Stormur er með stærstu hestum og ég vil gjarna hafa hesta stóra. Hann er nú orðinn 14 vetra og þar með lang yngstur af okkar hestum. Við munum eiga mörg góð ár enn.

28.2. ÞRIÐJUDAGUR

Undarlegt veðurfar í dag. Ógnandi dökk ský sendu öðru hverju beljandi úrkomu, en sólin lét ekki snúa á sig, heldur skein hin glaðasta inn á milli.

Hef nú sagt lítillega frá hestunum sex, sem við getum enn notað sem reiðhesta. Þegar hestar eru ekki lengur nothæfir leyfum við þeim að eiga það náðugt. Nú eru þrír slíkir að njóta frelsisins í túnum Kaldbaks. Einn af mínum allra bestu hestum, Prúður, hætti allt í einu fyrir 4 árum að vilja bera mig. Eftir nokkra glímu ákvað ég að leyfa honum að njóta ellinar í þökk fyrir stórkostlegar samvistir. Prúður er orðinn 25 vetra. Þar er einnig Kári, sem ég reið mikið í ótal ferðum. Viljugur, þægilegur og mjög góður ferðahestur. Orðinn 26 vetra. Sá þriðji er Garpur, sem Jónas á. Garpur var frábær á skeiði og gaman að sjá hann á glæsilegu flugi um grundir eða á Löngufjörum, sem við höfum ótal sinnum farið. Garpur er 22 vetra og orðinn þreyttur kappi.

Dóra og synir komu heim að utan í nótt. Voru að ganga frá í Gent og Brüssel, þar sem þau höfðu verið sitt á hvað hálft þriðja ár. Komu við í London, fóru á fótbolta og sáu uppáhaldsliðið Arsenal vinna mikinn sigur á Tottenham. Komu himinlifandi heim.

29.2. MIÐVIKUDAGUR – HLAUPÁRSDAGUR

Aldrei hægt að reiða sig á veðrið. Vont í morgun. Gott og fallegt eftir hádegið. Rauk svo upp með hörkulegu éli þegar við vorum í miðjum reiðtúr.

Þórður og Sólrún komu til okkar í kvöld. Við spiluðum bridds í miklum móð, og ég fékk hvað eftir annað slík spil að ég varð að segja eiginlega meira en ég réð við. En það var gaman.