Vernd og víðerni

Síðastliðinn föstudag birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni “Stærsta ósnortna víðerni álfunnar í húfi”, en hana má einnig finna í greinasafni mínu. Ég hef fengið mikil viðbrögð við þessari grein, meiri en oft áður, því þetta er hreint ekki fyrsta greinin sem ég hef skrifað um þetta efni. M.a. varð hún til þess að Þorfinnur Ómarsson bauð mér í laugardagsþáttinn sinn ásamt Helga Péturssyni og Kolbeini, formanni Verslunarráðs. Reyndumst við hjartanlega sammála um skaðsemi stóriðju- og stórvirkjanastefnunnar og nauðsyn þess að vernda náttúru landsins og einkum ósnortin víðernin.

Mér finnst ég skynja sívaxandi þunga í þessari umræðu allri og held að viðbrögð við fyrrnefndri grein eða efni hennar, sem ég hef þó oft áður rætt og skrifað um, sýni einfaldlega að sífellt fleiri gera sér grein fyrir verðmætum náttúrunnar og nauðsyn þess að bregðast við henni til varnar. Þökk sé þeim mörgu sem hafa tjáð sig um þetta efni. Þökk sé umfjöllun fjölmiðla, stórfenglegum sjónvarpsþáttum og vönduðum greinaflokki Morgunblaðsins á síðasta ári. Þökk sé aðgerðum Guðmundar Páls Ólafssonar þegar Fögruhverum var sökkt undir miðlunarlón. Þökk sé frábærum baráttufundi til varnar hálendinu í Háskólabíói á síðasta hausti o.s.frv. o.s.frv.

Mikið hefur áunnist í þessari baráttu. Umræðan er gjörbreytt, viðhorfin allt önnur en þau voru fyrir aðeins fáum árum þegar náttúruverndarsinnar voru sem hrópendur í eyðimörkinni. En við þurfum fleiri raddir og meiri baráttu, því enn steðjar hættan að sem aldrei fyrr.