Fáksferð um Reykjanes

Nokkurra daga hestaferðir um byggðir eða óbyggðir þessa lands okkar eru sá þáttur hestamennskunnar sem veita hvað mesta ánægju. Bæði hestar og menn hafa gaman af slíkum ferðum, hestar þjálfast og léttast í fasi og lund og menn sjá land og náttúru á allt annan hátt en þegar þeir þræða bílvegina.

Síðustu 10 árin höfum við hjónin farið slíkar ferðir vítt og breitt um landið, við höfum farið nokkrum sinnum um Borgarfjörð og Snæfellsnes, þar sem þeysireið eftir Löngufjörum er punkturinn yfir i-ið, við höfum farið inn í Arnarfell hið mikla, riðið fram og aftur um Kjöl og Sprengisand, riðið um sveitir Norðurlands, farið víða um Árnes- og Rangárvallasýslur, riðið um Þórsmörk og að Fjallabaki, og þannig mætti áfram telja.

Það var því kannski mál til komið að kanna reiðleiðir hér aðeins nær, fara annað en þessar hefðbundnu leiðir um Heiðmörkina, kringum Rauðavatn og upp í Hólmsheiðina. Og við vorum einmitt að koma úr vorferð Fáks í gærkvöldi, rykug, sólbrunnin, þreytt og ánægð eftir fjögurra daga ferð um Reykjanesið. Við vorum 27 saman og hvert okkar með þrennt til reiðar og aldeilis sjón að sjá þegar allur hópurinn þandi fáka sína um grundir.

Fyrsta daginn riðum við frá Víðidal suður í Voga, en á þeirri leið eru mestan part sérlega góðir reiðvegir í fögru umhverfi. Næsta dag lá leiðin yfir Stapann og til aðseturs Mánamanna handan Keflavíkur þar sem gist var í félagsheimili þeirra og glaðst með þeim. Þriðja daginn var farið til Grindavíkur þar sem grindvískir hestamenn tóku hressilega á móti okkur og fylgdu okkur til Vigdísarvalla og í Króksmýri þar sem er gott aðhald fyrir hesta. En mannskapurinn gisti í verbúðum í Grindavík og þandi raddböndin fram eftir nóttu. Síðasta daginn riðum við svo ýmsar krókaleiðir heim í Víðidalinn.

Veðrið lék við okkur og vorhugur var í hestunum, en merkilegast var að kynnast öllum þessum leiðum og landslagi sem eru að baki allra hæðanna og fjallanna sem blasa við af einum fjölfarnasta bílvegi landsins, Reykjanesbrautinni. Fæstir landsmanna þekkja mikið annað af þessu landssvæði sunnan Hafnarfjarðar að Bláa lóninu undanskildu sem er að verða fjölsóttasti staður landsins. En Reykjanesið hefur margt annað að bjóða, og þótt ýmsum þyki best að njóta þess af hestbaki má víða fara á bíl, þessum þarfaþjóni nútímamannsins. Bíla sáum við reyndar blessunarlega fáa á leið okkar og aðeins örfáa göngumenn.

Um miðjan júlí hefur ferðanefnd Fáks skipulagt helgarferð á svæðið kringum Leirubakka í Landssveit, en stóra ferðin er um Dalina. Hún hefst 24. júlí og endar níu dögum síðar á Löngufjörum. Þetta árið er sem sagt ekkert farið á vegum Fáks um hálendið og er það út af fyrir sig ágætt. Hestaferðir hafa færst mjög í aukana á undanförnum árum og þarf að huga að því að ofbjóða ekki viðkvæmri náttúru hálendisins.