MARSDAGAR 2012
23.3. FÖSTUDAGUR
Allgott veður í dag. Engin úrkoma, en dálítið sterkur vindur. Mestur hiti 10°.
Mikið hefur snjóað og enn meira rignt. Það leynir sér ekki vítt og breytt. Rauðavatnið hefur fengið sinn skammt, ég hef ekki séð þar annað eins háflæði. Tré og runnar standa úti í vatninu, og sums staðar þarf að þræða sig eftir öðrum leiðum.
24.3. LAUGARDAGUR
Ágætt veður í dag, mestur hiti 9°. Betra hefði þó verið ef ekki hefði verið svo fjári hvasst. Og með kvöldinu kom dynjandi rigning.
25.3. SUNNUDAGUR
Gott veður í dag, þótt nokkuð blési og rigndi öðru hverju. En það var hlýtt í rigningunni og mestur hiti var 9°. Það var vorlegt síðari hluta dagsins, sólin skein og blómin bættu við sig, og fólkið spásseraði fram og aftur með gleðibragði.
26.3. MÁNUDAGUR
Það var verulega hvasst í dag og heldur leiðinlegt veðrið þess vegna, þótt hitinn mældist mest 9°. Um kvöldið rigndi heilmikið.
Mikið er búið að rigna þessa daga og vatnið flæðir út um allt. Fór nýlega að huga að fuglum á Bakkatjörn og brá í brún hvað tjörnin hefur bætt við sig. Þar er nú mikið af álftum, öndum hefur fjölgað og tjaldurinn lætur til sín taka.
27.3. ÞRIÐJUDAGUR
Nokkuð hvasst sem fyrri daginn, en þó betra veður. Mestur hiti mældist 7°. Öðru hverju rigndi. Nú voru engin vandkvæði á því að hreyfa hestana, og reyndar höfum við oftast getað farið reiðtúra þótt veðrið hefði verið af ýmsu tagi.
Kristján okkar er 48 ára í dag. Það er alltaf jafn gaman að rifja upp gömlu dagana, þegar börnin voru lítil. Er ekki viss um að þeim þyki jafn gaman að minnast þess.
28.3. MIÐVIKUDAGUR
Enn rignir talsvert. Mestur hiti mældist 6°. Létum ekki rigninguna hefta okkur frá því að bregða okkur á hestbak. Prinsinn hrasaði í bleytunni og skítnum svo rækilega að ég sturtaðist fram af honum á hausinn. Vorum eiginlega bæði jafn hissa á þessum fimleikum, og sem betur fór vorum við jafn góð eftir.
29.3. FIMMTUDAGUR
Þoka allan daginn. Það grillti vart í húsin í Höfuðborginni og alls ekki í fjöllin. Veðrið var annars bara ágætt. Mestur hiti mældist 7°.
Mokað út úr hesthúsinu í dag. Það er alltaf heilmikið stúss þótt mesta fyrirhöfnin sé hjá manninum með bobbkattinn. Gott að sjá hestana koma aftur inn í snyrtilegri stíur.
30.3. FÖSTUDAGUR
Ágætt veður í dag, lítill vindur og mestur hiti 6°.
Við Dóra og Ómar skemmtum okkur í morgun í Snælandsskóla. Þar sýndu krakkarnir leikrit og sungu af hjartans list. Við höfðum auðvitað hvað mest gaman af að sjá Breka, sem stendur sig alltaf vel við slíkar aðstæður.
31.3. LAUGARDAGUR
Góður dagur. Frekar hlýtt og lítill vindur. Mestur hiti mældist 5°. Vantaði bara sólina, enda var þoka nánast allan daginn.