Sumarið gerir fólk latt að halda við heimasíðum sínum. Sú er niðurstaða mín eftir að hafa heimsótt nokkrar heimasíður stjórnmálamanna. Reyndar virðist leti þeirra ekki bara venjulegu veðurfari að kenna, veðrabrigði stjórnmálanna hafa greinilega sitt að segja. Nokkrir hafa ekki haft neitt að segja gestum sínum allar götur síðan í miðri kosningabaráttu þrátt fyrir yfirlýsingar um reglulega pistla.
“Dagbók” utanríkisráðherra nær ekki lengra en til febrúar sl. “Vikulegur pistill” Sigríðar Jóhannesdóttur birtist síðast í apríl. Síðasti “vefpistill” Jóhönnu Sigurðardóttur er skrifaður í maí og hefur að geyma þakkarávarp til samfylkingarfólks í Reykjavík. Umhverfisráðherra upplýsir í síðasta pistli sínum 2. júlí að hún sé á leið á harmonikkuhátíð á Siglufirði. Ekkert hefur verið “efst á baugi” hjá Pétri Blöndal síðan í apríl. Krisján Pálsson virðist ekki hafa skrifað grein síðan 1998. Hjá Árna R. Ragnarssyni er ekkert “í brennidepli” síðan í maí. “Dagbók” formanns fjárlaganefndar endar í janúar og hann hefur ekki einu sinni uppfært greinasafnið og er þó einhver mikilvirkasti greinaskrifari í hópi alþingismanna. Og þannig mætti áfram telja.
Þessi niðurstaða er hálfhlægileg með tilliti til hátíðlegra ávarpa þeirra á upphafssíðum um mikilvægi þess að nýta þessa nýju tækni til þess að koma upplýsingum skjótt á framfæri og halda sem bestum tengslum við kjósendur. Stendur tíminn kyrr hjá þessu fólki?