Með illu skal illt út reka

MARSDAGAR 2012

1.3. FIMMTUDAGUR

Á ýmsu gengur á Fróni. Jarðskjálftar urðu við Helgafell um síðustu nótt, óvenju nálægt höfuðborgarsvæðinu. Margir urðu þess varir, en litlar skemmdir urðu. Allt var snjóhvítt og kalt hér að morgni. Fordinn var hélaður, og ég þurfti mikið að skafa til að komast í morgunsundið.

Er nú komin í sjúkraþjálfun með aumar axlir, herðablöð og handleggi, hvernig sem mér tókst að afla mér þess arna. Með illu skal illt út reka hugsa ég meðan Ísak þjálfari glímir við bólgna og auma vöðva. Hef trú á Ísak.

2.3. FÖSTUDAGUR

Það rigndi mikið í dag. Öllu verra var hvassviðrið. Svo hvasst var í Víðidal að við áttum bágt með að opna stíurnar og koma hestum okkar inn í húsið. Þeir voru hressir og kátir meðan þeir viðruðu sig í gerðinu. Hitt var verra.

Sá forsýningu á Vesalingunum í Þjóðleikhúsinu í kvöld. Þegar ég var krakki las ég þá miklu bók um Vesalingana og er alveg hissa hvað ég man úr þeirri sögu. Söngleikurinn Vesalingarnir er mikið verk og hefur óneitanlega talsvert önnur áhrif en sagan sjálf. En mér fannst þetta vel gert og hafði mjög gaman af.

3.3. LAUGARDAGUR

Gott og fallegt veður í dag. Glaða sólskin, en reyndar svolítill vindur og þar með ögn kalt. Mestur hiti mældist 3°.

Hestamenn voru harla ánægðir með veðrið og notuðu það óspart. Við fórum tvo reiðtúra kringum Rauðavatn. En þegar ég ætlaði að leggja á Storm kom ég auga á ljótt sár á fæti hans. Hreinsaði sárið eins og ég gat með sérstöku hreinsivatni, þarf að bera betur á hann seinna. Hann var ekki alveg sáttur við þetta fikt í mér.

4.3. SUNNUDAGUR

Veðrið var stundum gott, stundum sólskin, en stundum snjókoma og býsna kalt. Hitinn fór lítið yfir frostmark.

Óvenju margt var í Víðidalnum og allt um kring. Mættum heilum hópi hestafólks í kringum Rauðavatn. Stormur minn er lítið hrifinn af tilraunum mínum til að lækna sár hans á afturfætinum. Þarf að fá Katrínu til að líta á sárið.

Í kvöld var sameiginleg afmælisveisla Áslaugar 6 ára 9.2. og Kristínar 10 ára 7.3. Miklar kræsingar fylltu borðin og var vel notið. Og ekki var minni kátína þegar gáð var að afmælisgjöfunum.

5.3. MÁNUDAGUR

Dynjandi rigning í mestallan dag og vaxandi hvassviðri. Mestur hiti mældist 4°.

Stormur leyfði mér að þvo sárið sitt og bera þar á smyrsl. Mér sýnist það vera að skána, og á morgun getur Katrín vonandi litið á báttið, eins og börnin segja.

6.3. ÞRIÐJUDAGUR

Leiðinlegt veður í dag, rigning, frekar hvasst og kalt. Mestur hiti mældist 2°.

Katrín skoðaði sárið á Stormi og taldi það á góðum batavegi. Ég ber á það smyrsl daglega þar til það getur talist alveg batnað.

Síðla kvöld hvessti sífellt meira og skyndilega var orðið mjög hált. Ég sat hér við tölvuna og heyrði allt í einu hávaða og brak og sá bíl hendast í loftköstum eftir Norðurströndinni. Þetta var hrikalegt að sjá. Bíllinn í klessu, en sem betur fer mun bílstjórinn ekki hafa meiðst. Ótrúleg heppni.

7.3. MIÐVIKUDAGUR

Allt er nú snjóhvítt, fremur hvasst og úfinn sjór. Öðru hverju snjóar hraustlega. Sólin rembist við að skína þegar færi gefst.

Í dag veitti DV Menningarverðlaunin, sem hafa verið við lýði síðan árið 1978. Jónas kom þessum ágætu Menningarverðlaunum á legg í samstarfi við Aðalstein Ingólfsson, meðan þeir voru báðir starfandi á DV. Þeim hefur verið vel tekið allan þennan tíma. Í þetta sinn er Jónas sjálfur tilnefndur til verðlauna í flokki fræða fyrir árið 2011. Auðvitað er þar um að ræða bókina góðu “Þúsund og ein þjóðleið”.