Kynbundinn launamunur 18%

Enn ein skýrslan hefur litið dagsins ljós þar sem kynbundið launamisrétti er staðfest á óyggjandi hátt. Í rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann að tilhlutan Verslunarfélags Reykjavíkur kemst hún að þeirri niðurstöðu að karlmenn í hópi félagsmanna hafi 30 % hærri heildarlaun en konur. Viðurkennt er að kynbundinn launamunur nemi 18 % meðal fólks í fullu starfi þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, vinnutíma, starfsaldurs og aldurs. Þannig er sem sagt staðan á því herrans ári 1999 eftir áratuga baráttu fyrir jöfnum rétti kvenna og karla. Enn einu sinni sannast að ekki er hið sama á borði sem í orði. Viðhorfin og hugarfarið eru söm við sig.

Í rauninni kemur þessi niðurstaða ekki á óvart. Hún er fullkomlega í takt við niðurstöðu samanburðar Félagsvísindastofnunar á launakjörum kvenna og karla sem birt var í byrjun árs 1995 og varð tilefni mikillar umfjöllunar í kosningabaráttunni það ár. Í þeirri könnun vakti ekki síst athygli og umræður sú staðreynd að kynbundinn launamunur fer vaxandi eftir því sem menntunin er meiri. Þar með reyndist tálvon að lykillinn að launajafnrétti væri fólginn í menntun kvenna til jafns á við karla, en því hefur einmitt mjög verið haldið að konum sem svo sannarlega hafa sótt fram á sviði menntunar og rannsókna á síðustu áratugum. Þegar þær hins vegar koma út á vinnumarkaðinn með lykilinn að launajafnréttinu í höndum sér er einfaldlega búið að skipta um skrá.

Það er nöturleg staðreynd að þrátt fyrir verulegan árangur í sókn kvenna til jafnrar stöðu á flestum sviðum samfélagsins er launamunur kynjanna enn hinn sami og hann var þegar svo átti að heita að hann væri afnuminn með lögum. Veruleikinn er því miður oft víðs fjarri orðaflaumi laganna. Og hugarfarsbyltingin fer með hraða snigilsins.