MARSDAGAR 2012
8.3. FIMMTUDAGUR
Talsvert hefur snjóað og virðist fram undan mikil úrkoma næstu dagana, ýmist rigning eða snjókoma. Reiðtúrar eru lítið spennandi þegar veðurfarið er sitt á hvað og oftar en ekki ansi kalt. Mælingar voru ýmist undir frostmarki eða aðeins yfir.
9.3. FÖSTUDAGUR
Enn er frost og talsverður snjór. Sólin skín öðru hverju, en vindurinn rýkur hvað eftir annað upp og sendir okkur snjófjúk.
Nú stendur hér við hús okkar gámur með búslóð Dóru. Hafa þær farið víða, bæði Dóra og búslóðin. Flest keypt í Naples, þegar hún var þar að læra flug. Þaðan fór góssið til Belgíu, og nú er það komið hingað.
10.3. LAUGARDAGUR
Rigningin réði ríkjum í dag og hvassviðrið með. Hitinn fór alla leið upp í 7°, en ólíklegt að svo verði næstu daga.
Dóra hefur fengið góða aðstoð við að tæma gáminn þessa dagana, en nú er aldeilis puð við að koma þessu öllu fyrir. Sindri og Breki eru heldur betur ánægðir að fá rúmin sín. Eru þó svo óheppnir að verða báðir lasnir, Sindri með kvef og hita og Breki með magapínu.
11.3. SUNNUDAGUR
Mjög hvasst í morgun. Mikill öldugangur í sundlauginni. Lægði þó nokkuð eftir hádegið. Mestur hiti í dag reyndist 6°.
Í því leiðindaveðri sem verið hefur höfum við látið okkur nægja að horfa á hestana í gerðinu, nenntum sem sagt ekki að berjast við rigningu eða snjófjúk. Í dag komumst við loks í tvo reiðtúra, og mikið voru hestarnir hressir og kátir, virtust fegnir að spretta úr spori. Merkilegast að Prinsinn, sem hefur löngum verið mér ögn erfiður, var svona líka ágætur að ég var bara himinlifandi. Eftir að vita hvort ánægjan endist.
12.3. MÁNUDAGUR
Ágætt veður í dag, en æsti sig talsvert að kvöldi. Herti þá vindinn og hitinn fór upp í 6°. Má nú búast við rigningunni, sem spáð hefur verið meira og minna allan daginn, en ekki rigndi á Nesinu. Heldur ekki meðan við vorum í Víðidalnum að hreyfa hestana okkar.
13.3. ÞRIÐJUDAGUR
Veðrið var sæmilegt í dag. Dálítill vindur og stöku sinnum rigningardemba, sem stóð ekki lengi. Mestur hiti 5°.
Prinsinn fallegi er merkilega duglegur og þýður þessa síðustu daga. Ég hef lengi glímt við hann og mikið reynt að liðka hann. Og nú finnst mér hann sannarlega betri en áður. Vonandi heldur hann áfram að bæta sig.
14.3. MIÐVIKUDAGUR
Sæmilegt veður í dag, en nokkuð kalt. Mestur hiti 2°.
Enn engist ég tvisvar í viku á bekknum hjá Ísak. Hætt við að svo verði lengi enn. Finnst þó axlir og handleggir skárri.
Þrestirnir og stararnir koma enn að fá sér í gogginn hjá mér, þótt þeir eigi nú auðveldar með að afla sér matar. Alltaf gaman að fygjast með þeim og ekki síður gaman að sjá blómstönglana rjúka upp í beðinu undir suðurglugganum. Vetrargosinn er alveg að springa út, og páskaliljurnar lofa góðu. Átti eiginlega ekki von á svona mikilli grósku á þessum tíma, eins og veðrið hefur verið. Vorið teygir sig upp úr blómabeðinu.