Gúrkur, bananar og fasismi

Jæja, þá er síðustu hestaferð sumarsins lokið, búið að draga undan og sleppa í hausthaga. Blessaðir klárarnir eiga skilið gott frí eftir marga góða spretti þetta sumar sem nú er senn á enda.

Milli ferðalaga og unaðsstunda í okkar ómetanlegu íslensku náttúru hef ég gert áhlaup á dagblaðabunkana og reynt að kynna mér atburði og umræður sumarsins, sem oftar en ekki hafa á sér gúrkublæ. Tíðindi úr fjármálaheiminum minna reyndar fremur á aðra matartegund, þ.e.a.s. banana, og ef málið væri ekki í sjálfu sér grafalvarlegt þá væri óviðráðanlegur hlátur minn hjartanlegri þegar lesinn er sérhver nýr þáttur í FBA-leikritinu. Dylgjurnar og ásakanirnar eru með hreinum ólíkindum og þátttakendur m.a. helstu ráðamenn þjóðarinnar. Má virkilega vænta þess að í náinni framtíð muni hinn íslenski fjármálaheimur einkennast af áflogum og persónuníði á borð við það sem fram fer þessar vikurnar? Eitt er a.m.k. augljóst og það er að ýmsir hafa hagnast dável á síðustu árum og keppast nú við að koma aurum sínum í enn meiri gróða. Þeir njóta þess nú hvað ráðandi flokkar hafa verið skilningsríkir á þarfir fjármagnseigenda og stórfyrirtækja allan þennan áratug.

Mál málanna þessar vikurnar er þó enn og framvegis virkjana- og stóriðjuáformin á Norðausturlandi. Greinaskrifum linnir ekki, ályktunum og yfirlýsingum fjölgar stöðugt og æ fleiri geta nú talað af reynslu um svæðið sem fer undir vatn ef áformin ná fram að ganga. Enda var farið að fara svo um virkjanasinna þar austur frá að þeir sáu sér ekki annað fært en að stofna samtök til framdráttar sínum málstað. Ef framlag þeirra til umræðunnar verður til frambúðar eitthvað í líkingu við það sem gerðist á stofnfundinum er varla hægt að segja að þar með lyftist hún á hærra plan. Þarna töluðu reiðir og móðgaðir menn sem ýmist skömmuðu eða hæddu verndarsinna. Fjölmiðlarnir voru sérstaklega teknir fyrir og einkum Ómari Ragnarssyni úthúðað á grófan hátt, gys gert að biskupi og hæðst að konum sem lesið hefðu ljóð á Austurvelli. Nýkjörinn formaður samtakanna klykkti út með því að segja að skynsamleg umræða um sambúð fólks og náttúru væri kaffærð af umhverfisfasistum sem blómstruðu í ótakmarkaðri athygli fjölmiðlanna.

Þarna tala reiðir og rökþrota menn. Margt hefur verið sagt og skrifað um þetta mál og sjálfsagt hefur eitthvað í öllu því flóði verið þannig fram sett að einhverjum hafi fundist talað niður til sín eins og fram kom á fundinum. En að stilla þessum skoðanaskiptum upp á þann veg að þarna takist á sjónarmið umhverfisfasista að sunnan annars vegar og hins vegar þeirra sem vilja efla byggð á Austurlandi er bæði ósvífið og beinlínis rangt. Nær væri að tala um átök milli viðhorfa gærdagsins og morgundagsins. Stefna stórvirkjana og stóriðju er stefna gærdagsins sem hefur kostað okkur mikil náttúruspjöll. Nú er brýnt að staldra við og velta fyrir sér afleiðingunum og umfram allt ekki varpa sér niður í skotgrafir byggðastefnu og umhverfisfasisma.

Sívaxandi fjöldi fólks vill stöðva gegndarlausan ágang á dýrmæta náttúru landsins, vill hindra þá eyðileggingu sem aldrei verður aftur tekin ef virkjanaáform verða að veruleika. Þetta fólk er ekki andvígt Austfirðingum, það er ekki á móti byggð á Austurlandi, það er ekki á móti uppbyggingu atvinnu þar. Þvílík fjarstæða að halda slíku fram. Álver í Reyðarfirði er einfaldlega ekki sá bjarghringur sem sumir vilja vera láta. Það gæti þvert á móti orðið myllusteinn um háls heimamanna. Með þeirri gífurlegu röskun sem áformuð er á hálendinu norðan Vatnajökuls væri þjóðin að saga undan sér vænlegustu greinina sem hún nú situr á í atvinnulegu tilliti. Ósnortin víðerni lands okkar eru sá fjársjóður sem við eigum – ennþá – umfram aðra. Það er ein sterkasta röksemdin gegn Fljótsdalsvirkjun eins og hún er hönnuð og fyrirhuguð. Með þeirri framkvæmd yrði gengið svo á þetta svæði að við Íslendingar gætum ekki lengur státað af stærsta ósnortna víðerni Vestur-Evrópu. Þá myndu Norðmenn endurheimta þann titil úr höndum okkar.

Það er líka rangt sem margir hafa haldið fram í hita leiksins að þá fyrst hafi verndarsinnar risið upp þegar virkja átti fyrir austan. Baráttan fyrir verndun Þjórsárvera var löng og erfið, en hún fór ekki jafn hátt og sú barátta sem nú er háð vegna þess að náttúruvernd átti erfitt uppdráttar á þeim tíma og formælendur fáa. Sem betur fer hafa viðhorfin gjörbreyst á síðustu árum. Og þau munu halda áfram að breytast náttúrunni í hag, enda er líf mannsins á þessari jörðu undir því komið að okkur takist að snúa af braut náttúruspjalla og ofnýtingar auðlinda og stefna í sjálfbæra þróun á öllum sviðum.