Fall er fararheill

APRÍLDAGAR 2012

1.4. SUNNUDAGUR

Gott veður í dag – ekkert aprílgabb með það. Veðrið var fallegt og sólin skein. Mestur hiti mældist 5°.

2.4. MÁNUDAGUR

Gott og fallegt veður. Að vísu heldur kaldara en síðustu daga. Mestur hiti 3°.

Í dag kom nýr hestur í hópinn okkar, Breki frá Auðholtshjáleigu, 8 vetra. Fallegur hestur, alrauður, ber sig vel. Faðir Þyrnir frá Þóroddsstað, móðir Vordís frá Auðholtshjáleigu. Hann hefur fengið góða umsögn og við vonum að það muni standa, þótt ekki byrjaði vel í dag. Jónas sat hann og lenti í því að detta tvisvar af baki. Í fyrra skiptið varð Breka eitthvað illt við og henti Jónasi af, en nokkru síðar hrasaði Breki og féll við. Jónas féll aftur af baki, og það var öllu verri bylta. Fall er fararheill, segir máltækið, eins gott að hafa það í huga.

Pétur og Marcela óku Norður í dag. Ætla að eiga góða daga í Varmahlíð næstu viku. Pétur hringdi í kvöld. Reykjadalur var alhvítur af snjó og sólin skein á heiðum himni.

3.4. ÞRIÐJUDAGUR

Ágætt veður í dag, sæmilega hlýtt, lítils háttar úrkoma.

Sindri og Breki komu með mér í hesthúsið. Breki fór stuttan túr á nafna sínum og brá sér einnig aðeins á bak Stormi, er hrifinn af honum eins og hinir krakkarnir. Það var ekki auðvelt að koma Breka (hestinum!) í stíuna sína eftir útivistina. Þurfti að reyna ótal klæki áður en það gekk. Hann er hvergi banginn við hina hestina, en er ekki alveg sáttur við nýja staðinn. Það kemur áreiðanlega fljótt.

Í kvöld var hringt og upplýst að Dugur væri á leiðinni. Við tókum að sjálfsögðu virðulega á móti honum og buðum honum í stíu með Stormi og Loga. Dugur var greinilega svangur og hugsaði um lítið annað en að skófla í sig heyið. Dugur frá Kálfhóli er 13 vetra, rauðskjóttur, stór og fallegur hestur. M.a.s. stærri en Stormur! Faðir er Kveikur frá Miðsitju, móðir Fluga frá Skálholti.

4.4. MIÐVIKUDAGUR

Veðrið var ágætt í dag, en sólin lét ekki sjá sig. Lítils háttar úrkoma lét á sér bera. Mestur hiti mældist 7°.

Í dag fórum við á þessa nýkomnu hesta, Jónas á Breka, ég á Dug. Við erum bjartsýn á framgang þeirra, en það tekur tíma að venjast þeim. Dugur er sérlega háfættur, en af einhverjum ástæðum hef ég yfirleitt verið með stóra hesta og kann því vel. Dugur er viljugur og vill ríða hratt.

5.4. FIMMTUDAGUR – SKÍRDAGUR

Það rigndi nánast látlaust í dag. Veðrið var stillt og rigningin svo hófleg að ég áttaði mig ekki á því hvað ég var orðin blaut fyrr en á heimleiðinni.

Ég á erfitt með að halda aftur af Dug, það er svo mikið kapp í honum. Líklega þyrfti ég að fá kennara í smátíma til að ná réttri stillingu.

Sindri og Breki hafa eignast tvær litlar kisur, Snældu og Sneplu. Þær hafa verið í kjallaranum, en nú hafa þær verið hér uppi og ráða sér varla fyrir fjöri.

6.4. FÖSTUDAGURINN LANGI

Þokusúld allan daginn og dálítil rigning. Annars lítill vindur og þokkalega hlýtt. Mestur hiti 6°.

Pálmi og Sigrún buðu upp á foreldra”bröns”, þ.e.a.s. Ásdísi og Kristjáni, Jónasi og mér, í hádeginu. Pálmi og Sigrún eru svo flink að búa sjálf til alls konar góðgæti, sem rann ljúflega niður. Skemmtilegt spjall í ofanálag.

Nú fór ég í reiðtúr á Breka og gekk vel. Hann er ótrúlega mjúkur og verður væntanlega enn betri eftir því sem við venjumst honum. Jónas ætlaði að prófa Dug, en hann var þá búinn að tapa skeifu.

7.4. LAUGARDAGUR

Það rigndi nánast allan daginn og stundum mikið. Mestur hiti 8°.

Þorgrímur setti skeifu undir Dug, svo að nú fórum við góðan túr, Jónas á Dug og ég á Breka. Dugur er talsvert stirður, enda ekki notaður um nokkurt skeið. Hann verður góður eftir dálitla þjálfun. Gengur vel með Breka.