Skattur og kvenfrelsi

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ákvæði í skattalögum um millifærslu persónuafsláttar milli maka verði breytt þannig að ónýttur persónuafsláttur maka nýtist að fullu. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eiga þessar breytingar að gerast í áföngum, sá fyrsti þeirra komi til framkvæmda á næsta ári og verði þá 85% persónuafsláttar nýtanlegur í stað 80% hans eins og nú er.

Undarlega lítil viðbrögð hafa orðið við þessum fréttum sem ef til vill falla í skuggann fyrir stórmálum á borð við Fljótsdalsvirkjun, sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, gerræðisleg vinnubrögð við skipan vísindasiðanefndar og sitthvað fleira sem ríkisstjórnin ástundar ofan úr fílabeinsturni sínum. Þó birtist greinarkorn í Morgunblaðinu í dag eftir Guðmund Magnússon prófessor undir fyrirsögninni “Ómagar og hænsnabú” sem er reyndar lítið upplýsandi fyrir innihald greinarinnar, en fögnuður höfundar leynir sér ekki yfir þessari breytingu á skattalögunum.

“Margir fjármálaráðherrar hafa misst af tækifærinu til þess að hrinda þessu í framkvæmd þótt það stuðli bæði að jafnrétti og samheldni fjölskyldna”, segir Guðmundur Magnússon prófessor. Og síðar: “Fjármálaráðherra er því á réttri leið. Hann er að gera skattkerfið hlutlaust gagnvart verkaskiptingu hjóna”.

Þetta er auðvitað gamalkunn túlkun og skoðun margra en engu að síður fullkomlega röng niðurstaða meðan staða kynjanna er svo ójöfn sem raun ber vitni. Þetta ákvæði vinnur beinlínis gegn frelsi konunnar til að velja hvernig hún hagar lífi sínu. Konur eru að miklum meiri hluta tekjulægri en karlar og þá munar marga um persónuafsláttinn þeirra til að lækka skattana sína. Vissulega getur það komið betur út fjárhagslega fyrir heimilin og þess eru mörg dæmi að einmitt það hafi orðið konunni fjötur um fót þegar hana langar til að fara út á vinnumarkaðinn eftir tímabundið annríki við umönnun og uppeldi barnanna. Skilaboðin til þeirra eru að það borgi sig ekki fjárhagslega að ógleymdum stöðugum áminningum um það hlutverk þeirra að annast nú börnin og heimilið almennilega. Þetta er því síður en svo hlutlaust ákvæði heldur skapar ósanngjarnan þrýsting á konur með heimili. Enda segir prófessorinn í grein sinni: “Millifærsla að fullu hvetur til þess að börnum sé sinnt heima. Það er miklu einfaldara að fara þessa leið en að fara að borga foreldri í beinhörðum peningum fyrir að vera heima.” Fróðlegt væri að vita hvort prófessorinn hefur skoðun á því hvort foreldranna á að vera heima!!!

Því miður nýtur þessi stefna mikils stuðnings í þjóðfélaginu og ástæðan er auðvitað sú að fjölskyldur munar um hvern frádráttarlið. Miklu eðlilegra væri að hver fullorðin mannsekja væri sjálfstæður skattgreiðandi óháð því hvort hann eða hún er opinberlega og formlega talin(n) sofa hjá öðrum skattgreiðanda og má nú minna á háværa gagnrýni fyrr á þessu ári á það óréttlæti að fólki á launum hjá Tryggingastofnun sé gert að sæta skerðingu vegna tekna maka. Allir tóku undir þá gagnrýni og virtust sammála um nauðsyn leiðréttinga.

Réttlátasta aðgerðin til þess að létta undir með fjölskyldum í skattalegu tilliti væri að forráðamenn barna fengju persónuafslátt þeirra til frádráttar frá tekjum sínum. Þá skiptir heldur ekki máli hvort um er að ræða hjón eða ekki. Það þarf hvort eð er að endurskoða þann stuðning við fjölskyldur sem felast á í barnabótum en hefur minnkað um hundruð milljóna á hverju ári að undanförnu.