Lítil vörn á Alþingi

Um þessar mundir líður ekki sá dagur, að ekki sé minnst á Eyjabakkasvæðið og andmæli gegn eyðileggingu þess. Ekki veitir af og enn má þó herða róðurinn því sífellt er sótt að náttúrunni þar sem víða annars staðar af ótrúlegri skammsýni og ábyrgðarleysi gagnvart hagsmunum framtíðar.

Umhverfis- og náttúruverndarsamtök og samtök í ferðaþjónustu hafa ályktað gegn röskun á þessu mikilvæga svæði norðan Vatnajökuls. Erlend náttúruverndarsamtök láta málið til sín taka og munu án alls efa gera það í vaxandi mæli í náinni framtíð. En á sama tíma sitja stóriðju- og virkjanaöflin við sinn keip. Finnur og félagar sýna gömlum sem nýjum fjárfestum í mengandi stóriðju mikil vinahót og láta sem þeir heyri ekki né sjái andmæli og varnaðarorð verndarsinna.

Umræður á vorþingi Alþingis að frumkvæði Vinstri grænna leiddu m.a. í ljós að afstaða þingmanna innan stjórnarflokkanna gagnvart hagnýtingu víðernanna á hálendinu norðan Vatnajökuls er ekki á einn veg. Varast skyldi þó að ofmeta það þótt tveir af 38 stjórnarliðum hafi lýst sig fylgjandi lögformlegu umhverfismati vegna Fljótsdalsvirkjunar. Hinir 36 eru áreiðanlega flestir sauðtryggir Finni og félögum sem fara gegn hagsmunum náttúrunnar og framtíðarinnar með fullkominni óbilgirni, vopnaðir slagorðum um lausn á byggðavanda og gott ef ekki efnahagsvandanum í bráð og lengd.

Trúlega vill meiri hluti stjórnarandstöðunnar vernda Eyjabakkasvæðið. Vinstri grænir eru einhuga í þessu máli, en innan Samfylkingarinnar eru nokkrir þingmenn hlynntir stóriðju og virkjanaframkvæmdum. Það er því augljóst að víðernin á hálendinu eiga ekki næga vörn á Alþingi eins og það er nú skipað. Verndarsinnar utan sem innan þings þurfa að halda vöku sinni sem aldrei fyrr.